Benedikt Benediktsson er ungur ævintýramaður sem fór í heimsreisu í byrjun árs með fríðu föruneyti og ferðaðist til fimm heimsálfa. Þar skoðuðu þau sig um í 17 mismunandi löndum og sköpuðu minningar sem munu lifa lengur en sæskjaldbaka. Þegar heim var komið eftir ævintýraferðina var Benedikt með myndavélina fulla af myndum og nokkrar þeirra voru sérstakari en aðrar. Það voru #smilewithme-myndirnar. Á þeim myndum heldur Benedikt í höndina á fólki frá löndunum sem hann heimsótti og er fólkið brosandi á myndinni. Í bakgrunni er eitthvað fallegt landslag eða eitthvað einkennandi fyrir landið.
Benedikt fékk þá hugmynd að sameina ljósmyndirnar í ljósmyndabók og datt honum í hug að selja bókina til styrktar góðs málefnis. Hann ákvað að hafa samband við Rauða krossinn og voru þau mjög spennt fyrir þessari hugmynd og út frá því hófst samstarfið á milli þeirra. Allur ágóði bóksölunnar sem fer fram á Karolina Fund fer í Tómstundasjóð flóttabarna. Rauða krossinum og Benedikt fannst þessi sjóður við hæfi því á myndunum er fólk frá allskyns löndum brosandi og með því að styrkja Tómstundasjóð flóttabarna fáum við börn sem koma frá mismunandi löndum til þess að brosa.
Hvað er #smilewithme?
Smilewithme er nafn verkefnisins og ljósmyndaseríunnar sem varð til í heimsreisunni minni. Nafnið kemur út frá því að ég fæ allskyns fólk til þess að brosa með mér á ferðalagi mínu um heiminn og smelli svo mynd af því. Mér fannst brosið tilvalið til þess að vera einkennandi fyrir verkefnið vegna þess að brosið er eina tungumálið sem fólk frá öllum heimshornum skilur.
Hvaðan kemur hugmyndin að þessu verki?
Áður en ég fór af stað í þessa reisu langaði mig að gera spennandi verkefni út frá henni. Ég hafði lengi vel fylgst með pari á Instagram sem ferðast um heiminn og tekur kærastinn myndir af því þegar hann heldur í höndina á dömunni sinni með eitthvað ótrúlega fallegt í bakgrunni. Hún snýr baki í myndavélina og klæðist fötum í stíl við landið. Þeirra verkefni kallast #followmeto. Mér leist ótrúlega vel á þeirra hugmynd og ákvað að breyta henni aðeins. Í staðinn fyrir að fötin séu í stíl við landið ákvað ég í flestum tilfellum að fá einhvern heimamann til þess að brosa með mér, það tókst ekki alltaf og þá fékk ég ferðalanga mína til þess að koma í staðinn.
Ertu að vinna að þessu einn eða koma fleiri að verkinu?
Margir aðilar komu að verkefninu. Rauði krossinn á stóran þátt í að gera þetta að veruleika og rennur allur ágóðinn til þeirra. Einnig fékk ég vin minn hann Hauk Kristinsson til þess að hjálpa mér með uppsetninguna á bókinni. Forsíðuna gerði Rán Ísold vinkona mín og pabbi minn hjálpaði mér að vinna myndirnar. Ég hef fengið frábærar viðtökur við þessu verkefni og hafa margir góðhjartaðir einstaklingar styrkt eða hjálpað til með að deila verkefninu áfram og er ég afar þakklátur fyrir það. Einnig verður að þakka fyrirsætunum því án þeirra væri engin bók.
Hvað kom til að þú ákvaðst að nota verkefnið til að styrkja Tómstundasjóð flóttabarna á Íslandi?
Það var einfaldlega sá sjóður sem mér og Rauða krossinum leist best á og okkur fannst hann tengjast verkefninu. Einnig þykir okkur mikilvægt að börn sem koma til Íslands frá erfiðum aðstæðum í heimalandi sínu fái tækifæri til að aðlagast nýju samfélagi. Tómstundaiðkun gæti verið eitt af lykilatriðum til þess að komast inn í ókunnugt samfélag og að líða vel í því, það þykir okkur afar mikilvægt.
Að lokum vil ég taka það fram fyrir alla þá sem hafa áhuga á að styrkja verkefnið að sjóðurinn er ennþá opinn og verður það til og með 8. desember. Hægt er að kaupa ljósmyndabókina eða styrkja með frjálsu framlagi inn á Karolina Fund síðunni. Hér er verkefnið á Karolina fund fyrir áhugasama.