SÖLVA Chocolates samanstendur af fimm einstaklingum, Láru Borg Lárusdóttur, Unni Svölu Vilhjálmsdóttur, Jórunni Maríu Þorsteinsdóttur, Sveini Ólafi Lúðvíkssyni og Áshildi Friðriksdóttur, og eru þau öll nýútskrifuð úr Verzlunarskóla Íslands. Kjarninn hitti Láru Borg og tók hana tali.
Hvaðan kemur hugmyndin að því að framleiða súkkulaði?
Hugmyndin um að gera súkkulaði kom upp í frumkvöðlaáfanga í Verzlunarskólanum í janúar á þessu ári. Það sem okkur fannst vanta á íslenska markaðinn var hágæða súkkulaði unnið beint frá kakóbauninni. Ekki er mikið um þetta hérlendis en er þetta vaxandi markaður erlendis. Við ákváðum að við vildum gera súkkulaði sem myndi vekja athygli vegna gæða og einnig vegna útlits vörunnar. Við leggjum mikla áherslu á hönnun vörunnar, bæði á pakkningum og á súkkulaðinu sjálfu.
Hvað kom til að þið ákváðuð að fara í Startup Reykjavík og hvernig mótaði það starfið ykkar?
Við sóttum um í Startup Reykjavík í vor vegna þess að við höfðum heyrt mikið um starfsemina og hvað hún hefði góð áhrif á sprotafyrirtæki. Við fengum viðtal í kjölfarið á sigri okkar í keppni ungra frumkvöðla, fyrirtæki ársins 2016. Þegar við komumst svo inn vorum við himinlifandi. En á þeim tímapunkti gerðum við okkur ekki grein fyrir því hversu mikið Startup Reykjavík myndi gera fyrir okkur. Við fengum að fara á alls kyns fyrirlestra, hitta mentora og fá hjálp við hin ýmsu verkefni og erfiðleika. Við höfum lært ótrúlega mikið og komum frá þessu með ómetanlega reynslu og þekkingu sem við hefðum annars ekki geta fengið annarsstaðar.
Hvaða nýjung er súkkulaðið ykkar að koma með á markaðinn?
Það sem okkar súkkulaði hefur fram á að færa er að það er 100% lífrænt. Öll hráefni sem við notum eru vandlega valin og eru laus við öll aukaefni. Þar að auki stundum við einungis siðferðisleg viðskipti og til dæmis verslum við okkar kakóbaunir frá fyrirtæki í Tanzaníu sem hjálpar til við samfélagslega uppbyggingu í sínu landi. Þeir borga sínum bændum 24% hærri laun en telst venjulegt til að þeir geti átt gott líf. Þeir vinna einnig með alls kyns samtökum sem byggja upp skóla, spítala og munaðarleysingjahæli í Tanzaníu. Við viljum leggja mikla áherslu á mikilvægi þess að stunda einungis siðferðisleg viðskipti.
Það sem er svo á döfinni hjá okkur núna er að fá vélarnar í nýja húsnæðið okkar í Askalind og hefja framleiðslu í lok september. Við verðum með fjórar bragðtegundir til að byrja með og eru þær mjólkursúkkulaði með saltkaramellu, mjólkursúkkulaði með lakkríssalti, dökkt súkkulaði með hindberjum og hvítt súkkulaði með vanillu og núggati.
Verkefnið er að finna hér