Ragnar Ólafsson er margra fjala smiður þegar kemur að tónlist. Á ferlinum hefur hann fengist við allt frá klassík, óperu og djass, yfir í popp, Eurovision og þungarokk. Ragnar ólst upp og bjó erlendis fyrstu 22 ár ævi sinnar, aðallega í Svíþjóð en einnig í Bandaríkjunum og á Svalbarða. Hann lét fyrst til sín taka í tónlist á menntaskólaárunum í Gautaborg, en þar spilaði hann með fjölda tónlistarmanna á borð við Jens Lekman og Olof Dreijer úr hljómsveitinni The Knife.
Eftir að hann fluttist aftur heim til Íslands hefur Ragnar gefið út á annan tug hljómplatna með mismunandi hljómsveitum og tónlistarmönnum, og ferðast um heiminn á tónleikaferðalögum með hljómsveitinni sinni Árstíðir.
Hann vinnur nú að sinni fyrstu sólóplötu “Urges” og hefur stofnað til hópfjármögnun á Karolina Fund henni til styrktar. Kjarninn hitti Ragnar og tók hann tali.
Hver er baksaga þín í tónlist?
„Foreldrar mínir er eru báðir vísindamenn en njóta þess að spila á hljóðfæri. Á heimili okkar voru alltaf hljóðfæri til staðar og það varð til þess að ég fór snemma að fikta við píanóið hennar mömmu og gítarinn hans pabba.
Á táningsárum fór ég að semja tónlist með félögunum mínum í Gautaborg. Þá kviknaði þessi ástríða fyrir því að skapa tónlist og ég fór að stofna allskonar hljómsveitir í kjölfarið. Ég byrjaði sem trommari í pönkbandi og fór þaðan yfir að vera gítarleikari í fönkbandi og hljómborðsleikari í rokkbandi. Og svona hefur þetta haldið áfram allar götur síðan.
Það virðist alltaf legið fyrir mér að fikta við allskonar stefnur, helst allt á sama tíma en í mismunandi verkefnum. Ég hef einfaldlega svo gaman af allskonar tónlist að ég tími ekki að einskorða mig við eina stefnu.“
Hvers vegna fórstu út í að gera sólóplötu?
„Síðasta vetur lenti ég í hálfgerðu þunglyndi í kjölfar sambandsslita. Ég fór að einangra mig og tók að semja lög af allt öðrum toga en ég hef gert áður. Þessi lög voru ekki að passa inn í þær tónlistarstefnur sem hljómsveitirnar mínar eru að fást við, þannig að það lá beinast við gera þetta undir eigin nafni.“
Hvaða lag helduru mest uppá á plötunni?
„“Urges” er titillag plötunnar, og er svolítið eins og uppgjör við ástina og forn mistök. Í raun er platan í heild sinni svona “break-up” plata og lögin svona litróf þeirra flóknu tilfinning sem maður þarf að glíma við eftir að hafa endað fimm ára samband.“
Ragnar Ólafsson er með hópfjáröflun á Karolina Fund til að geta klárað plötuna. Þeir sem leggja Ragnari lið geta á meðal annars vænst þess að hann frumsemji lag handa viðkomandi.
Verkefnið er að finna hér.