Hljómsveitin Þrír kom fram á sjónarsviðið sem hljómsveit árið 2014. Hún hefur fram að þessu haft nokkuð hægt um sig og hyggst gera það áfram ef þess er nokkur kostur. Þvert á yfirlýst áform sín safna Þrírverjar nú fyrir útgáfu fyrstu hljómskífu sinnar, Allt er þegar ÞRÍR er, hjá Karolina fund og freista þess að fá frænkur sínar og vini til að tæma baukana fyrir hlutdeild í snilldinni. Þrír spilar annars frumsamda ástríðusöngva og píningarræla og umfjöllunarefni þeirra eru eftir því. Sveitin er skipuð þeim Þórdísi Claessen á trommum, Sigurbjörgu Maríu Jósepsdóttur á kontrabassa og Jóni Torfa Arasyni söngvara og gítarleikara. Kjarninn heyrði í Sigurbjörgu Maríu og Jóni Torfa í Stykkishólmi.
Hvað kom til að hljómsveitin Þrír var stofnuð?
Jón Torfi: Vorið 2014 vorum við Sigurbjörg farin að hittast til að spila tónlist og djamma í kring um leiksýningu sem Bjarki vinur okkar Hjörleifsson var í óða önn að skrifa fyrir leikfélagið í Stykkishólmi. Hann vildi að ég gerði nokkra texta fyrir sig, en allt í einu var til fullt af lögum.
Sigurbjörg María: Síðan spilaði ég í sýningunni, og þú líka Jón þarna í restina, og svo þegar það var allt búið langaði okkur bara að gera hljómsveit.
Jón Torfi: Já, það var þá sem við lugum okkur inn á Durginn!
Sigurbjörg María: Þú laugst að Kela verti að við værum Bubba Morthens koverlaga hljómsveit og hann gleypti einhvern veginn við þessu hjá okkur, þó hann tryði þessu tæplega.
Jón Torfi: Svo á Durginum, sem er alþýðleg tónlistarhátíð á Langaholti í Staðarsveit, hittum við Þórdísi trommara loksins.
Sigurbjörg María: Það var ást við fyrsta áslátt!
Jón Torfi: Hún lét plata sig í soundcheck með okkur, og mátti svo spila með okkur heilt prógramm strax um kvöldið. Nokkuð gott að spila fullt sett eftir að hafa aðeins heyrt tvö þrjú lög.
Hvað er á döfinni hjá ykkur þessa dagana?
Jón Torfi: Hmm.. þetta er rosa fullorðins spurning.
Sigurbjörg María: Já, við gáfum plötuna okkar út á Spotify í nóvember og núna erum við að safna fyrir útgáfu hennar á bæði vinyl og geisladiski.
Jón Torfi: Við ætlum auðvitað að halda útgáfutónleika ef að söfnunin gengur upp, bæði í Reykjavík og Stykkishólmi auðvitað. Þetta verður svona með hækkandi sól.
Sigurbjörg María: Svo erum við að spila á Reykjavík Folk Festival 2-4. mars á KEX.
Hvers konar tónlist mun hljóma af nýja diskinum ykkar?
Jón Torfi: Jah, ég hvet nú alla til að athuga með okkur á Spotify.
Sigurbjörg María: Hver var það sem sagði að þetta væri in your face folk music?
Jón Torfi: Ábyggilega ekki sá sem kallaði þetta frumpolka. Nei ég veit það ekki, þetta er bara það sem við gerum. Þetta er okkar tónlist, bæði frumsamdir ástríðusöngvar og píningarrælar.
Hvað með umslagið, hvernig kom það til?
Sigurbjörg María: Ég var búin að vera að perla eitthvað, og ákvað að fiffa til einhverja mynd af okkur og sjá hvernig hún kæmi út. Sexþúsundfimmhundruðsextíuogeinni perlu seinna var þetta orðið að því sem prýðir nú framhlið plötunnar.
Jón Torfi: Stefán Karlsson sérlegur vinur hljómsveitarinnar tók reyndar myndina, fyrirmyndina. En Sigurbjörg var ekkert hætt því hún perlaði líka bakhliðina með öðrum 6798 perlum eða eitthvað.
Sigurbjörg María: Já, og þú laugst því að mér að það væri stafsetningarvilla á henni. Það tók mig marga daga að jafna mig.
Jón Torfi: Já ég er lygari, það er alveg rétt. Annars er þetta mikið heimavinnuverkefni og allt unnið af vinum og vandamönnum. Þórdís trymbill sá um grafíkina að öðru leyti, bækling og þess háttar og Daniel Pollock vinur okkar sá um upptökur og hljóðblöndun.
Verkefnið er að finna hér.