Auður og Pilar eru vinkonur sem báðar búa í Vesturbæ Reykjavíkur ásamt eiginmönnum sínum og börnum. Þær eiga sér ólíkan bakgrunn en báðar hafa þær þó komist í kynni við hinn goðsagnakennda Peres-mús þegar kemur að því að setja tönn undir koddann.
Hugmyndin að gera saman bók spratt svo upp þegar sonur Pilar, Luca, missti sína fyrstu tönn og því hægt að segja að bókin sé að vissu leyti byggð á sönnum atburðum.
Bókin heitir Tönnin hans Luca / El diente de Luca og er á tveimur tungumálum, íslensku og spænsku.
Hver er Luca og í hvaða ævintýrum lendir hann?
Luca er sjö ára strákur sem á býr á Íslandi. Pabbi hans er argentínskur en mamma hans er frá Spáni þannig að hann elst upp við tvö tungumál og ólíkar menningarhefðir sem sýnir sig þegar hann missir fyrstu tönnina og á von á því að Peres mús komi og sæki hana. Vinir hans í skólanum hafa aldrei heyrt um Peres mús og sum setja heldur ekki tönnina undir koddann. En þau þekkja aðrar hefðir sem eru ekkert minna skemmtilegar og saman deila vinirnir hugmyndum sínum um hvað eigi að gera við tönnina.
Hvers vegna ákváðuð þið að skrifa tvítyngda barnabók?
Af því að fjöltyngi er eitt af því sem einkennir fjölmenningarsamfélag. Því samfélagi sem við búum í á Íslandi í dag þar sem börn alls staðar að úr heiminum mætast í leik og starfi. Auk þess að það eru ekki til bækur fyrir byrjendur í lestri á Íslandi sem eru skrifaðar á tveimur tungumálum og, eins og sagan okkar gerir, kynnir börnin fyrir hefðum mismunandi menningarheima og stuðla að umburðarlyndi og virðingu.
Hverjum sjáið þið fyrir ykkur að bókin muni gagnast?
Það er helst tvennt sem einkennir bókina og gerir hana sérstaka: Það er að þetta er tvítyngd bók og því hægt að lesa hana á öðru tungumálinu eða báðum, þannig getur hún nýst sem hjálpargagn fyrir kennara og foreldra til þess að viðhalda og þróa bæði tungumálin hjá tvítyngdum börnum.
En ekki síður sagan sjálf sem sýnir okkur hvernig mismunandi menning getur auðgað líf okkar. Við viljum kenna börnum okkar að meta fjölbreytileikann og allan þann auð sem honum fylgir og þannig komi þau til með að búa í heimi sem er ríkari af skilning og umburðarlyndi.
Verkefnið er að finna hér