Magdalena og Serafim eru bæði menntuð hjá NATHA yogacenter í Danmörku, en skólinn er meðlimur í Atman International Federation og yoga and Meditation.
Árið 2007 stofnuðu þau NATHA yogacenter Reykjavík og hefur skólinn starfað óslitið síðan. Einkahlutafélag með sama nafni var svo formlega stofnað sumarið 2015.
Magdalena og Serafim hófu bæði nám við skólann í Danmörku árið 1992, en þekktu þá ekki hvort annað. Í skólanum kynntust þau og tóku fljótlega upp samband sem er byggt á lífsgildum yoga. Eftir um það bil fjögurra ára nám og ástundun hófu þau að kenna við skólann í Kaupmannahöfn og hafa kennt yoga og Tantra síðan.
Í upphafi árs 2016, flutti NATHA yogacenter í Reykjavík inn í nýtt húsnæði, sem einn nemandinn gaf skólanum. Síðan hefur farið fram endurbygging og lagfæring á húsnæðinu og enn er mikið verk óunnið. Þess vegna stendur skólinn nú fyrir hópfjáröflun á Karolina Fund til að fjármagna uppbyggingu á stóra yogasalnum þar sem fyrirhugað er að aðalkennsla NATHA muni fara fram í.
Nýja húsnæði NATHA yogacenter, sem er staðsett á Smiðjuvegi 4B, gefur skólanum möguleika á að kenna stærri hópum og fleiri hópum á sama tíma, sem hefur ekki verið hægt áður. Rýmið veitir nemendum líka tækifæri til að starfrækja hugleiðslu hópa, karma yoga hópa, leiklistar hópa, dans hópa og fleira, til að efla skilning á þeim grunnhugmyndum sem yoga fjallar um. Allt þetta styður við það markmið NATHA, að verða miðstöð kennslu og iðkunar yoga til persónuþroska á Íslandi. Kjarninn hitti Magdalenu og Serafim og tók þau tali.
Hvað er yoga?
Serafim:
„Það eru til margar mismunandi gerðir yoga en það sem við á vesturlöndum venjulega skiljum sem yoga er í raun Hatha yoga. Í Hatha yoga notum við líkama okkar, sem við setjum „í stöður“. Þessar stöður ( asana) vekja með okkur ákveðna orku sem við upplifun sem hugarástand og tilfinningar, Þó að stöðurnar bæti líkamlega heilsu, þá er markmiðið hugarástandið og orkan sem við vekjum.
Patanjalis Yoga Sutra segir að „yoga eyðir óróleika hugans“ sem þýðir að hinn sífelldi flaumur hugsana hverfur og þegar hugur okkar fer að hljóðna förum við að sjá, að okkar innri heimur er einskonar garður, þar sem við ræktum persónuleika okkar. Á hverjum degi gróðursetjum við nýja eiginleika með hegðun okkar og viðbrögðum og styrkjum aðra eiginleika sem fyrir eru, það verður augljóst að hegðun okkar frá degi til dags mótar persónueinkennin og gerir okkur að þeirri manneskju sem við erum, til góðs eða ills. Þessi skilningur hvetur okkur til að vanda okkur við að móta þá persónu sem við viljum vera. Við skiljum að ekkert er mögulegt nema þegar við erum vakandi og meðvituð frá augnabliki til augnabliks. Að einungis þegar við erum sjálfsmeðvituð, getum við breytt út af vananum og gert eitthvað annað en það sem við höfum alltaf gert. Fleiri og fleiri eru að vakna til meðvitundar um að við getum sjálf verið höfundar lífs okkar og að við þurfum ekki að vera eins og sprelligosi sem spriklar í hvert sinn sem umhverfið eða samferðarmenn togar í spottann (eða ýtir á hnappinn okkar).“
Magdalena:
„Við iðkun yoga vaknar með okkur innri kyrrð, sjálfsöryggi og ósérplægni sem ekkert jafnast á við. Yoga eyðir stressi og kvíða, það eykur sjálfstraust okkar, veitir okkur innsæi og samúð, það vekur meðvitund okkar og sýnir okkur, í gegnum eigin innri uppgötvun, hvernig við getum hagað lífi okkar þannig að við verðum okkur sjálfum og öðrum að sem mestu gagni.“
Hafið þið stundað jóga lengi og hver er galdurinn á bakvið gott yoga?
Magdalena:
„Við höfum bæði stundað yoga í yfir 24 ár og kennt yoga í 20 ár. Fyrir okkur er yogaiðkun orðin að hluta af því að vera til og gefur okkur endalausa möguleika á að bæta líðan okkar og hugarástand, Því yogaiðkandi reynir meðvitað að hafa áhrif á hugarástand sitt en lætur ekki umhverfið ráðskast með sig.
Það eru til svo margir yogaskólar á vesturlöndum að það er auðvelt að villast. Ég myndi segja að gott yoga þurfi að vera blanda af þekkingu og iðkun. Þekking kemur aldrei í stað iðkunar, en iðkun án þekkingar verður gjarnan kraftlaus, því fólk iðkar í blindni án þess í raun að vita hvað það er að gera. Það þarf að vanda til iðkunarinnar og hafa einbeitingu til að hún verði áhrifamikil.“
Serafim:
„Yoga er í dag gjarnan þekkt sem eins konar leikfimi og ef það er leikfimi sem maður vill, þá eru margir yogaskólar sem uppfylla þarfir manns. En ef við viljum nálgast yoga á þann hátt sem höfundar þess vildu, þá krefst það dýpri afstöðu, bæði af þeim sem það stunda og kenna.
Hjá okkur er hver yogastaða samsett, fyrst er undirbúningur, staðan sjálf með einbeitingu (sem er útskýrð í tímunum) eftir það beinist einbeitingin að áhrifum stöðunnar. Semsagt þrír þættir, sem allir miða að því að efla áhrif stöðunnar. Ef einbeitinguna vantar, þá vantar meginkraft stöðunnar.“
Hvernig sjáið þið fyrir ykkur framtíðina í stóra jógasalnum?
Magdalena:
„Salurinn sem við erum að byggja gefur möguleika á að halda fyrirlestra, bæði með innabúðarfólki og eða með áhugaverðum fyrirlesurum utan úr hinum stóra heimi. Salurinn mun hjálpa okkur að stækka hópana sem við erum að kenna og síðast en ekki síst, gerir salurinn okkur kleift kenna fleiri hópum í einu. Þannig getur samfélag yoga iðkenda vaxið og hjálpað enn fleirum á leið sinni til aukinnar hamingju og persónuþroska.“