Thora Karlsdottir myndlistarmaður útskrifaðist frá Evrópsku Listaakademíunni í Trier í Þýskalandi 2013. Thora var búsett erlendis í 20 ár, og bjó m.a. í Svíþjóð Lúxemborg og á Spáni. Hún flutti heim 2013 og stundar myndlist á Lifandi Vinnustofu í Listagilinu á Akureyri.
Kjólagjörningurinn hennar Thoru stóð yfir í 280 daga, 40 vikur, eða níu mánuði. Einskonar kjóla meðganga, Hún byrjaði að safna kjólum og var með þema mánuði. Í upphafi voru einungis 30-40 kjólar á slánni en bættust við smátt og smátt. Kjólarnir komu allir frá fólki sem gáfu þá í nafni listarinnar. Thora var með síðuna 280 kjólar á Facebook, þar gat fólk fylgst með og séð myndir af kjól dagsins.
Hvers konar listgjörningur er 280 kjólar?
„Listgjörningurinn fjallar um listræna skuldbindingu, þ.e. endurtekningu sem reynir á úthald og elju. Gjörningurinn stóð yfir frá mars til desember 2015. Að klæða sig í nýja kjól á hverjum morgni daglega og klæðast kjól til allra verka í 280 daga, 40 vikur, níu mánuði er áskorun sem þarfnast úthalds og elju. Allt getur gerst, spennandi og lifandi dagleg skapandi skuldbinding. Kjólarnir komu frá fólki sem gaf þá í nafni listarinnar í kjólagjörninginn. Björn Jónsson tók daglega ljósmyndir af listakonunni í kjól. Hann átti stóran þátt, hafði áhrif og átti oft hugmyndir varðandi staðsetningu fyrir tökur og vinnslu myndanna. Í sameiningu gefa þau út bók um Kjólagjörninginn og núna stendur yfir söfnun á Karolina Fund.“
Út frá hverju ákvaðstu hvaða kjóll hentaði hverjum degi?
„Stundum átti ég ekki úr miklu að velja, en kjólarnir voru að berast jafn og þétt alla níu mánuðina. En oft var það veðrið sem spilaði inní. Stundum átti ég bara síðkjól og var svo föst í skafli af því að hann var líka þröngur að néðan. En það var oft erfitt að vera í kjól sem var úr gömlu efni sem gaf ekkert eftir og oft var verið að vinna að verkum sem þurfti að hreyfa sig mikið. En þetta er hluti af því að skuldbinda sig og halda út.“
Hverju viltu koma á framfæri með bókinni þinni?
„Listgjörningur stendur yfir í ákveðin tíma og misjafnt hversu mikið er skjalfest af viðkomandi gjörningi. Kjólagjörningurinn var skjalfestur með myndatöku daglega í 280 dag ásamt því sem var að gerast. En myndirnar sjálfar segja sína sögu og sýna bæði stemningu og árstíðir. Tilgangurinn með bókinni er fyrst og fremst sá, að verkefnið lifi áfram. Það er kannski ást mín á bókum um menningu og listir sem fær mig taka þetta verkefni alla leið og enda með bók.“
Verkefnið er að finna hér