Það verður því að teljast byltingakenndar niðurstöður sem rannsóknarhópur í Barcelona birti í Nature í síðustu viku. Í rannsókninni eru meinvarpandi frumur ýmissa krabbameina skoðuð og í ljós kemur að ákveðið prótín virðist sem gegnir lykilhlutverki við myndun meinvarpa er sameiginlegt þeim öllum.
Prótínið heitir CD36 og er viðtaki fyrir fitusýrur. Prótínið var til staðar á yfirborði meinvarpandi frumna allra krabbameina sem voru skoðuð í rannsókninni. Þegar virkni prótínsins var hindruð með sérstökum CD36 hindra misstu frumurnar meinvarpandi eiginleika sína. Þetta gefur möguleikann á þróun lyfs sem beinist gegn þessu sérstaka prótíni. Með lyfinu væri mögulega hægt að hægja á eða koma í veg fyrir meinvörp krabbameina.
Þegar krabbamein er komið á meinvarpandi stig er það orðið ansi hættulegt, sérstaklega fyrir þær sakir að þá eru krabbameinin orðin mjög erfið til meðhöndlunar. Gangi fyrirætlanir rannsóknarhópsins eftir um þróun lyfs sem felur í sér hindrun á CD36 heyra þeir erfiðleikar sögunni til. Rétt er þó að taka fram að þó hér hafi margar gerðir krabbameina verið skoðuð er ekki hægt að fullyrða að CD36 stjórni meinvörpum í öllum týpum.
Prótínið er eins og áður segir viðtaki fyrir fitusýrur, en þegar prótínið binst við ákveðnar fitusýrur virkjast ferli í frumunni sem hjálpar til við meinvörp. Því miður eru þessar fitusýrur sem bindast við viðtakan ansi algengar í mataræði í vestrænum heimi, eru m.a. stór hluti pálmaolíu sem er mikið notuð í tilbúin matvæli. Þetta þýðir að hugsanlega getur neysla pálmaolíu haft áhrif á framgang krabbameins, sé það til staðar hjá neytanda.
Næstu skref rannsóknarhópsins eru að þróa lyf sem hægt er að nota til að hindra CD36 og þar með framgang krabbameina. Fyrstu prófanir hópsins, sem fóru fram í frumurækt, benda til að hindrun á prótíninu hafi ekki teljandi aukaáhrif.