Benedikt Gestsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Klúbbsins Geysis, er einn þeirra sem unnu að undirbúningi Útvarps Geysis ásamt fjölda félaga í klúbbnum. Til þess að gera Klúbbinn Geysi sýnilegan í flóru þeirra úrræða sem miðuð eru að endurhæfingu geðsjúkra á Íslandi var ákveðið að prófa að setja á stofn útvarp sem næði til höfuðborgarsvæðsins.
Þar sem klúbburinn byggir á þátttöku félaga í verkefnum á vinnumiðuðum degi, smellpassaði hugmyndin um útvarp inn í módelið sem klúbburinn vinnur eftir. Allir klúbbfélagar sem áhuga höfðu var velkomið að taka þátt, hvort sem var í dagskrárgerð, tæknilegum lausnum eða koma í viðtöl. Þetta tókst mjög vel og voru félagar mjög áhugasamir um þetta verkefni og eru þegar farnir að ræða hvort möguleiki sé á að endurtaka það að ári. Kjarninn hitti Benedikt og tók hann tali.
Hvers konar klúbbur er Geysir?
Klúbburinn Geysir tók formlega til starfa árið 1999. Tilgangur og markmið hans er að bjóða þeim sem glíma við geðræn veikindi upp á endurhæfingu sem byggist á þátttöku þeirra í vinnumiðuðum degi í klúbbnum. Félagar velja í hvaða deild þeir vinna, en í boði er þátttaka í skrifstofu-, atvinnu- og menntadeild og í eldhús og viðhaldsdeild. Starfsemin sem fram fer í klúbbnum helgast því af heiti deildanna. Meðal starfa sem boðið er upp á klúbbnum er ýmis konar fjáröflun til sérstakra verkefna á vegum klúbbsins. Þegar kom að því að fjármagna verkefnið var ákveðið var að prófa hópfjársöfnun á Karolina Fund.
Hvers konar hugmyndafræði aðhyllist þið?
Klúbburinn starfar samkvæmt alþjóðlegri hugmyndafræði Fountain House, sem byggir á markvissri uppbyggingu áhæfileikum og getu einstaklingsins. Jafnframt því að klúbburinn er vinnustaður fjölda fólks er hann um leið mikilvægur valkostur fyrir geðsjúka, sem vilja setja sér markmið um virkni í samfélaginu.
Endurhæfingarmarkmið klúbbsins byggja á þátttöku félagana í vinnumiðuðum degi, þar sem þeir geta valið úr fjölbreyttum verkefnum sem í boði eru. Öll vinna innan klúbbsins er notendastýrð þar sem félagar taka ákvarðanir varðandi starfsemina ásamt starfsfólki á jafningjagrundvelli. Félagar og starfsfólk vinna í sameiningu að þeim verkefnum sem nauðsynleg eru við rekstur hússins. Í allri vinnu innan klúbbsins er horft á styrkleika og getu hvers og eins í stað þess að einblína á sjúkdóminn. En eins og segir í stefnuyfirlýsing Klúbbsins Geysis:
„Við bjóðum velkomna þá sem eiga eða hafa átt við geðræn veikindi að stríða, til að vinna uppbyggilegt starf á jafningjagrundvelli með það að markmiði að auka samfélagslega þátttöku og efla lífsgæði. Virðing – Víðsýni – Vinátta Samvinna – Samræður – Samhljómur“.
Hvað verður í boði í útvarpi Klúbbsins Geysis?
Þegar farið var að ræða dagskrárgerð vegna útvarpsins kom margt til greina, en niðurstaðan varð sú að helga dagskrána Geysideginum sem haldinn er einu sinni á ári og var haldinn 11. júní síðastliðinn. Dagskrárgerð snerist því að mestu leiti um hugmyndafræði Geysis og því starfi sem fram fer í klúbbnum. Hins vegar snérist dagskráin að áhugamálum félaga og starfsfólks og tónlistarsmekk. Má þar nefna óskalagþætti, íþróttaþætti. Viðtöl við Geysisfélaga og viðtal við verndara klúbbsins, frú Vigdísi Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands og Bjarna Felixson þann þjóðsagnakennda íþróttafréttamann.
Þrátt fyrir að Útvarp Geysis FM 106.1 sé ekki í loftinu lengur þar sem það var aðeins í tvo daga er ennþá möguleiki fyrir fólk að styrkja framtakið. Í dag eru 3 dagar þangað til söfnuninni lýkur á Karolina Fund og enn er nokkuð í land svo að markmiðið náist. Hvetjum því alla til þess að gera sér styrktarferð á hlekk verkefnisins. Svo má geta þess að ýmis verðlaun eru í boði fyrir þá sem styrkja söfnunina. Má þar nefna Fría máltíð í Geysi og þakkar- og viðurkenningarskjal fyrir stuðninginn.
Verkefnið má finna hér.