Fjölbreyttir þættir birtast í hlaðvarpsstraumi Kjarnans í hverri viku. Fimm þættir fóru í loftið í vikunni. Á næstu vikum mun þáttunum fjölga á ný þegar vordagskrá Hlaðvarps Kjarnans verður keyrð í gang. Nánar um það síðar.
Hægt er að hlusta á þættina hér á vefnum eða gerast áskrifandi að hlaðvarpsstraumnum í öllum helstu podcast-öppum í snjalltækjum. Við heitum Hlaðvarp Kjarnans á iTunes. Annars er hægt að fylgja hlekknum hér.
Tæknivarpið
Tæknifæri gervigreindar eru óendanleg
Ari Kristinn Jónsson, doktor í tölvunarfræði frá Stanford-háskóla og rektor Háskólans í Reykjavík, er gestur Tæknivarpsins þessa vikuna. Í doktorsnáminu lagði hann áherslu á að skoða hvernig hægt væri að hjálpa tölvum að taka ákvarðanir. Hann ræðir um gervigreind og starfsferil sinn í þætti dagsins en áður en hann varð rektor HR starfaði hann hjá Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) við þróun geimrannsókna með hjálp tölva og gervigreindar.
Markmiðið með spjallinu við Ara Kristinn var að líta aðeins lengra inn í framtíðina en hvenær næsti iPhone-sími kemur.
Hismið
Handbolti og snyrtivörur karla
Í Hismi vikunnar fara þeir Árni og Grétar yfir viðburðaríka viku hjá Árna, sem fór beint upp á fæðingardeild eftir síðasta þátt. Þá ræða þeir HM í handbolta sem virðist fara fram hjá flestum og pirring landsliðsmanna við fjölmiðla. Árni deilir svo niðurstöðum útektar sem hann gerði á snyrtivörumarkaðnum fyrir karlmenn.
Kvikan
Reynslulaus fjölmiðlamaður óskar eftir ráðherraembætti
Kergjan í Sjálfstæðisflokknum vegna myndunar nýrrar ríkisstjórnar og ráðherravals hefur verið opinberuð með tvennum hætti. Annars vegar hefur Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, sagt að það hljóti að hafa verið mistök sem verði leiðrétt að hann hafi ekki verið gerður að ráðherra. Hins vegar líkti Morgunblaðið stjórnarsáttmálanum við eitthvað sem Dagur B. Eggertsson hefði samið. Og Morgunblaðið þolir ekki Dag B. Eggertsson. Ruðningsáhrifin á húsnæðismarkaði sem er að þurrkast upp, eitt skref áfram með opnun ríkisbókhalds og tvö skref aftur á bak með því að ráðherrar mæta ekki fyrir þingnefndir og svo auðvitað Brexit frá sjónarhóli Skota.
Þetta og allt hitt sem skiptir öllu máli í Kviku (ekki bankans) vikunnar. Umsjónarmenn eru að venju Þórunn Elísabet Bogadóttir og Þórður Snær Júlíusson.
Markaðsvarpið
Finnum verðmætin í gögnunum
Brynjólfur Borgar Jónsson, framkvæmdastjóri Datalab, er í viðtali í Markaðsvarpinu þessa vikuna. Datalab er nýtt íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í að aðstoða við að finna verðmæti sem felast í gögnum fyrirtækja. Umsjónarmenn þáttarins eru Bjarki Pétursson og Trausti Haraldsson.
Rætt er um þann ávinning sem getur skapast með því að nota betur þau gögn sem fyrirtæki hér á Íslandi eiga nú þegar. Einnig er farið inn á nýjar reglur um persónuvernd sem taka gildi árið 2018 og hvað þarf að hafa í huga í tilliti til þeirra.
Brynjólfur ræðir um mismunandi lausnir sem stjórnendur fyrirtækja hafa nýtt sér við að nota núverandi gögn betur eins og að komast að því hvaða viðskiptavinir eru líklegastir til að hætta og bera kennsla á verðmætustu viðskiptavinina.
Sparkvarpið
Rómantíkin býr í neðri deildunum á Englandi
Í þætti vikunnar fara Þorgeir og Þórhallur yfir stöðu mála í neðri deildunum á Englandi. Þeir taka létta yfirferð á liðunum og töluðu um menninguna í Championship-deildinni. Þá töluðu þeir helst um hvernig lið bregðast við því að falla úr ensku úrvalsdeidinni.