Kvenkosturinn ógurlegi

Stefán Jón Hafstein veitir umsögn um bók Steinunnar Sigurðardóttur um Heiðu Ásgeirsdóttur: Heiða- fjalldalabóndinn.

Heiðan
Auglýsing

Er Heiða bóndi á Ljót­ar­stöðum mesti kven­kostur sem nú er uppi á Íslandi? Skiptir ekki máli, því hún myndi vænt­an­lega kæra sig koll­ótta um slíka veg­tyllu ef marka má magn­aða kven­lýs­ingu Stein­unnar Sig­urð­ar­dóttur skáld­konu á Heiðu fjall­dala­bónda. Hún er ein­yrki með 500 fjár lengst uppi á heiði austur í Skafta­fells­sýslu, á pall­bíl, trakt­or, hund, vélsleða, smalar á fjór­hjóli og hlaðin hví­líkum önnum og bar­áttu­málum að þarf víðan afrétt til að hún nái að varpa önd­inni stöku sinn­um. Tók við búi laust um tví­tugt og senn að nálg­ast frum mið­aldra. Nátt­úru­vernd­ar­sinni og kunn hug­sjóna­kona, sveit­ar­stjórn­ar­maður fyrir Z-list­ann (hversu zvalt er það?). Dettur inn á þing sem vara­maður fyrir Ara Trausta næst þegar hann skellir sér í Pól­ferð, massar fær­ustu rún­ings­menn og telur fóstur í ám um land allt. Fyrir utan að hrynja í það stöku sinn­um. Slást við vott af þung­lyndi. Og þurfa veru­lega að taka á því svo röddin skjálfi ekki af kvíða þegar hug­sjónir reka hana á mál­þing, sem hún má nátt­úru­lega alls ekk­ert vera að því að sinna, en gerir samt. Rífur jafn­vel kjaft fyrir þing­nefnd (ósofin af kvíða) og hvolfir hálfri hvítvíns­flösku þegar heim kemur til að ná sér nið­ur. Öðru máli gegnir að um hag­yrð­inga­mótin þar sem hún lætur fjúka í kvið­ling­um.

Þetta er engin venju­leg kona. Því hér er fátt eitt talið.

Rit­gerð Stein­unnar er klassa sjúrna­l­ismi. Kafl­arnir heita eftir árs­tíðum og kalla fram hrynj­and­ina í lífi fjár­bónd­ans og skepn­anna og fólks­ins allt í kring, lífið í sveit­inni lifnar og leikur í ljósi sólar eða skuggum vetr­ar­myrk­urs –svo kemur ösku­fall. Smátt og smátt birt­ist kven­per­sóna sem lætur móðan mása um allt og allt meðan skáld­konan vinnur sitt hljóða skrán­ing­ar­verk; raðar upp sög­um, hug­leið­ing­um, stöðu­færslum af Fés­bók, vísum og húmor af inn­sæi og skiln­ingi á kon­unni sjálfri og hlut­verki sögu­manns sam­tím­is. Þaul­æfð í svona form­gerð úr skáld­sagna­skrif­un­um.

Auglýsing

Inn í þessa stóru smá­ver­öld sog­ast les­and­inn.

Erindi Stein­unnar var að skrá­setja bar­áttu fjall­dala­bónd­ans við hina ógn­andi virkj­ana­menn sem vildu leggja jörð­ina undir lón, staura­virki og ruðn­inga til að ná raf­magni. Búlands­virkjun skyldi hún heita. Þeim tekst að sundra vinum og sveit­ungum þar sem ólíkir hags­munir takast á, en hin ein­arða Heiða lætur sig hvergi og hefur í heiðri Sig­ríði í Bratt­holti sem fór marga suð­ur­ferð­ina til að bjarga Gull­fossi fyrir rúmri öld. Í þess­ari sögu skynjum við ógn­ina sem ein­stak­lingur stendur frammi fyrir gagn­vart gír­ugu kerfi og hve mikil áraun það er að standa á sínu og lifa and­vökunæt­ur, kvíða­köst, vina­missi og fjár­tón; hún er svipt afkomu og frið­helgi sem hún þráir og á rétt á.

„Mín skoðun er sú að ég hafi engan rétt til að selja land eða vatn undan Ljót­ar­stöð­unum og skaða þar með jörð­ina sem ég hef til umráða yfir eina starfsævi um alla fram­tíð. Ég hefði ekki viljað að mamma og pabbi eða amma og afi hefðu selt undan jörð­inni, og keypt vara­lit og nýjan Farmal. Við mann­fólkið erum dauð­leg, landið lifir áfram, það kemur nýtt fólk, nýjar kind­ur, nýir fuglar og svo fram­veg­is, en landið með ám og vötn­um, gróðri og auðnum verður áfram, tekur ein­hverjum breyt­ingum í ald­anna rás, en er áfram.“

(bls. 320)

Þetta er alveg nóg efni í litla bók og ástæðan fyrir því að Heiða tók skrá­setn­ingu í mál. En svo ger­ist miklu meira þegar þær stöllur tala sam­an, að því er virð­ist á enda­lausum bíl­ferð­um, síma­fund­um, spjall­þráðum eða hvernig þær nú bræða sig sam­an. Per­sónan birt­ist í blæ­brigðum þess lífs og lands sem mótar hana, ekki alltaf í rök­réttum orsak­ar- og afleið­ing­ar­þráðum, því Heiða er eig­in­lega hin full­komna mót­sögn við sjálfa sig.

Hún er kjörk­uð, sterk, en samt er hún oft svo veik, and­lega og lík­am­lega; hug­rökk, en væng­brotin inni í sér, kvíðin og lítil í sér - eða lætur vaða af svaka­legum krafti (jafn­vel svo að þarf að halda henni niðri á balli þar sem Suð­ur­orku­mað­ur­inn er að þvælast!). Maður verður nán­ast lík­am­lega örmagna að taka þátt í vinnu­streð­inu sem aldrei lýkur og þakkar hrein­lega fyrir þegar hún loks­ins lætur sér líða í brjóst í Lazy­boy með kött­inn malandi og Makk­in­tos­dollu við hönd­ina (seg­ist hafa séð byrjun á ótal sjón­varps­myndun en fáar enda).

Þessi saga kann vel að hafa byrjað sem ann­áll bar­áttu­konu en hún er orðin kven­lýs­ing og sam­fé­lags­mynd í víddum sem maður sér ekki oft svo vel gerða af íslenskum miðl­um.

Stein­unn leggur sig virki­lega í líma við að birta okkur lífið í sveit­inni, lýst með orðum Heiðu og athöfn­um. Þetta er engin fegr­un. Þvert á móti. Alveg djöf­uls­ins puð. Heiða vandar um fyrir fólki og skepnum jafnt en stráir um sig gæsku um leið; hrútarnir eru leið­in­leg­ir, haf­ur­inn met­fé, ærnar ill­skeytt­ar, litlu lömbin leika sér svo fag­ur­lega, kiðling­arnir dásemd, hund­ur­inn dýri hann Fíf­ill er afbragð og kett­irnir fá sinn skerf hver eftir karakt­er. Gengur í öll verk svo mann sundlar og verkjar í lið­ina með henni, bölvuð skólp­þróin að stífl­ast þegar verst á stend­ur, öll þrifin maður og sápu­skúrið, sýnir sjálfri sér þá virð­ingu að baða sig (nema um sauð­burð­inn) og hefur fasta reglu á hverjum vinnu­degi, svo mjög að mann langar að vita hvað hún borðar í morg­un­mat. Smæstu atriði skipta máli: Kónga­blái lit­ur­inn á fjár­hús­þök­un­um, ljósin á milli úti­húsa, týran í myrkr­inu frá næsta bæ.

Það villir um fyrir manni að framan af virð­ist hún frekar ein­föld mann­eskja í ein­földu umhverfi og jafn­vel aðeins bernsk í hinu stóra sam­hengi heims­ins - þótt hún tusk­ist á við hvern sem er í rétt­unum og hafi jafn­vel farið á djam­mið fyrir sunn­an. En svo læð­ast inn fleiri þankar og utan­ferðir sem opna gat á lág­skýj­aðan him­inn­inn fyrir aust­an. Inni­byrgð tog­streita kemur í ljós. Játar að hún gæti jafn­vel hugsað sér að vera bóhem og búa erlend­is, eiga heima í öruggu húsi hvernig sem viðrar og hvenær sem Katla gýs; þurfa ekki að bera ábyrgð á 500 líf­um, geta keypt krydd­stauk ef vant­ar, vera „bara þar sem rokkið er“. En hún mun auð­vitað aldrei yfir­gefa Ljót­ar­staði. Því hún er alveg rót­föst í land­inu og sögu þess. Kannski.

Og allt hitt. Fyrir utan að vinna sigra í virkj­ana­málum (vonum að við getum öll sofið rótt út af aflagðri Búlands­virkj­un) er hún þessi lands­fræga fóst­urtaln­inga­kona (meðal bænda) og þar erum við að tala um alvöru kaldar hend­ur, bogið bak og fjall­veg­as­tíma­brak um vet­ur. Kapps­full rún­ings­kona sem fer á heims­mót (þótt hún búist nú ekki við að verða atvinnu­kepp­andi í þeirri grein fer í hún í læri hjá þeim fremstu í útlönd­um) og ryður úr sér nöfnum rún­ings­meist­ara og árang­ur­stöflum á sama hátt og for­fallnir áhuga­menn um golf. Nefnir teg­und­ina af klipp­unum sem hún á. Fer í vélsleða­ferðir með ein­hverjum njólum að vet­ur­lagi um Strandir (eina kon­an) og svo þessi svaka­lega törn þegar sauð­burð­ur­inn fer í hönd og dagar og nætur og vikur renna saman í einni vakt.

Þegar þar kemur sögu kall­ast þessi bók á Stein­unnar á við aðra sögu hennar sem var líka um vakt­haf­andi konu, Vig­dísi sem var ein á for­seta­vakt.

Stein­unn skráir þessar ítar­frá­sagnir ef miklu list­fengi fyrir strák sem einu sinni var í sveit og lifir sig inn í þetta allt - þótt nú séu aðrir tím­ar. Höf­undur á miklar þakkir fyrir að stytta sér ekki leið svo maður merki, heldur leyfir öllu að tala, jafn­vel hel­vítis karga­þýf­inu á láns­tún­inu vorið sem kól… Og svo um það að farga skepn­um, sorg­ina, draga dautt fé úr fönn, ýldu­fýl­una. Ábyrgð­ina á vel­ferð dýr­anna.

Ein­stæð? Já. Og tekur útskýrða ákvörðun um að eiga ekki barn.

Þær tala mergj­aða íslensku stöll­urn­ar. Stein­unn, verð­laun­aður stílisti, var­ast skraut og póesí, lætur Heiðu tala sitt mál. Þar er nú ekki flatneskan; orð­gnótt og sam­lík­ingar utan af afrétt og innan úr þess­ari kjaft­foru kjellu sem seg­ist hafa verið alin upp við skammir og ekk­ert væl. Það hæfir að hafa fáar, svart­hvítar myndir af per­són­unni í bók­inni - fyndnar fjökyldu­myndir hefðu drepið gald­ur­inn. En vantar eig­in­lega að hafa list­rænt kort af jörð­inni og námunda við stór­fljót og eld­stöðv­ar. Maður vinnur bara úr því með nútíma­tækni.

Þegar árs­tíða­hring­ur­inn lok­ast og rit­gerðin fer á enda­punkt er þetta eig­in­lega bara full­kom­ið: Búlands­virkjun komin í vernd­ar­flokk og Heiða í sögu­flokk.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiFólk
None