Aukaverkanir lyfja eru sjaldnast af hinu góða og á það ekki síst við um krabbameinslyf sem hafa mörg neikvæð áhrif á frjósemi sjúklingsins. Vísindamönnum var því nokkuð brugðið þegar konur sem fengu krabbameinslyfið ABVD sýndu óvænt aukinn fjölda þroskaðra eggfrumna. Sé hægt að staðfesta niðurstöðurnar gætu þær kollvarpað því sem við höfum talið okkur vita um frjósemi kvenna.
Hópur vísindamanna ákvað að rannsaka áhrif krabbameinslyfsins ABVD á frjósemi eftir að í ljós kom að það virtist ekki hafa neikvæð áhrif á frjósemi sjúklinga, ólíkt flestum öðrum krabbameinslyfjum. Til að kanna það hvað lægi baki voru tekin vefjasýni úr eggjastokkum 11 kvenna sem allar voru með Hodgkin eitilfrumukrabbamein. Af þeim höfðu átta konur fengið ABVD í lyfjagjöf sinni og þrjár lyfið OEPA-COPDAC sem þekkt er fyrir að valda ófrjósemi. Einnig voru tekin sýni úr 10 heilbrigðum konum til samanburðar.
Niðurstöðurnar sýndu, öllum að óvörum, að konurnar sem fengið höfðu ABVD höfðu tvisvar til fjórum sinnum fleiri lífvænlegar eggfrumum er konur í samanburðarhópnum. Konurnar sem fengu ABVD virtust ekki glíma við frjósemisvandamál en egg þeirra þroskuðust þó ekki jafn vel og egg heilbrigðu kvennanna. Þær konur sem fengu OEPA-COPDAC höfðu marktækt færri heilbrigðar eggfrumur en konur hinna hópanna tveggja.
Úrtak rannsóknarinnar var afar lítið og er því erfitt að draga ályktanir út frá niðurstöðunum. Evelyn Telfer, sem stýrði rannsókninni, bendir þó á að munurinn á milli hópanna sé mikill og telur að fjöldi og útlit eggja kvennanna sem fengu ABVD bendi til þess að um nýjar frumur hafi verið að ræða. Telfer varar þó við því að lyfið sé nýtt í þeim tilgangi að auka frjósemi áður en vísindalegur grundvöllur sé fyrir slíkum meðferðum.
Fram að þessu hefur verið talið útséð með það að fjöldi eggfruma kvenna sé takmarkaður. Ef hægt er að staðfesta niðurstöðurnar með frekari rannsóknum gæti uppgötvunin því breytt þeirri mynd sem við höfum nú um frjósemi kvenna.
Ekki eru allir sannfærðir um ágæti rannsóknarinnar. Meðal þeirra er Nick Macklon, prófessor í fæðingar- kvensjúkdómalækningum, sem sagði í samtali við The Guardian að niðurstöðurnar veki í raun upp fleiri spurningar en þær svara. Enn sem komið er sé ekkert sem bendi til þess að aðferðin komi raunverulega til með að virka. Hann tók einnig undir áhyggjur Telfer og benti á hættuna á því að meðferðina væri nýtt áður en frekari rannsóknir lægju fyrir.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á European Society of Human Reproduction and Embryology í Helsinki júlí og bíða niðurstöðurnar enn birtingar í ritrýndu tímariti.