Bára og Eyrún eru góðar vinkonur úr Hlíðunum sem hafa verið að dunda sér við spilagerð frá því seint í sumar. Afraksturinn er stafaspilið Stafastuð – frá A til Ö sem mun koma út núna fyrir jólin. Bára bjó spilið upphaflega til fyrir 4 ára dóttur sína en þegar hún ákvað að gefa það út fékk hún Eyrúnu til samstarfs og þær hafa síðan unnið að því að bæta og þróa spilið áfram. Eyrún hand teiknar allar myndirnar í spilinu og sér um uppsetningu á því. Kjarninn hitti Báru og Eyrúnu og tók þær tali.
Hvernig virkar Stafastuð?
„Eitt af því skemmtilega við Stafastuð er að það er hægt að spila það á svo marga vegu. Í leikreglunum sem fylgja spilinu eru tillögur að 4 spilum/leikjum. Eftir að spilið kemur út munu svo birtast fleiri tillögur að spilum og leikjum á Facebook síðu Stafastuðs. Það mun því verða úr nógu að velja. Vilji fólk kynna sér spilið betur getur það kíkt á Karolina fund þar sem allar helstu upplýsingar er að finna og þar er einnig hægt að næla sér í spilið til 4. desember.“
Hvaða aldurshópur teljið þið að hefði mest gaman að því að spila spilið?
„Spilið er fyrir 3 ára og eldri og 1-4 leikmenn. Spilið hentar bæði börnum sem eru að kynnast stöfunum og þeim sem eru lengra komin.“
Er spilið hugsað eingöngu sem skemmtun eða sjáið þið fyrir ykkur að það muni einnig stuðla að aukinni þekkingu leikmanna?
Bára svarar: „Spilið er fyrst og fremst hugsað sem góð skemmtun fyrir börn og fjölskyldur þeirra. En ef ég tek dóttur mína sem dæmi þá var mjög gaman að sjá hvað áhugi hennar og kunnátta á stöfnum jókst eftir að hún fór að spila Stafastuð. Spilið snýst auðvitað um stafina og það er óskandi að það verði börnum bæði til gagns og gamans.“
„Það er fátt notalegra en góð samverustund yfir skemmtilegu spili og við vonum að Stafastuð eigi eftir að gleða einhverja unga stafa- og spilaáhugamenn þarna úti. Þessa dagana bíðum við spenntar eftir því að fá spilið úr prentun. Þá tekur við að gera það tilbúið fyrir sölu og koma því í búðir. Allir sem vilja komast í Stafastuð um jólin ættu því að geta nælt sér í eintak.“
Verkefnið er að finna hér.