Greppur Torfason, höfundur bókarinnar Daggarmarkstilgátan, er meistaranemi í heimspeki við Háskóla Íslands. Verði hann var við röklegar mótsagnir, segir hann áhuga sinn samstundis vakinn.
Greppur stendur einn að Karolina Fund verkefninu Daggarmarkstilgátan, sem snýst um að fjármagna útgáfu all-sérstakrar bókar með sama nafni – bókar sem fjallar um heimsfræði (e. cosmology). Það er ekki vitað til þess að aðrir Íslendingar hafi áður sett fram heilsteypta heimsfræðilega tilgátu ásamt gagnrýni á viðteknar hugmyndir um gerð og uppruna alheimsins. Verkefnið hlýtur því að teljast nokkuð fréttnæmt og vera nýnæmi.
Höfundur bókarinnar bendir á að tilgátur og kenningar séu ekki meitlaðar í stein – þær séu ekki staðreyndir sem hafi verið full-sannaðar með rannsóknum. Tilgátur og kenningar séu því einmitt vettvangur fyrir gagnrýnið samtal, og séu einmitt settar fram í viðleitni til þess að vekja umræðu og laða þannig fram nýja þekkingu.
Verkefnið Daggarmarkstilgátan snýst um að koma í útgáfu bók sem hefur einmitt slíkt markmið. Í bókinni er að finna nýstárlegt samhengi hugmynda sem eru byggðar á viðteknum staðreyndum, settar fram í því skyni að viðhalda samræðu um margar grunnforsendur þeirrar heimsfræðikenningar sem er orðin viðtekin, þrátt fyrir að í henni felist mótsagnir sem flestir virðist ekki koma auga á lengur eða leiði einfaldlega hjá sér af einhverjum ástæðum. Kjarninn hitti Grepp og tók hann tali.
Hvernig fæddist hugmyndin að daggarmarkstilgátunni?
„Hugmyndin kviknaði við það að lesa um ævi Bretans Williams Mariners. Ég var búsettur í Montreal í Kanada mest allan 10. áratug síðustu aldar og fann árið 1993 illa farna bókarskruddu á fornsölu með ferðasögu Mariners. Í bókinni er meðal annars að finna stutta lýsingu á mjög sérstökum helli á eyjunni Nuapapu í Kyrrahafi – helli sem síðan er kallaður Marinershellir.
Í hellinum eru afar sérstök skilyrði sem valda því að andrúmsloftið inni í hellinum fer í gegnum daggarmark oft á hverri mínútu. Andrúmsloftið í hellinum verður alhvítt af skýi sem þéttist úr vatnsgufu sem hendi væri veifað, en verður svo gegnsætt aftur í næstu svipan. Þessi lýsing og eðlisfræðin þar að baki varð til þess að hugmyndir sem ég hafði ígrundað af og til allt frá því ég var unglingur, fóru að taka á sig heilsteypta mynd. Það má segja að hugmyndirnar hafi verið að þróast sífellt betur í huga mér síðan ég sat á bekk við Sherbrooke stræti í Montreal og las þessa bók.
Mér hefur verið uppsigað við skýringar Miklahvellskenningarinnar allt frá því ég kynntist þeim sem barn, og hefur aldrei fundist sú kenningin vera sannfærandi í kjarnaatriðum sínum, enda tel ég hana fulla mótsagna. Það má segja að þessi gamla ósátt mín við þá kenningu hafi knúið mig til þess að ígrunda heimsfræði og náttúruspeki heimspekinnar.“
Hvers konar tilgáta er daggarmarkstilgátan?
„Tilgátan er heimsfræðileg tilgáta (e. cosmology), og tekst á við hugmyndir um það hvernig alheimurinn er að gerð og uppruna. Hún fer þvert gegn flestum viðteknum skoðunum hvað þetta varðar og verður líklega að teljast talsvert djörf. Sérstaklega eru grunnhugmyndir Miklahvellskenningarinnar gagnrýndar. Að gagnrýna slíka kenningu er í raun á allra færi, því kenningin er full mótsagna. Það hins vegar, að setja fram aðra heilsteypta tilgátu í staðinn er líklega ekki á áhugasviði hvers sem er. Þó tel ég þá manneskju vandfundna sem ekki hefur staldrað við og velt fyrir sér gerð og uppruna alheimsins. Ég tel að slíkar spurningar séu óhjákvæmilegar.
Daggarmarkstilgátan er sett fram á samræðuformi sem gerir allar rökfærslur mjög skýrar og auðskiljanlegar. Fyrirmyndin eru samræður Platós. Slík samræða er sérstaklega vel til þess fallin að takast á við rökfærslur á almennu máli og láta á þær reyna með góðu rými fyrir mótbárur og gagnrök. Ég læt einfaldlega tvö bókmenntaleg verkfæri – tvær persónur, takast á um hugmyndir á þann hátt að flestir ættu að eiga erindi við samtalið. Ég reyni eftir fremsta megni að forðast flókið og fræðilegt orðfæri. “
Hvaða máli skiptir samræðan?
„Ég er ekki viss um að Íslendingur hafi áður sett fram heilsteypta tilgátu um gerð og uppruna alheimsins. Það að Íslendingur skuli telja sig eiga erindi við slíkar hugmyndir hlýtur að teljast fréttnæmt og skipta aðra máli. Í raun er ég engan veginn viss um að ég hafi rétt fyrir mér hvað tilgátuna snertir – enda tilgáta, en hún er þó fengin fram með ígrundun á staðreyndum með tilleiðslurökum, og er vissulega framlag í umræðuna um gerð og uppruna alheimsins.
Það að gera tilgátur að kenningum, og sanna svo kenningar getur verið vandasamt og tekið langan tíma. Tilgátan liggur þó á borðinu til rannsóknar ef það tekst að gefa bókina út, en það er líklega mikilvægasta atriðið – að tilgátan komi út og geti þannig orðið öðrum tilefni til umhugsunar og gagnrýni. Ef ég héldi þessum hugmyndum fyrir mig gætu aðrir ekki rætt þær, og því finnst mér ég verða að koma þeim á framfæri svo manneskjur mætari en ég fái tækifæri til þess að kanna þær. Sjálfur hef ég ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að standa einn að útgáfunni, og hóf þess vegna hópfjáröflun í því skyni að koma ritinu í útgáfu með reisn og sóma.
Hvað samræðuna sjálfa snertir, má segja að heimspeki sé í raun þekkingarleit með samræðu, og tilgátan er þannig mitt framlag til þeirrar samræðu. Vestræn heimspekisamræða er talin hefjast fyrir meira en 25 öldum með Forn-Grísku heimspekingunum – samræða sem enn er lifandi.
Það má segja að tilgátan sé að auki mikilvæg á öðrum forsendum en heimsfræðilegum, því henni er ekki síður ætlað að stugga við vissum hugmyndaþræði innan vísindasögunnar, ásamt því að benda á kosti og ágalla varðandi ákveðna hugsunargerð við réttlætingu tilfallandi skoðana. Bókin má segja að sé mikilvæg ádeila, og varði það sem ég kalla staðfestingarvillu sem mér virðist viðloðandi á sumum sviðum innan vísindasamfélagsins.
Það er allt of algengt að mínu mati, sérstaklega hvað varðar heimsfræði, að niðurstöður hverrar rannsóknarinnar á fætur annarri eru nýttar til þess að sannfæra vísindasamfélagið sjálft um að þær kenningar sem þegar eru viðteknar séu réttar, jafnvel þótt í þeim felist mótsagnir. Stundum virðist um að ræða eins konar öfuga afleiðslu. Frekar bæri að nýta slíkar niðurstöður til þess kanna hvort kenningin megni að skýra niðurstöðurnar. Það er engu líkara en að niðurstöðum nýrra rannsókna sé einfaldlega skeytt framan við viðteknar kenningar eftir á sem forsendum fyrir þeim, og í því skyni að styrkja sannfæringu um gildi kenninganna. Réttara væri að leita nýrra skýringa í ljósi þannig rannsókna og spyrja gagnrýninna spurninga um réttmæti hinna viðteknu kenninga, að minnsta kosti áður en niðurstöðurnar eru einfaldlega taldar styðja fyrri hugmyndir.
Daggarmarkstilgátan deilir einmitt á slík atriði og ýmsar viðteknar skoðanir hvað heimsfræði snertir en skilur þó ekki allt eftir í uppnámi, heldur leggur til annað samhengi hugmynda sem mögulega skýringu.“
Verkefnið er að finna hér.