Jón Daníelsson starfaði lengi sem blaðamaður og skrifaði m.a. talsvert um Guðmundar- og Geirfinnsmálin í Helgarpóstinn árið 1997, þegar Hæstiréttur hafði til meðferðar endurupptökubeiðni Sævars Ciesielski vegna þessara mála. Það var á þessum tíma sem áhugi hans á þessum sakamálum kviknaði fyrir alvöru og tilurð bókarinnar Sá sem flýr undan dýri má þannig rekja aftur á síðustu öld. Skipuleg vinna við bókina hófst sumarið 2011. Kjarninn hitti Jón og tók hann tali.
Flestir Íslendingar kannast við Guðmundar- og Geirfinnsmálin, en fæstir hafa skoðað þau niður í kjölinn. Hvað olli því að þú fórst að rannsaka þessi mál?
„Allra fyrst var það nagandi efi, en síðan vaxandi grunsemdir, sem á endanum urðu nánast að fullri vissu þegar ég fór að skoða málsgögnin sjálf. Rétt eins og nánast allir aðrir Íslendingar var ég nokkuð sannfærður um sekt sakborninganna þegar dómarnir voru kveðnir upp. Mér fannst vissulega skrýtið að menn sem voru búnir að játa, skyldu allt í einu lýsa sig saklausa, þegar þeir komu fyrir dóm. En um 1980 náði þessi hugsun eiginlega aldrei lengra.
Á Helgarpóstinum fór ég að skoða málsgögnin og rak mig fljótlega á ýmis atriði, sem ekki komu heim og saman við dómana. Það leyndi sér ekki að fjölmargar vísbendingar um sakleysi, voru aldrei skoðaðar, heldur bara látnar liggja eins og þær kæmu málinu ekki við. Harðræðisrannsóknin frá 1979 vakti líka athygli mína. Ég held að hún sé arfavitlausasta plagg, sem ég hef lesið á ævinni.“
Á hvaða tímapunkti fannst þér nauðsynlegt að gera bók úr þessu efni?
„Sú tilfinning leitaði á mig annað slagið. Mér gafst þó sjaldan verulegur tími frá brauðstritinu, en sumarið 2011 varð óvenju langt hlé milli verkefna og þá hófst ég handa. Síðan hef ég varið flestum tómstundum í þessa vinnu, reyndar með sívaxandi þunga og síðasta árið hef ég mestanpart einbeitt mér að þessu verki.“
Hverjar eru helstu niðurstöður þínar eftir þessa vinnu?
„Niðurstöðurnar eru bæði fleiri og umfram allt óhugnanlegri, en mig óraði fyrir. Þótt ég hefði strax ákveðnar hugmyndir um að sitthvað hefði farið alvarlega úrskeiðis, hvarflaði í rauninni ekki að mér að menn hefðu beinlínis brotið meginreglur sakamálaréttarfars og vísvitandi kveðið upp ranga dóma. En að verki loknu er erfitt að koma auga á aðrar skýringar.
Slík tilvik reyndust ofan á allt annað vera fjöldamörg. Ég fann vísbendingar um beinar falsanir, en einkum er áberandi að öllum vísbendingum, sem bentu til þess að sakborningar væru í rauninni saklausir, var beinlínis ýtt til hliðar. Slík hegðun er hreinlega bönnuð við rannsóknir sakamála. Mönnum er skylt að rannsaka jafnt það sem bendir til sýknu og það sem bendir til sektar. Bókin er nánast troðfull af dæmum um slíka vanrækslu. Í langflestum tilvikum var þetta vísvitandi gert og í þeim tilgangi fá sakborningana dæmda.
Alvarlegast af öllu var sennilega, að dómararnir sjálfir skyldu vísvitandi vanrækja að athuga mögulega fjarvistarsönnun Sævars Ciesielski í Geirfinnsmálinu, þegar hún kom fram 1977. Filma, sem þeim bar skylda til að skoða, er ekki lengur til hjá sjónvarpinu, en eitt pappírsblað varðveittist og kom í leitirnarnar við vinnslu þessarar bókar. Þetta eina pappírsblað sannar ótvírætt að Sævar var að horfa á sjónvarpið þegar dómararnir fullyrtu að hann hefði verið að berja Geirfinn Einarsson með spýtu.
Alveg burtséð frá sönnuninni sjálfri, sköpuðu dómararnir sjálfum sér refsiábyrgð með þessari vanrækslu og hefðu átt að fá að lágmarki tveggja ára dóm samkvæmt refsirammanum, sem reyndar nær upp í sextán ár.“
Hverju vonast þú til að fá áorkað með þessari bók?
„Mér finnst einfaldlega kominn tími að gera þessi sakamál upp í eitt skipti fyrir öll. Þar á ég reyndar ekki við mannshvörfin, sem þau eru kennd við. Þau verða væntanlega ekki upplýst úr þessu. En sakamálin tengdust þessum mannshvörfum aldrei neitt. Hinn einfaldi sannleikur er sá, að í hvorugu tilvikinu verður séð, að lögreglan hafi haft nokkurt tilefni til að hefja rannsókn. Bæði sakamálin voru tilbúningur og heilaspuni frá upphafi til enda. Og mér finnst kominn tími til að réttarkerfið viðurkenni það. Um leið þarf allur almenningur skýringar á því hvernig þetta gat gerst.“
Hér er tengill á útgáfusöfnun bókarinnar Sá sem flýr undan dýri á Karolina Fund.