Undanfarin misseri hefur Jónas Þór ásamt áhugafólki um íslenska vesturfara unnið að mótun og undirbúningi gríðarlega umfangsmikils verkefnis, sem ætlað er að varðveita merkan menningararf vesturferðanna og stórefla áhuga Íslendinga og afkomenda vesturfara í Kanada og Bandaríkjunum á þessari sameiginlegu sögu og arfleifð.
Verkefnið byggir á mótun einnar umfangsmestu vefsíðu um vesturfara og Íslandstengsl afkomenda þeirra sem ráðist hefur verið í. Vefsíðan verður miðstöð fróðleiks, hvers kyns upplýsinga og fræðslu. Hún sinnir öllum þáttum er varða tengslin við Ísland og sameiginlega, sögulega arfleifð beggja vegna Atlantsála. Síðan verður á íslensku og ensku.
Jónas hefur um áratuga skeið safnað alls kyns fróðleik og gagnlegum upplýsingum um vesturfara, líf þeirra og störf í Vesturheimi. Hann hefur skipulagt hópferðir á Íslendingaslóðir árum saman, „líklega hafa talsvert á fimmta þúsund Íslendingar komið með mér í slíkar ferðir,“ segir Jónas. Kjarninn hitti Jónas Þór og tók hann tali.
Fyrir hvern verður heimasíðan?
„Ferðirnar snúast fyrst og fremst um landnám Íslendinga í Vesturheimi, ég greini frá í ferðunum, útskýri hvers vegna tiltekið svæði var valið og hvernig til tókst. Í þessum ferðum hefur komið fram mikill áhugi á sögunni, fólk spyr iðulega hvar hægt sé að lesa meira. Þörfin á vefsíðu er augljós. Ég hef líka skipulagt ferðir um Íslands fyrir Vestur Íslendinga. Þeirra heimsóknir til Íslands eru af allt öðrum toga en venjulegs ferðamanns. Þeir vilja komast í sveitina, finna staðinn þar sem að forfeður þeirra bjuggu. Hugmyndin er að enski hluti síðunnar fjalli fyrst og frems um Ísland, hverja sýslu, hreppi og sveitir landsins. Vefsíðan er því bæði fyrir Íslendinga og frændur í Vesturheimi“.
Hvaða upplýsingar verða á síðunni?
„Síðan varðveitir nöfn vesturfara, hvaðan þeir voru og hvert þeir fóru. Algengasta spurningin sem ég fæ er hvað tók svo við þegar vestur var komið. Síðan segir sögu sérhvers landnáms í Kanada og Bandaríkjunum, hverjir settust að hvar og hún greinir frá fjölskyldum. Í gagnagrunni mínum er um 20 þúsund nöfn vesturfara og afkomenda þeirra. Ungir einhleypir menn og konur fóru vestur, fundu ástina þar, stofnuðu heimili og börnin fæddust. Hver var afstaða annarrar kynslóðar Íslendinga vestan hafs? Hvernig átti hún að rækta tengsl við Ísland og íslenska þjóð sem var foreldrunum svo kær?“
Hvaðan koma upplýsingarnar?
„Í áhugahópnum eru Vestur Íslendingar sem ég hef þekkt um árabil. Þeir hafa unnið ótrúlega mikið og gott starf við gagnaöflun, fólk finnur alls kyns gögn og upplýsingar sem eru ómetanlegar. Sendibréf hafa verið skönnuð, ljósmyndir kóperaðar en í mörgum vesturíslenskum fjölskyldum er gamalt, íslenskt efni dýrmætasti fjársjóður. Margt hefur aldrei komið fyrir almenningssjónir fyrr.“
Þessa dagana stendur yfir fjársöfnun á Karolina Fund til að vinna geti hafist við vefsíðugerðina. Verkefnið er að finna hér.