Ógnin sem stafar af sýklalyfjaónæmum bakteríum hefur aldrei verið jafn mikil. Nýlega bárust fréttir af dauðsfalli vegna sýkingar af völdum baktería sem undir venjulegum kringumstæðum hefði verið hægt að vinna bug á með lyfjum ef ekki væri vegna ónæmis sýklanna. Því miður stefnir þessi ógn í að verða ennþá stærri því sýklalyfjaónæmi breiðist hratt út á meðal sýkjandi baktería og ný sýklalyf virðast ekki vera rétt handan við hornið.
En í nýrri rannsókn er nýtt sjónarhorn tekið á þessa langdregnu baráttu. Í rannsókninni er sameind sem kallast PPMO (peptide-conjugated phosphorodiamidate morpholino oligomer) notuð, ásamt hefðbundu sýklalyfi, gegn bakteríum sem vitað er að geyma sýklalyfjaónæmi. Þegar PPMO er notað samhliða sýklalyfinu endurheimtir sýklalyfið virkni sína.
Það vill þannig til að efnið PPMO hamlar virkni ensíms sem kallast NDM-1 (New Delhi metallo-beta-lactamase). Þetta ensím gegnir lykilhlutverki fyrir bakteríurnar við að brjóta niður sýklalyfið. Þegar NDM-1 er virkt og seytt út í umhverfið af bakteríunum hefur sýklalyfið enga virkni. Hins vegar þegar PPMO er einnig til staðar þá seyta bakteríurnar út virku NDM-1 til að brjóta niður sýklalyfið en ensímið tapar virkni sinni. Þannig nær ensímið ekki að brjóta sýklalyfið niður áður en það vinnur bug á sýklunum.
Í rannsókninni sem nefnd er hér að ofan var efnið notað í músum sýktum með þekktum bakteríum, þrátt fyrir góðar niðurstöður sem hér eru birtar er ekki þar með sagt að björninn sé unninn. Enn á eftir að skoða hvaða áhrif PPMO hefur samhliða sýklalyfja notkun í mönnum. Vonandi er notkun PPMO, eða sambærilegra efna, samhliða sýklalyfjum gegn sýkingum í mönnum, framtíðin.
Mikilvægi þess að finna ný sýklalyf er samt sem áður til staðar sér í lagi í ljósi þess að PPMO hefur eingöngu verið prófað samhliða ákveðnum tegundum pensilíns. Þessi rannsókn er þó svo sannarlega ljós í myrkrinu og við hlökkum mikið til að sjá frekari rannsóknir í þessum efnum.