Það hafa aldrei verið jafn margir þættir á dagskrá Hlaðvarps Kjarnans eins og núna í haust. Dagskráin er fjölbreytt eftir því. Í vikunni var fjallað um allt frá fótboltahetjum í Mílanó yfir í PR-mistök stjórnarandstöðunnar á Íslandi. Hér að neðan má finna alla þættina sem birtust í hlaðvarpsstrauminum í vikunni.
Hægt er að hlusta á þættina hér á vefnum eða gerast áskrifandi að hlaðvarpsstraumnum í öllum helstu podcast-öppum í snjalltækjum. Við heitum Hlaðvarp Kjarnans á iTunes. Annars er hægt að fylgja hlekknum hér.
Sparkvarpið
Költ-hetjan í Milan, gegenpressen og þjálfaramál
Sparkvarpið er vikulegur fótbolta hlaðvarpsþáttur um hinar ýmsu hliðar boltans en umsjónarmenn þáttarins eru þeir Árni Þórður Randversson, Þorgeir Logason og Þórhallur Valsson. Strákarnir munu fara um víðan völl og fjalla um margt tengt boltanum, meðal annars pólítík, fótboltasöguna, menninguna og margt fleira.
Kanavarpið
Allt um fyrstu kappræðurnar og staða svartra kjósenda
Hillary Clinton og Donald Trump mættust í kappræðum í beinni útsendingu á mánuadginn. Fyrir kappræðurnar fóru þeir Hallgrímur Oddsson og Hjalti Geir Erlendsson yfir væntingarnar og gildi sjónvarpskappræðna, bæði í samtímanum og í sögulegu ljósi.
Kvikan
Framsókn er ABBA, íslenska efnahagsrútan og skortur á pólitískum ómöguleika
Framsóknarflokkurinn er orðinn eins og þáttur af „24“, síðustu mínúturnar af hverjum þætti láta þig þrá að horfa strax á þann næsta, sem er vanalega einungis einum þjóðfélagsumræðuþætti undan. Vigdís Hauksdóttir vill reyndar meina að flokkurinn sé eins og ABBA, sem hefur verið valin besta pólitíska líking ársins hingað til af dómnefnd Kvikunnar.
Kvikan er þáttur ritstjórnar Kjarnans þar sem fjallað er um helstu fréttamál líðandi stundar og tæpt á helstu umfjöllunarefnum Kjarnans hverrar viku fyrir sig.
Hismið
Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn normcore
Í Hismi vikunnar buðu þeir Árni og Grétar upp á vandaða yfirferð um pólitíkina, og reyndu að átta sig á hinum týpíska kjósanda flokkana. Þá hringdu þeir að hætti Reykjavík Síðdegis í Magnús H. Magnússon og ræddu mikla ferð hans og Árna til Parísar á fótboltaleik þar sem Árni týndi jakka og Magnús vildi bara lesa Jo Nesbo.
Hismið er langlífasti þátturinn í Hlaðvarpi Kjarnans. Í haust hófst fjórða þáttaröðin undir stjórn þeirra Árna Helgasonar og Grétars Theodórssonar.
Tæknivarpið
Lifa Snapchat-gleraugun dóm samfélagsins af?
Fyrirtækið sem rekur Snaptchat-samskiptamiðilinn hefur kynnt til leiks sérstök Snap-gleraugu sem eiga að bylta því hvernig við upplifum snöpp og augnablik annarra. Gleraugun eru búin myndavél og einföldum takka sem senda snappið beint í símann og á alla vini. Tæknivarpið ræddi þessa nýung við Árna Matthíasson, þróunarstjóra hjá mbl.is.
Tæknivarpið fjallar vítt og breitt um græjur og tækni. Þeir eru oftar en ekki búinn að prófa græjurnar sem okkur langar öllum í og segja sína skoðun.
Norðurskautið
Ekkert því til fyrirstöðu að Ísland verði „VR-landið“
Í vikunni fór fram ráðstefnan Slush Play sem er alþjóðleg ráðstefna sem fjallar um sýndarveruleika (VR) og leikjaþróun. Á ráðstefnunni héldu fjölmargir erlendir aðilar erindi, og íslensk fyrirtæki kynntu sig og sínar vörur. Til að ræða þessi mál fékk Norðurskautið Stefaníu G. Halldórsdóttur í heimsókn.
Norðurskautið er þáttur Jökuls Sólberg og Kristins Árna um nýsköpun og sprotasamfélagið á Íslandi.