Elsa G. Björnsdóttir útskrifaðist frá Kvikmyndaskóla Íslands árið 2010. Árið 2015 skrifaði hún, framleiddi og leikstýrði fyrstu stuttmyndinni sinni, „Sagan Endalausa“ sem síðar sama ár hlaut verðlaun sem besta myndin á Clin d'Oeil hátíðinni í Reims í Frakklandi. Hún hefur síðan farið á nokkrar hátíðir erlendis og verður m.a. sýnd á Stockfish Film Festival 2017 sem stendur yfir daganna 23. feb - 5. mars næstkomandi.
Elsa G. Björnsdóttir stendur ein á bak við framleiðslu stuttmyndarinnar Kára ásamt því að skrifa handritið og leikstýra.
Hvað kom til að þú hentir þér út í þetta verkefni ein?
„Já, ég er svolítið brjáluð að leggja út í þetta verkefni alein, en aðallega er ég óþolinmóð og gott ef ekki svolítið hvatvís. Ég skellti bara öllu í gang þegar ég hélt að ég væri komin með nægilegt fjármagn í verkið. Það er ástæðan fyrir því að núna sit ég uppi með uppurið fjármagn og óklárað verk þar sem kostnaðurinn var meiri en gert ráð var fyrir.“
Um hvað fjallar stuttmyndin Kári?
„Stuttmyndin er í raun samansafn af mörgum litlum sögum bæði sannsögulegum sem og sögusögnum úr döffsamfélaginu þ.e. samfélagi heyrnarlausra, sem þekkja öll það tímabil þegar táknmálið var bannað og fjölskyldur notuðu einhvers konar heimatilbúið táknmál í allra einföldustu samskiptin. Döff fólk sem búsett var úti á landi á þeim tímum muna líka vel eftir því að vera rifin í burt frá fjölskyldunni án þess að fá skýringu né hafa neinn skilning á því sem var að gerst. Aðstandendur, sérstaklega þá foreldrar finna sum hver enn fyrir þeim erfiða sársauka sem fylgdi því að þurfa að senda börnin sín ung að árum suður á heimavist og geta ekki einu sinni gefið þeim útskýringu á hvað væri að gerast.
Stuttmyndin Kári fjallar um 6 ára strák sem hrindir bróðir sínum í sjóinn og þá eftirsjá sem fylgir honum inn í fullorðinsárin að hafa gert þetta þeim sem hann unni og tengdist mest. Á fullorðinsárum kemst Kári að því að allt sem hann skynjaði og skildi út frá þeim litlu samskiptum sem hann átti við fólkið sitt í æsku var í raun byggt á misskilningi.“
Þú minntist á að tungumálið skipi stóran sess í myndinni, hvernig þá?
„Já, tungumálið er uppspretta sögunnar um orsök og afleiðingar samskiptaleysis. Tungumálið bæði mótar hugarheim Kára og þá tilveru sem hann býr við. Myndin er að sumu leyti tekin upp í point of view senum út frá Kára og þær senur munu vera hljóðlausar til að gefa áhorfandanum innsýn í hverju Kári var að missa af í upplýsingaformi frá umhverfi sínu. Áhorfandinn fær þannig að stiga í hans spor í nokkur augnablik. Aðal tungumálin í myndinni er íslenskan sem fjölskyldan og aðrir tala sín á milli fyrir utan Kára sem á eingöngu samskipti þegar talað er við hann á því heimagerða táknmáli sem þau hafa þróað með sér, sérstaklega bróðir hans Björn.“
Er eitthvað sem þú myndir gera öðruvísi varðandi vinnslu myndarinnar þegar þú lítur til baka?
„Ég var með magnað starfsfólk og stórkostlega leikara í kringum og við tökur. Fullt af hæfileikabúntum sem gáfu myndinni svo mikið, ég hefði ekki viljað velja neitt öðruvísi.
Ég get bara ekki sagt að það sé nein eftirsjá þó ég finni það vel að það er ekkert sniðugt að vera einn að framleiða heila stuttmynd, auðvitað lærir maður lang mest af þeim mistökum sem maður gerir. Ég get samt get varla kallað það mistök að fara ein út í svona stóran pakka því sú staðreynd situr eftir að eftir þrotlausa vinnu þar sem hugur, hjarta og sál er allt lagt í þetta ferli þá kenndi það mér meira en hefði getað ímyndað mér. Sá lærdómur, reynsla og upplifun hefði aldrei getað komið frá þeirri menntun sem ég fékk í Kvikmyndaskólanum og þá er ofsalega mikið sagt því þetta er góður skóli og góð menntun. Það er mér svo dýrmætt að búa að þessu að ég gæti ekki fórnað því með því að spóla til baka og gera eitthvað öðruvísi eins og að safna í eitt gott framleiðsluteymi með mér aukalega í verkið í heild en það mun ég þó klárlega gera næst. Kári er því og mun alltaf vera einstök mynd í mínum huga enda alveg einstök saga og verkefni sem ég er óendanlega stolt af.“
Hver eru næstu skref?
„Hópfjáröflunin á Karolina Fund stendur nú yfir fyrir Kára og upphæðin verður notuð í útgjöld og kostnað í tengslum við hljóðvinnslu og tónlist. Öll tónlistin sem notuð verður í myndinni er frumsamin og því ekkert tilbúið á lager sem biður eftir að ég skelli því undir í klippiforritinu. Það er nú kannski eins gott að ég sé heyrnarlaus því annars myndi ég örugglega reyna að glamra þetta sjálf á gítar og mixa hljóðið sem er náttúrlega alls ekki góð hugmynd en væri ótrúlega mikið mér líkt að framkvæma eitthvað þannig.
Karolina Fund er auðvitað allt eða ekkert vettvangur og því fjármagnast stuttmyndin Kári einungis ef 7500 evrur safnast, ég ákvað að heita á lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og láta 10% upphæðarinnar renna til þeirra svo það kemur nú ekki annað til greina en að trúa því einlæglega og af öllu hjarta að þetta muni takast.“
Hægt er að styðja verkefnið hér á Karolina Fund