Samkvæmt niðurstöðum nýbirtrar rannsóknar sem gerð var við Vínarháskóla hefur fæðingum þar sem keisaraskurður er nauðsynlegur vegna þröngrar mjaðmagrindar móður fjölgað á undanförnum áratugum. Áætlað er að fjöldi slíkra tilfella hafi verið um 30 af hverjum 1.000 fæðingum á sjöunda áratugnum en er um 36 af hverjum 1.000 fæðingum í dag. Telja vísindamenn að hér sé um að ræða þróun sem ekki hefði átt sér stað nema með tilkomu keisaraskurða.
Stærð mjaðmagrindar kvenna getur haft áhrif á það hversu vel gengur að koma barni í heiminn. Sé stærð barnsins hlutfallslega of stórt miðað við mjaðmagrind móður þess skapast sú aðstaða að barnið hreinlega kemst ekki í gegnum fæðingarveginn. Fæðingar sem þessar voru á árum áður mjög áhættusamar og fyrir 100 árum síðan lifðu konur sem glímdu við þennan vanda og börn þeirra ekki fæðinguna af.
Að sögn Dr. Philipp Mitteroecker, kennilegs líffræðings og eins höfundar greinarinnar, hafa vísindamenn lengi velt því fyrir sér hverst vegna tíðni slikra fæðinga er eins há og raun ber vitni.
Ástæðan liggur líklega í því að með framförum í læknavísindum er í dag hægt framkvæma keisaraskurð og koma barninu þannig í heiminn með því að sniðgang fæðingarveginn. Þannig er í raun farið fram hjá hörku náttúruvalsins sem áður fyrr kom í veg fyrir að konur með þröngar mjaðmagrindur kæmu erfðaefni sínu til næstu kynslóðar.
Dr Mitteroecker tekur fram að rannsóknarhópurinn sé með niðurstöðum sínum ekki að gagnrýna læknisfræðileg inngrip. Hann telur að þróunin komi til með að halda áfram í sömu átt en telur ólíklegt að hún muni gerast hratt eða leiða til þess að keisaraskurður verði eina fæðingarleiðin í framtíðinni.
Niðurstöður rannsóknarhópsins voru birtar í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences.