Er Heiða bóndi á Ljótarstöðum mesti kvenkostur sem nú er uppi á Íslandi? Skiptir ekki máli, því hún myndi væntanlega kæra sig kollótta um slíka vegtyllu ef marka má magnaða kvenlýsingu Steinunnar Sigurðardóttur skáldkonu á Heiðu fjalldalabónda. Hún er einyrki með 500 fjár lengst uppi á heiði austur í Skaftafellssýslu, á pallbíl, traktor, hund, vélsleða, smalar á fjórhjóli og hlaðin hvílíkum önnum og baráttumálum að þarf víðan afrétt til að hún nái að varpa öndinni stöku sinnum. Tók við búi laust um tvítugt og senn að nálgast frum miðaldra. Náttúruverndarsinni og kunn hugsjónakona, sveitarstjórnarmaður fyrir Z-listann (hversu zvalt er það?). Dettur inn á þing sem varamaður fyrir Ara Trausta næst þegar hann skellir sér í Pólferð, massar færustu rúningsmenn og telur fóstur í ám um land allt. Fyrir utan að hrynja í það stöku sinnum. Slást við vott af þunglyndi. Og þurfa verulega að taka á því svo röddin skjálfi ekki af kvíða þegar hugsjónir reka hana á málþing, sem hún má náttúrulega alls ekkert vera að því að sinna, en gerir samt. Rífur jafnvel kjaft fyrir þingnefnd (ósofin af kvíða) og hvolfir hálfri hvítvínsflösku þegar heim kemur til að ná sér niður. Öðru máli gegnir að um hagyrðingamótin þar sem hún lætur fjúka í kviðlingum.
Þetta er engin venjuleg kona. Því hér er fátt eitt talið.
Ritgerð Steinunnar er klassa sjúrnalismi. Kaflarnir heita eftir árstíðum og kalla fram hrynjandina í lífi fjárbóndans og skepnanna og fólksins allt í kring, lífið í sveitinni lifnar og leikur í ljósi sólar eða skuggum vetrarmyrkurs –svo kemur öskufall. Smátt og smátt birtist kvenpersóna sem lætur móðan mása um allt og allt meðan skáldkonan vinnur sitt hljóða skráningarverk; raðar upp sögum, hugleiðingum, stöðufærslum af Fésbók, vísum og húmor af innsæi og skilningi á konunni sjálfri og hlutverki sögumanns samtímis. Þaulæfð í svona formgerð úr skáldsagnaskrifunum.
Inn í þessa stóru smáveröld sogast lesandinn.
Erindi Steinunnar var að skrásetja baráttu fjalldalabóndans við hina ógnandi virkjanamenn sem vildu leggja jörðina undir lón, stauravirki og ruðninga til að ná rafmagni. Búlandsvirkjun skyldi hún heita. Þeim tekst að sundra vinum og sveitungum þar sem ólíkir hagsmunir takast á, en hin einarða Heiða lætur sig hvergi og hefur í heiðri Sigríði í Brattholti sem fór marga suðurferðina til að bjarga Gullfossi fyrir rúmri öld. Í þessari sögu skynjum við ógnina sem einstaklingur stendur frammi fyrir gagnvart gírugu kerfi og hve mikil áraun það er að standa á sínu og lifa andvökunætur, kvíðaköst, vinamissi og fjártón; hún er svipt afkomu og friðhelgi sem hún þráir og á rétt á.
„Mín skoðun er sú að ég hafi engan rétt til að selja land eða vatn undan Ljótarstöðunum og skaða þar með jörðina sem ég hef til umráða yfir eina starfsævi um alla framtíð. Ég hefði ekki viljað að mamma og pabbi eða amma og afi hefðu selt undan jörðinni, og keypt varalit og nýjan Farmal. Við mannfólkið erum dauðleg, landið lifir áfram, það kemur nýtt fólk, nýjar kindur, nýir fuglar og svo framvegis, en landið með ám og vötnum, gróðri og auðnum verður áfram, tekur einhverjum breytingum í aldanna rás, en er áfram.“
(bls. 320)
Þetta er alveg nóg efni í litla bók og ástæðan fyrir því að Heiða tók skrásetningu í mál. En svo gerist miklu meira þegar þær stöllur tala saman, að því er virðist á endalausum bílferðum, símafundum, spjallþráðum eða hvernig þær nú bræða sig saman. Persónan birtist í blæbrigðum þess lífs og lands sem mótar hana, ekki alltaf í rökréttum orsakar- og afleiðingarþráðum, því Heiða er eiginlega hin fullkomna mótsögn við sjálfa sig.
Hún er kjörkuð, sterk, en samt er hún oft svo veik, andlega og líkamlega; hugrökk, en vængbrotin inni í sér, kvíðin og lítil í sér - eða lætur vaða af svakalegum krafti (jafnvel svo að þarf að halda henni niðri á balli þar sem Suðurorkumaðurinn er að þvælast!). Maður verður nánast líkamlega örmagna að taka þátt í vinnustreðinu sem aldrei lýkur og þakkar hreinlega fyrir þegar hún loksins lætur sér líða í brjóst í Lazyboy með köttinn malandi og Makkintosdollu við höndina (segist hafa séð byrjun á ótal sjónvarpsmyndun en fáar enda).
Þessi saga kann vel að hafa byrjað sem annáll baráttukonu en hún er orðin kvenlýsing og samfélagsmynd í víddum sem maður sér ekki oft svo vel gerða af íslenskum miðlum.
Steinunn leggur sig virkilega í líma við að birta okkur lífið í sveitinni, lýst með orðum Heiðu og athöfnum. Þetta er engin fegrun. Þvert á móti. Alveg djöfulsins puð. Heiða vandar um fyrir fólki og skepnum jafnt en stráir um sig gæsku um leið; hrútarnir eru leiðinlegir, hafurinn metfé, ærnar illskeyttar, litlu lömbin leika sér svo fagurlega, kiðlingarnir dásemd, hundurinn dýri hann Fífill er afbragð og kettirnir fá sinn skerf hver eftir karakter. Gengur í öll verk svo mann sundlar og verkjar í liðina með henni, bölvuð skólpþróin að stíflast þegar verst á stendur, öll þrifin maður og sápuskúrið, sýnir sjálfri sér þá virðingu að baða sig (nema um sauðburðinn) og hefur fasta reglu á hverjum vinnudegi, svo mjög að mann langar að vita hvað hún borðar í morgunmat. Smæstu atriði skipta máli: Kóngablái liturinn á fjárhúsþökunum, ljósin á milli útihúsa, týran í myrkrinu frá næsta bæ.
Það villir um fyrir manni að framan af virðist hún frekar einföld manneskja í einföldu umhverfi og jafnvel aðeins bernsk í hinu stóra samhengi heimsins - þótt hún tuskist á við hvern sem er í réttunum og hafi jafnvel farið á djammið fyrir sunnan. En svo læðast inn fleiri þankar og utanferðir sem opna gat á lágskýjaðan himinninn fyrir austan. Innibyrgð togstreita kemur í ljós. Játar að hún gæti jafnvel hugsað sér að vera bóhem og búa erlendis, eiga heima í öruggu húsi hvernig sem viðrar og hvenær sem Katla gýs; þurfa ekki að bera ábyrgð á 500 lífum, geta keypt kryddstauk ef vantar, vera „bara þar sem rokkið er“. En hún mun auðvitað aldrei yfirgefa Ljótarstaði. Því hún er alveg rótföst í landinu og sögu þess. Kannski.
Og allt hitt. Fyrir utan að vinna sigra í virkjanamálum (vonum að við getum öll sofið rótt út af aflagðri Búlandsvirkjun) er hún þessi landsfræga fósturtalningakona (meðal bænda) og þar erum við að tala um alvöru kaldar hendur, bogið bak og fjallvegastímabrak um vetur. Kappsfull rúningskona sem fer á heimsmót (þótt hún búist nú ekki við að verða atvinnukeppandi í þeirri grein fer í hún í læri hjá þeim fremstu í útlöndum) og ryður úr sér nöfnum rúningsmeistara og árangurstöflum á sama hátt og forfallnir áhugamenn um golf. Nefnir tegundina af klippunum sem hún á. Fer í vélsleðaferðir með einhverjum njólum að veturlagi um Strandir (eina konan) og svo þessi svakalega törn þegar sauðburðurinn fer í hönd og dagar og nætur og vikur renna saman í einni vakt.
Þegar þar kemur sögu kallast þessi bók á Steinunnar á við aðra sögu hennar sem var líka um vakthafandi konu, Vigdísi sem var ein á forsetavakt.
Steinunn skráir þessar ítarfrásagnir ef miklu listfengi fyrir strák sem einu sinni var í sveit og lifir sig inn í þetta allt - þótt nú séu aðrir tímar. Höfundur á miklar þakkir fyrir að stytta sér ekki leið svo maður merki, heldur leyfir öllu að tala, jafnvel helvítis kargaþýfinu á lánstúninu vorið sem kól… Og svo um það að farga skepnum, sorgina, draga dautt fé úr fönn, ýldufýluna. Ábyrgðina á velferð dýranna.
Einstæð? Já. Og tekur útskýrða ákvörðun um að eiga ekki barn.
Þær tala mergjaða íslensku stöllurnar. Steinunn, verðlaunaður stílisti, varast skraut og póesí, lætur Heiðu tala sitt mál. Þar er nú ekki flatneskan; orðgnótt og samlíkingar utan af afrétt og innan úr þessari kjaftforu kjellu sem segist hafa verið alin upp við skammir og ekkert væl. Það hæfir að hafa fáar, svarthvítar myndir af persónunni í bókinni - fyndnar fjökyldumyndir hefðu drepið galdurinn. En vantar eiginlega að hafa listrænt kort af jörðinni og námunda við stórfljót og eldstöðvar. Maður vinnur bara úr því með nútímatækni.
Þegar árstíðahringurinn lokast og ritgerðin fer á endapunkt er þetta eiginlega bara fullkomið: Búlandsvirkjun komin í verndarflokk og Heiða í söguflokk.