Í þá tíð… Harðstjórinn Marcos flýr land

Ferdinand Marcos flúði Filippseyjar eftir tuttugu ár á forsetastóli. Valdatíð hans einkenndist öðru fremur af spillingu, kúgun og gripdeildum.

 Ferdinand Marcos stýrði Filippseyjum með járnhnefa í tuttugu ár áður en hann var hrakinn úr embætti fyrir réttu 31 ári.
Ferdinand Marcos stýrði Filippseyjum með járnhnefa í tuttugu ár áður en hann var hrakinn úr embætti fyrir réttu 31 ári.
Auglýsing

Á þessum degi fyrir réttu 31 ári síð­an, hinn 25. febr­úar 1986, flúði Ferdin­and Marcos, for­seti Fil­ipps­eyja, land. Hann hafði stjórnað land­inu með harðri hendi í tutt­ugu ár, áður en mót­mæli millj­óna almennra borg­ara hrakti hann loks á braut. 

Marcosar er enn í dag helst minnst fyrir grimmd­ar­verk sín og ­gegnd­ar­lausa ­spill­ingu, en hann var meðal ann­ars, í úttekt Tran­sper­ancy International árið 2004, tal­inn annar spillt­ast þjóð­höfð­ingi allra tíma, á eft­ir Suharto ein­ræð­is­herra Indónesíu. 

Marcos fædd­ist árið 1917 og nam lög­fræði áður en hann hóf þátt­töku í stjórn­mál­um, á árunum eftir seinna stríð. Hann sat á þingi, fyrst í full­trúa­deild­inni og síðar í öld­unga­deild­inni, áður en hann var kjör­inn for­seti í árs­lok 1965. 

Auglýsing

Her­lög gegn and­ófi og skæru­liðum

Í fyrstu virtist Marcos ætla að ná góðum árangri við stjórn lands­ins þar sem land­bún­aður og iðn­aður tóku stór stökk fram á við, sem og mennt­un, en þrátt fyrir það var rísandi und­ir­alda óánægju meðal ung­menna og skæru­liða­hreyf­ingar Maóista börð­ust hat­ramm­lega gegn stjórn­ar­hern­um.

Marcos og Ronald Reagan. Marcos naut lengst af stuðnings yfirvalda í Bandaríkjunum.Því greip Marcos til þess ráðs, haustið 1972, að setja á her­lög til að stemma stigum við óró­an­um. Aðgerð­ir Marcosar ein­kennd­ust öðru framar af vald­beit­ingu þar sem hernum var beitt í þágu stjórn­ar­herr­ans og allt andóf var barið niður af hörku. Talið er að þús­undir Fil­ippsey­inga hafi verið drepnir eða mátt þola pynt­ing­ar, nauðg­anir eða ann­ars háttar ofbeldi af hálfu stjórn­ar­liða á þessum árum, en her­lögin giltu allt til árs­ins 1981.

Helsti and­stæð­ing­ur­inn ráð­inn af dögum

Einn helsti and­stæð­ing­ur Marcosar á þessum tíma var Benigno Aquino Jr, en Marcos lét fang­elsa hann eftir að her­lögin voru sett. Aquino var dæmdur til dauða, en Marcos breytti dómnum árið 1980 og hleypti honum til Banda­ríkj­anna vegna veik­inda. Þar var Aquino í þjú ár, en eftir að Marcos boð­aði til for­seta­kosn­inga árið 1983 ákvað Aquino að láta slag standa. 

Örlagavaldar. Benigno Aquino Jr. og Corazon kona hans. Benigno var ráðinn af dögum, en Corazon sigraði Marcos í forsetakosningunum 1986. Það átti hins vegar ekki fyrir honum að liggja þar sem hann var ráð­inn af dögum um leið og hann steig út úr vél­inni á flug­vell­inum í Man­ila. Morðið vakti upp mikla óánægju­bylgju, enda þótti sýnt hverjir – eða hver – stóð á bak við ódæð­ið. Óháð nefnd, sem Marcos skip­aði til að kom­ast til botns í mál­inu, komst að þeirri nið­ur­stöðu að þarna hefði verið að verki yfir­menn í hern­um. Þeir voru þó sýkn­aðir fyrir rétti og eng­inn var á end­anum dæmdur fyrir morð­ið.

Þar sem hel­sta and­stæð­ingn­um hafði þarna verið rutt úr vegi var Marcos nógu sig­ur­viss til að boða til nýrra kosn­inga, árið 1986. Mót­fram­boðið kom hins vegar á óvart, en það var Cor­azon Aquino, ekkja Benignos.

Fall og flótti

Þegar úrslit kosn­ing­anna lágu fyrir var Marcos yf­ir­lýstur sig­ur­veg­ari, en eft­ir­lits­að­il­ar, bæði inn­an­lands og utan, töldu að fram­kvæmd kosn­ing­anna hafi verið ábóta­vant og tug­þús­undir streymdu út á götur borga og bæja til að mót­mæla. Her­inn var klof­inn í afstöðu sinni til fram­bjóð­end­anna, en svo fór á end­anum að Marcos og fjöl­skylda hans höfðu sig á brott frá Fil­ipps­eyj­um, að áeggjan Banda­ríkja­stjórnar sem hafði um ára­bil stutt hann með ráðum og dáð. Aquino tók við völdum og sat til árs­ins 1992. Marcos lést árið 1989 í útlegð á Hawaii.

Spill­ing og grip­deildir á heims­mæli­kvarða

Marcosar verður senni­lega helst minnst fyr­ir­ ­gegnd­ar­lausan ­þjófnað og spill­ingu og lífstíl þeirra hjóna, sem náði oft kómískum hæðum á meðan almenn­ingur bjó við fátækt og tak­mörkuð tæki­færi. Imelda, kona ein­ræð­is­herr­ans sem hafði sjálf um ára­bil verið ein af áhrifa­mestu stjórn­mála­mönnum Fil­ipps­eyja, var til dæmis alræmd fyrir dálæti sitt á skóm og átti víst 3.000 pör þegar yfir lauk.

Marcosfjölskyldan. Imelda, ekkja Ferdinands, og börn þeirra eru enn talsvert áhrifamikil í filippseyskum stjórnmálum.Alls er talið að Marcosar­fjöl­skyldan hafi dregið sér allt að 10 millj­arða Banda­ríkja­dala úr rík­is­kass­anum á meðan þau héldu um valdataumana, og aðeins brot þeirra fjár­muna komust seinna til skila. Á árunum frá 1972, þeg­ar Marcos setti her­lög, og fram til flótt­ans juk­ust erlendar skuldir fil­ippseyska þjóð­ar­bús­ins úr tæpum þremur millj­örðum Banda­ríkja­dala upp í rúma 28 millj­arða.

Óvænt end­ur­reisn Marcos­anna

Í flestum til­fellum lýkur frá­sögnum af ein­ræð­is­herrum með því að þeir hafi fallið sneypt­ir/ör­eindir af stalli, og svo virt­ist sann­ar­lega ætla að vera um Marcos-hjónin þar sem þau eru nú eins konar hold­gerv­ingar spill­ingar og óráðs­íu.

Hins vegar hafa Imelda og börn hennar verið að ryðja sér sífellt meira til rúms í fil­ippseysku sam­fé­lagi og stjórn­málum hin síð­ustu ár og sér ekki enn fyrir end­ann á því í hinu stórfurðu­lega og hættu­lega ástandi sem þar ríkir nú um stund­ir.

Marcos og Imelda voru ákærð fyrir fjár­mála­mis­ferli á meðan þau voru í útlegð­inni í Banda­ríkj­un­um, en, eftir and­lát ein­ræð­is­herr­ans árið 1989 var Imelda sýknuð af öllum ákær­um. Hún flutti aftur hein til Fil­ipps­eyja árið 1991 og var sak­fellt fyrir spill­ingu tveimur árum síð­ar, en 1998 var dómnum snúið við.

Síðan þá hafa Imelda og börn henn­ar; Ferdin­and yngri (al­mennt kall­að­ur Bong­bong) og Imee gert sig gild­andi í stjórn­mála­lífi Fil­ipps­eyja. Imelda hefur um ára­bil verið þing­maður í full­trúa­deild­inn­i, Imee er hér­aðs­stjóri í heima­fylki föður síns og Bong­bong var öld­ung­ar­deild­ar­þing­maður sem tap­aði naum­lega í kosn­ingu til vara­for­seta Fil­ipps­eyja á síð­asta ári.

Falskar frétt­ir, val­kvæðar stað­reyndir og vel­vilji nýs for­seta

Merki­legt fyr­ir­bæri er að arf­leifð Marcosar virð­ist vera að breyt­ast í augum almenn­ings í Fil­ipps­eyjum þar sem und­an­farið hefur borið á skipu­lagðri her­ferð þar sem fag­mann­lega unnum mynd­böndum hefur verið dreift þar sem Marcos-­fjöl­skyldan er útmáluð sem fórn­ar­lamb Aquin­o-ætt­ar­innar (Cor­azon gegndi emb­ætti for­seta frá 1986 til 1992 og Ben­ingo III, sonur hennar stýrði land­inu frá 2010 fram á síð­asta ár). Þá dreifa nafn­lausar blogg­síður og vafa­samar frétta­síður greinum sem fylgja mjög mál­stað Marcos-ætt­ar­innar auk þess sem Face­book­færslum þar sem þeim, eða Rodrigo Duterte for­seta er hall­mælt, hefur verið eytt.

Ástin lifir. Lík Marcosar var lengi vel geymt í húsi fjölskyldunnar og jafnvel haft til sýnis. Hér smellir Imelda kossi á glerhjúpinn sem varði smurðan líkama einræðisherrans.Falskar fréttir og val­kvæður sann­leikur eru greini­lega ekki alfarið bundin við Banda­ríki Don­alds Trump og Rúss­land Pútíns.

Það er ef til vill engin til­viljun að þessi upp­risa Marcos­anna sé að eiga sér stað einmitt núna, eftir að Duterte tók við völd­um, því að hann hefur talað af aðdáun um Marcos gamla (enda gegndi fað­ir Dutertes ráð­herra­emb­ætti í stjórn Marcosar) og naut stuðn­ing Imee í kosn­ing­un­um.

Hinsta hvíla harð­stjór­ans í hetju­fans

Duterte topp­aði sig svo loks í nóv­em­ber á síð­asta ári, þegar hann fékk í gegn bar­áttu­mál sitt að  jarð­neskar leifar Ferdin­ands Marcos voru lagðar til hinstu hvílu í Graf­reit hetj­anna í höf­uð­borg­inni Man­ila.

Mótmæli. Ekki voru allir á eitt sáttir þegar Duterte forseti ákvað að heimila að Marcos yrði grafin í viðhafnarkirkjugarði í Manila. Það þótti mörgum vera gróf móðgun við almenn­ing sem þurfti að líða ofríki og ofbeldi harð­stjór­ans og ekki síst þeirra fjöl­mörgu sem voru drepnir á valda­tíð hans. Með þessu væri verið að gefa til kynna að grimmd­ar­verkin hafi ekki skipt máli.

Duterte lét slíka gagn­rýni þó ekki á sig fá, heldur sagði að ekk­ert í lögum lands­ins bann­aði það að Marcos væri jarð­settur á þessum stað. Hann hvatti heldur til þess að Fil­ippsey­ingar myndu finna fyr­ir­gefn­ingu í hjarta sínu, til að hægt væri að græða sár for­tíð­ar­inn­ar.

Annað mark­vert sem gerð­ist 25. febr­ú­ar:

1570

Elísa­bet I Eng­lands­drottn­ing bann­færð af páf­an­um Píusi V.

1836

Samuel Colt fær einka­leyfi á marg­hleyp­unni (revol­ver) sem bar nafn hans.

1932

Adolf Hitler fær þýskan rík­is­borg­ara­rétt. Hann býður sig fram til for­seta sama ár, en hafði ekki erindi sem erf­iði.

1948

Komm­ún­ista­flokk­ur­inn tekur völdin í Tékkóslóvak­íu 

1954

Gamal Abdel Nasser út­nefndur for­sæt­is­ráð­herra Egypta­lands. Hann varð síðar for­seti og leiddi landið í átt til nútíma­lifn­að­ar­hátta og sjálf­stæðis frá Bret­um.

1956

Ník­íta Krúsjeff, aðal­rit­ari sov­éska komm­ún­ista­flokks­ins, gagn­rýnir for­vera sinn, Jós­ef Stalín fyrir vald­níðslu, morð og hreins­anir á valda­tíma sínum og fyrir að hafa staðið fyrir skefja­lausri per­sónu­dýrk­un. Ræðan var flutt á lok­uðum fundi með hátt­sett­ustu mönnum flokks­ins en efni hennar spurð­ist úr áður en langt um leið. 

1957

Buddy Holly og The Crickets tóku upp That´ll be the day, sem varð þeirra fyrsti smell­ur.

1991

Var­sjár­banda­lag­inu, varn­ar­banda­lagi Sov­ét­ríkj­anna og sjö Aust­ur-­Evr­ópu­ríkja slit­ið.

1994

Fjöldamorðið í Abra­hamsmosk­unni í Hebron á Vest­ur­bakk­an­um. Öfga­mað­ur­inn Bar­uch Gold­stein myrðir 29 Palest­ínu­menn við bænir og særir 125 áður en hann var yfir­bug­aður og drep­inn.

2000

Fjórir lög­reglu­menn sýkn­aðir af ákæru um morð á Ama­dou Diallo, ungum inn­flytj­anda frá Gíneu. Þeir skutu 41 skoti að Diallo, sem var óvopn­að­ur, en ætl­aði að sýna lög­reglu­mönn­unum veskið sitt. Bruce Springsteen gerði þessu voða­verki m.a. skil í lag­inu Amer­ican Skin (41 Shots).

2009 

Tólf láta lífið þegar flug­vél Tur­k­ish Air­lines hrapar við lend­ingu á Schip­hol í Amster­dam

Afmæl­is­börn dags­ins:

Jean Todt (71), Kurt Rambis (59), Téa Le­oni (51),Car­rot Top (50), Sean Astin (46).

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÍ þá tíð...
None