Landnámssetur: Öxin. Sögustund með Magnúsi Ólafssyni
Góðar sögur heilla. Góðir sagnamenn hrífa. Það er kunnari staðreynd en frá þurfi að segja og það er sömuleiðis alþekkt að Landnámssetur hefur verið öðrum stofnunum ötulla við að rækta góðan sagnaarf; þar hafa sagnamenn og konur átt samastað fyrir sig og áheyrendur sína allt frá upphafi þess – nægir að nefna Benedikt Erlingsson og Egils sögu, Brynhildi Guðjónsdóttur og Brák, Þór Tulíníus og Þorgeir Ljósvetningagoða, Einar Kárason með ýmsar sögur, KK – og nú síðast Magnús Ólafsson, fyrrum bónda á Sveinsstöðum í Vatnsdal, sem segir sögu úr sinni sveit, söguna af síðustu aftökunni á Íslandi.
Góðar sögur, já, þær eru til dæmis sagðar af öllu því sem er fyrst – fyrsti landnámsmaðurinn, fyrsta konan í geimnum – eða því sem er síðast – síðasti ábúandinn í dalnum eða, eins og hér um ræðir, síðustu aftökunni á Íslandi, þegar þau voru tekin af lífi, Friðrik Sigurðsson frá Kaldadal og Agnes Magnúsdóttir, fyrir morðin á Natan Ketilssyni og Pétri Jónssyni.
Ef leitað er á náðir leitarvélar google og leitað að „síðustu aftökunni“, „the last execution“, þá fer vélin víða og skilar margvíslegri leitarniðurstöðu. Það er augljóst að „síðustu aftökurnar“, hvar sem er í heimi, vekja forvitni og það að vonum.
Það þarf ekki að koma á óvart að „síðasta aftakan“, hvar í heimi sem hún kann að hafa átt sér stað, á sér stað á mörkum tveggja tíma – þeirra myrku tíma þegar aftökur voru nánast daglegt brauð og notaðar jafnt í refsi- sem forvarnarskyni og þeirrar bjartari framtíðar þegar aftökur voru taldar ómannúðlegar sem refsing og önnur sýn á manninn var að ryðja sér rúms. Slík mörk tveggja tíma eru ávallt spennandi; sagnfræðingar leita skýringa á því hvað olli hugarfarsbreytingunni og niðurstöður þeirra segja okkur efalítið eitthvað um okkar eigin tíma, því mörk tveggja tíma eru ávallt og alls staðar, og sagnamenn og -konur gera sér mat úr sögunum og geta gjarnan í eyðurnar þar sem sagnfræðingarnir fálma í myrkri og mega ekki, fræðiagans vegna, spá í það sem ekki er skjalfest eða sannað á annan ótvíræðan hátt.
Síðasta aftakan á Íslandi er engin undantekning. Allt frá því að síðasti blóðdropinn storknaði á aftökustaðnum hefur aftakan sú verið milli tanna á fólki og um hana hafa síðar verið skrifaðar skáldsögur, gerðir þættir, framleiddar kvikmyndir, skrifuð leikrit, fræðirit og ljóð. Það munar um minna til að viðhalda slíkum atburði í minningunni. Einhver kynni að telja, að með því væri efnið tæmt, en því fer víðs fjarri. Góð saga verður aldrei of oft sögð, og sagan af síðustu aftökunni á Íslandi hefur að geyma ýmsa þá efnisþætti sem móta góða sögu og kitla áhuga almennings: ást, afbrýði, forsmán, kynhvöt, hatur, ágirnd, misrétti, kúgun, valdbeitingu, ofbeldi ...
Og er þá fátt eitt nefnt.
Það ku vera í undirbúningi kvikmynd í Hollywood með aðkomu frægra og svo er um þessar mundir þekktur sögumaður íslenskur, fyrrnefndur Magnús Ólafsson, að flytja sína sögu um síðustu aftökuna í Landnámssetrinu í Borgarnesi.
Hann hóf frumflutning sögu sinnar sunnudaginn 12. janúar sl., á slaginu 14.00, en þá voru liðin nákvæmlega 190 ár síðan böðullinn Guðmundur Ketilsson sveiflaði öxi sinni og hjó höfuðin af þeim Friðrik og Agnesi á aftökustaðnum að Sveinsstöðum í Vatnsdal.
Aftakan átti sér stað 12. janúar árið 1830 og það var ekki laust við að áheyrendur Magnúsar fyndu til þessa sögulega andartaks! Allt í einu var sem 190 ár hyrfu og áheyrendur á Sögulofti Landnámsseturs væru hrifnir aftur í tímann, heillaðir af kynngimögnuðum sagnakrafti Magnúsar. Það var sem við værum kominn í hóp hinna 150 bænda sem Björn Blöndal sýslumaður skipaði að vera vitni að aftökunni með orðunum: „Enginn má undan líta!“
Magnús Ólafsson er fulltrúi íslenskrar sagnamenningar eins og hún gerist best. Lykilorðið í hans sagnalist – eins og gildir raunar um íslenska sagnalist per se – er hugtakið „staðreynd“. Honum er í mun að leggja fram hverja staðreynd eins og hann þekkir best – sagan skal, hvað sem öðru líður vera trúverðug, hún á að geta verið sannferðug, hún á að geta hafa gerst.
Íslensk sagnamennska hefur ávallt haft þetta að leiðarljósi, jafnvel þegar hún virðist vera sem fjarstæðukenndust – þegar að er gáð, er það á stundum ekki nema örlítil, vel dulin breyting á sjónarhorni, sem gerir að verkum að trúverðugleikinn helst og þar með galdur sögunnar og dugar að vísa til hinnar frægu sögu um Djáknann á Myrká því til sönnunar. Meira að segja verður það til að staðfesta trúverðugleikann þegar Magnúsi virðist líkt og óvart misminna um atvik og leiðréttir sig – það verður til að sannfæra áheyrandann enn betur um að hér segir frá sögumaður sem vill, líkt og Ari fróði orðaði það forðum, „hafa það sem sannara reynisk“. Það er ekki hægt að skjóta sterkari rótum í sagnahefðinni!
Hjá Magnúsi verður þetta nánast eins og leikur: hann er fæddur og uppalinn þar sem aftakan fór fram og hann leggur nánast ævi sína undir þegar hann kveðst hafa velt þessari sögu fyrir sér frá barnsaldri og drukkið í sig allt sem aðrir sagnamenn, sagnfræðingar og sérfræðingar hafa haft um málið að segja. Hann var barn að aldri þegar faðir hans og afi áttu þátt í því að grafa upp líkamsleifar Agnesar og Friðriks þar sem þau höfðu verið husluð á aftökustaðnum og koma þeim í vígða mold. Hann hefur á seinni árum gerst leiðsögumaður ferðalanga sem hafa viljað dýpka skilning sinn á þeim atburðum sem þarna áttu sér stað fyrir tæpum tvö hundruð árum og vitna um skelfilegan harmleik. Þá er farið á hestbaki um Vatnsdal og Vatnsnes, skoðuð bæjarstæði og aðstæður, atvikum lýst og af þeim lýsingum dregnar ályktanir um hvaða hvatir kunna hafa leynst að baki gjörðum sögupersóna.
Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart að Magnús Ólafsson er hallur undir þá sögu, sem Hannah Kent segir í ágætri skáldsögu sinni, Náðarstund, sem út kom 2015 og vakti mikla athygli ekki síst vegna tilurðarsögu sjálfrar bókarinnar og nálgun Hönnuh á söguefninu, en hún var skiptinemi á Sauðárkróki og heyrði þá söguna af síðustu aftökunni á Íslandi. Magnús er hallur undir niðurstöður Hönnuh, en þau má lesa í eftirmála hennar að Náðarstund, þar sem hún að síðustu greinir frá því að þeim aragrúa rita sem segja frá Agnesi og Friðrik og vekur athygli á því að þótt þeim beri oft ekki saman, haldi þau þó gjarnan á lofti þeirri mynd að Agnes hafi verið „ómennsk norn sem ól á morðum“. Hannah Kent kveðst hafa skrifað sína sögu til að leiða fram margræðari mynd af Agnesi.
Undan því skyldi enginn líta – það er sú sögulega skylda sem hvílir á herðum okkar sem eigum þessa sögu að arfi. Þess vegna er fengur að sögustund Magnúsar Ólafssonar á Söguloftinu í Landnámssetrinu í Borgarnesi. „Öxin“ er sagnamennska eins og hún gerist sönnust og best og enginn skyldi láta hana framhjá sér fara.