Þýskaland, eitt þeirra landa sem vinnur hvað harðast að því að minnka umhverfisáhrif sín, hefur stigið enn eitt skrefið í átt að því að gera landið umhverfisvænna. Umhverfisráðherra landsins, Barbara Hendricks, hefur bannað kjöt og fisk á opinberum viðburðum ráðuneytisins og verður því eingöngu leyfilegt að bjóða upp á grænmetisfæði.
Í yfirlýsingu frá ráðuneytinu segir að ráðuneytið sé „ekki að segja neinum hvað þeir eigi að borða” fremur vilji það setja gott fordæmi vegna þess að grænmetisfæða er umhverfisvænni en kjöt og fiskur. Ráðuneytið vonast til þess að með þessu sé athygli vakin á sjáfbærri neyslu matvæla.
Kjöt og mjólkurframleiðsla hefur mikil umhverfisáhrif og er einn stærsti þátturinn í kolefnislosun á heimsvísu. Fram til þessa hafa rannsóknir sýnt fram á að minni kjötneysla dragi úr umhverfisáhrifum en auk þess hefur hún jákvæð áhrif á heilsufar fólks.
Ekki eru allir sammála um ágæti kjötbannsins og hefur það hlotið mikla gagnrýni frá pólítískum andstæðingum Hendricks. Meðal annars hefur bannið verið kallað hræsni þar sem að það nær aðeins til viðburða en banni ekki kjötneyslu alfarið í ráðuneytinu. Einnig telja einhverjir að með banninu sé verið að hafa óþarflega mikið vit fyrir fólki.
Þrátt fyrir gagnrýnina stendur umhverfisráðuneytið fast á sínu og sagði talsmaður Umhverfisráðuneytisins, Michael Schroeren, í samtali við The Guardian að bannið væri táknrænt skref þar sem að ráðuneytið vilji stunda það sem það boðar sjálft.