Nemar ehf. er fyrirtæki sem stendur fyrir því að hjálpa nemendum að standa sig í háskóla. Hugsjón þeirra er að gera háskólanám eins og náttúrulegt framhald af menntaskóla, og ætla þeir að búa til námskeið sem sett verða á netið og nemar geta fengið aðgang að. Stofnendurnir nema nú hagfræði og viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Eftir að hafa byrjað í Háskólanum fannst þeim ganga fremur illa í náminu – eins og að menntaskólanámið, sem varði í heil fjögur ár, hefði ekki verið nóg til að búa þá undir háskólanámið. Kjarninn hitti Arnar Kjartansson og Steingrím Þór Ágústsson og tók þá tali.
Hvers konar gátt er nemagáttin?
„Nemagáttin eru upphaflega hugsuð sem námskeið í glósun, skipulags- og minnisaðferðum en við vildum ganga skrefinu lengra og taka upp efnisleg námskeið til þess að setja á netið. Námskeiðin eiga að auðvelda skólagönguna og verða meðal annars efnisleg þar sem farið verður yfir helstu hugtök og kenningar í hverjum áfanga innan deilda háskólans. Til að byrja með verður farið yfir námskeið í Háskóla Íslands en ef vel gengur munum við taka upp efni námskeið fyrir skólum.“
Hvaðan kom hugmyndin að nemagáttinni?
„Hugmyndin að Nemagáttinni varð til eftir að við byrjuðum í Háskóla Íslands og tókum eftir því mikla stökki frá menntaskóla og upp í háskóla. Nýnemar eru með ólíkan grunn, koma frá frábrugðnum skólum og úr mismunandi deildum. Það er t.d. ekkert sjálfgefið að nýnemar á viðskipta eða hagfræðideild hafi verið á viðskipta- og hagfræðideild í menntaskóla. Það getur því verið mikið stökk fyrir nýnema að byrja í Háskóla, oft hefur stór hluti nemenda nýlega lært efni fyrstu annar og kennarar þyngja próf í samræmi við það. Það gerir námið erfiðara fyrir þá sem hafa verri grunn, en það er ástæðan fyrir Nemagáttinni.“
Hvaða breytingar viljið þið sjá með Nemagáttinni?
„Við viljum að nemendur geti lært á skilvirkan og hagkvæmlegan hátt og með því hækkað einkunnir sínar, burtséð frá því námi sem þeir stunda. Með þessu getum við minnkað fall í háskólanum og vonandi útskrifað fleiri sérfræðinga út í samfélagið. Nemendur geta einnig sparað sér óþarfa fall í háskóla sem ber með sér gríðarlegan kostnað og tíma. Háskólaárin eiga að vera skemmtileg og eftirminnileg, en auknar kröfur í námi hafa ollið því að fólk vinnur oft yfir sig. Það veldur óþarfa kvíða og streitu sem við viljum reyna að koma í veg fyrir. Námskeiðin eru á formi jafningjafræðslu, sem þýðir að eldri og reyndari nemendur kenna þeim sem nú eru í faginu. Þannig getum við skapað störf sem henta háskólanemendum vel sem vinna með námi þar sem þeir fá að kenna það sem þeir hafa áhuga á.“