Árið 2006 sátu náttúrunnendur um allan heim límdir við sjónvarpsskjáinn og horfðu stórbrotnar myndir og ógleymanlega frásögn David Attenborough um lífið á plánetunni í þáttaröðinni Planet Earth. Á sunnudaginn síðastliðinn gerðist slíkt hið sama þegar yfir níu milljónir horfðu á frumsýningu Planet Earth II á sjónvarpsstöðinni BBC One.
Nýja þáttaröðin kemur til með að samanstanda af sex þáttum og er það Attenborough sem kynnir okkur enn á ný fyrir undrum náttúrunnar. Upptökur á þáttaröðinni stóðu yfir í meira en þrjú ár í 40 löndum og verður hún vafalaust enn magnaðri en sú fyrri.
Meðal þess sem áhorfendur fengu að sjá í fyrsta þættinum var æsispennandi flótti ungra iguana-eðla frá snákum, letidýr á sundi og mörgæsir á Suðurskautslandinu. Áhorfendur verða líklega ekki fyrir vonbrigðum með næstu þætti sem meðal annars leyfa okkur að skyggnast inn í líf snæhlébarða í fyrsta sinn og fylgjast með eltingaleik ljóna við vísund.
Frá því fyrri þáttaröðin var framleidd fyrir 10 árum síðan hefur margt breyst og má að miklu leiti þakka tækniframförum fyrir þær myndir sem Planet Earth II færir okkur. Meðal nýjunganna eru drónar sem gerðu framleiðendum þáttanna kleift að taka myndir úr lofti á auðveldan hátt. Auk drónanna hafa myndavélar orðið stöðugri svo auðveldara er að fylgja dýrum eftir og svokallaðar njósnamyndavélar eru í dag svo næmar að þær nema jafnvel andardrátt dýra sem koma upp að þeim.
Planet Earth II kemur á mikilvægum tímapunkti því aldrei hefur lífi á jörðinni verið ógnað eins mikið og nú. Síðan árið 1970 hefur villtum dýrum fækkað um 58% á heimsvísu og er talið að talan fari upp í 67% fyrir lok áratugarins. Útdauðahrinuna sem nú stendur yfir má að mestu leiti rekja til áhrifa manna á umhverfi sitt og ef ekkert verður að gert er óvíst hvort næsta Planet Earth þáttaröð verði eins stórbrotin og fyrstu tvær.