Brynhildur Bolladóttir er lögfræðingur að mennt og hefur verið að velta reglum fyrir sér nokkuð lengi. Hún vill líka titla sig listakonu sem er í sífelldri leit að list. Hún fékk hugmynd að bók eða bókverki um reglur sem tengjast bæði lögfræðinni og listinni og fannst tilvalið að gefa þessar vangaveltur sínar út. Takmarkið er að fólk velti reglum fyrir sér og spyrji sig hvað reglur séu og hvers vegna við förum eftir þeim, auk þess auðvitað að fólk hafi gaman af lestrinum. Kjarninn hitti Brynhildi og tók hana tali.
Um hvað fjallar reglubókin?
„Reglubókin er bók með reglum úr daglegu lífi, flestar reglurnar eru skemmtilegar og tengjast lífi lesanda á einn eða annan hátt. Fæstar eru háalvarlegar og brot á þeim varða ekki við lög. Auk reglnanna eru vangaveltur um hvað reglur eiginlega séu. Þannig er svolítið réttarheimspekilegur inngangur að bókinni, en á mannamáli þó, áður en reglurnar mæta hver á eftir annarri. Við sjálf setjum okkur reglur, samfélagið setur okkur reglur, löggjafinn setur okkur reglur og jafnvel æðri máttarvöld. Mörkin þarna á milli eru afar óljós og við vitum ekki alltaf hvers vegna ein eða önnur regla er til, eða hvers vegna við teljum okkur þurfa að fara eftir þeim.
Flestir ættu að kannast við reglurnar sem skrásettar eru, þetta eru ýmsar reglur úr hversdagslífinu. Öll fylgjum við reglum meðvitað eða ómeðvitað á degi hverjum. Ég hef sagt að ef fólk er ósammála reglunum og fer að rökræða hvers vegna þær gildi ekki þá sé tilgangi bókarinnar náð því fólk fer þannig að velta fyrir sér hvers vegna ákveðnar reglur gildi og hvers vegna ekki.“
Hvaðan kemur hugmyndin um Reglubókina?
„Hugmyndin að Reglubókinni spratt upp frá því að kærastinn minn sagði að ég væri alltaf að setja einhverjar reglur. Ég fór að skrásetja þær reglur sem ég set sjálfri mér og fólki nánu mér. Ég er lögfræðingur að mennt og hef þannig velt reglum svolítið fyrir mér. Það er svo merkilegt hvernig samfélög setja sér reglur sem við förum eftir, jafnvel þótt þær séu óskráðar.“
Hvaða áhrif hafði það á hugmyndir þínar um skrifaðar og óskrifaðar reglur að setja þær niður á bók?
„Hugmyndir mínar um skráðar og óskráðar reglur breyttust í raun ekkert við það að ég skrásetti þær, en ég velti reglum enn meira fyrir mér og hversu merkilegt er að til séu óskráðar reglur sem við fylgjum langflest sem samfélag. Það er eiginlega alveg ótrúlegt. Jafnvel þegar fangar gera uppþot í fangelsi búa þeir sér til sínar eigin reglur í fríríkinu sem þeir hafa myndað, því við getum einhvern veginn ekki fúnkerað í stjórnleysi.“
Fjáröflunin fer fram á Karolinafund og allur styrkur er vel þeginn. Það verður enginn svikinn af þessari bók!
Verkefnið er að finna hér.