„Við erum bara þessi dæmigerðu hjón um fertugt, með þrjú börn, fjölskyldubíl og íbúð í myrkustu innviðum Kópavogs,“ segir Ívar Páll Jónsson í hljómsveitinni Jane Telephonda og á þar við Lindahverfið. „Lindahverfið er smám saman að taka við af 101 Reykjavík sem höfuðstöð menningarlífs á Stór-Kópavogssvæðinu,“ segir hann. „We be representing the Laugahverfi hood,“ bætir hann við. „Af bestu getu.“
Konan hans heitir Ásdís Rósa Þórðardóttir og þau hjónin stofnuðu hljómsveitina Jane Telephonda árið 2015. Til að byrja með voru þau bara tvö, en nýverið fengu þau til liðs við sig góða og gamla vini Ívars, þá Albert Þorbergsson, Grétar Má Ólafsson, Hólmstein Inga Halldórsson, Pétur Þór Sigurðsson og Rafn Jóhannesson, auk þess sem bróðir Ásdísar, Hans Júlíus, gekk í hljómsveitina. Hann tók einmitt þátt í sjónvarpsþættinum X-Factor með systur sinni árið 2006, en þau skipuðu dúettinn JÁ og gerðu það gott í þessari vinsælu keppni. Nú er Jane Telephonda að gera hljómplötuna Into the Light We Go og safnar fyrir gerð hennar á Karolina Fund. Kjarninn hitti Ívar Pál og tók hann tali.
Góður félagsskapur
„Mér hefur alltaf fundist Ásdís vera með of góða rödd til að láta ekki í sér heyra,“ segir Ívar Páll. „Hún er frábær söngkona, og hið sama má segja um bróður hennar. Hann er reyndar ekki söngkona, en þú veist hvað ég meina. Það var um að gera að keyra systkinin í gang, ef svo má segja,“ bætir hann við. „Vinir mínir í sveitinni eru líka mjög hæfileikaríkir og góðir drengir og mér þykir vænt um þá. Það er gott að vera með þessu fólki í hljómsveit.“
Kærleikurinn er mikilvægastur
Ívar segir að umfjöllunarefnið sé að mestum hluta kærleikurinn. „Það eru alltof mikil átök í samfélaginu. Fólk er almennt of upptekið af því að olnboga sig áfram og koma vilja sínum fram á kostnað náungans, en við ættum öll að gera okkur grein fyrir því að kærleikur og friður eru miklu betri tæki til þess að láta okkur öllum líða betur. Það er fátt fallegra og heillavænlegra en frjáls samskipti, sem einkennast af umburðarlyndi og væntumþykju. Þegar allt kemur til alls erum við svo lík. Við viljum flest fá að vera í friði með líkama okkar og einkamál og það er okkur í blóð borið að sýna náunganum ást og virðingu, því þannig viljum við að aðrir komi fram við okkur sjálf og þannig líður okkur best í hjartanu. Einu sinni fannst mér frasar eins og „all you need is love“ vera innihaldslausar klisjur, en núna átta ég mig á því að það er meira á bak við þau orð en við fyrstu sýn,“ segir Ívar og bætir að lokum við: „Kærleikurinn er mikilvægastur.“