Þóra Sigurðardóttir hefur hefur um árabil starfað við margs konar ritstörf, blaðamennsku og dagskrárgerð. Hún hefur undanfarið ár unnið að endurútgáfu Foreldrahandbókarinnar, heldur úti samnefndri vefsíðu sem er uppfull af alls kyns fróðleik og léttmeti tengdu foreldrahlutverkinu.
Foreldrahandbókin kom upphaflega út árið 2010 en hefur verið ófáanleg um árabil. Nú er unnið að því að gefa hana út aftur, með töluverðum viðbótum. Í Foreldrahandbókinni hefur Þóra tekið saman hagnýtar upplýsingar, ráðleggingar og reynslusögur um allt frá bleiuskiptum og brjóstagjöf til fæðingarþunglyndis og fyrsta ferðalagsins sem getur reynst ógnvekjandi upplifun með lítinn einstakling í föruneytinu.
Hver er forsaga Foreldrahandbókarinnar?
„Hugmyndin að foreldrahandbókinni kviknaði fyrst þegar ég var nýbúin að eignast mitt fyrsta barn og hélt að þetta yrði dans á rósum. Fljótlega fór að bera á brestum þar sem ég var alls ekki með þetta á hreinu og fann að ég þurfti hjálp. Á mér brunnu óteljandi spurningar og mér fannst erfitt að fá svar við þeim á einum stað. Ég átti mikið af erlendum bókum en mér fannst þær oftar en ekki sykurhúða raunveruleikann og alls ekki endurspegla það sem ég var að upplifa.“
„Ég byrjaði að sanka að mér fróðleik, aðallega með því að hringja í mér vitrara fólk og samviskusamlega punktaði ég allt hjá mér til að gleyma engu. Smám saman stækkaði ráðabunkinn og ég vildi deila honum með öðrum sem væru mögulega að ganga í gegnum það sama og ég. Fyrst átti þetta bara að vera lítill bæklingur sem ég ætlaði að dreifa á heilsugæslustöðvar en síðan óx verkefninu fiskur um hrygg og úr varð 300 blaðsíðna uppflettirit um flest allt það sem við kemur foreldrum og barni fyrsta árið.“
Hvers konar bók er Foreldrahandbókin og hvaða upplýsingar er þar að finna?
„Bókin er fjölþætt og í hana skrifa bæði sérfræðingar og foreldrar (sem vissulega eru sérfræðingar). Bæði er verið að deila reynslu og sérfræðiþekkingu og mikil áhersla er lögð á að hafa allan aðgang að upplýsingum sem skýrastan. Bókin fer út um víðan völl og skiptist í fjóra megin parta; barnið, næring, líkaminn eftir fæðingu og foreldrahlutverkið.“
Hefur vinnan við Foreldrahandbókina haft einhver áhrif á þína eigin reynslu af foreldrahlutverkinu?
„Ég skrifa bókina samhliða uppeldi sonar míns fyrstu tvö árin þannig að vissulega speglast mín reynsla að einhverju leyti í bókinni og að sama skapi hefur allur sá hafsjór af fróðleik sem í bókinni er haft áhrif á mína reynslu. Það er líka svo merkilegt með börn að þó þau komi úr nákvæmlega sama genamenginu þá geta þau verið svo ólík og brugðist við aðstæðum á ólíkan hátt.
Bókin kom fyrst út árið 2010 og fékk ofsalega góðar viðtökur. Það hefur lengi staðið til að uppfæra hana og bæta við og loksins sjáum við fram á að geta klárað þá vinnu. Við erum að safna fyrir útgáfunni inn á Karolina Fund en þar er hægt að kaupa bókina á sérlegum kostakjörum. Mér finnst magnað að geta fjármagnað verkefni með þessum hætti og ég vona innilega að það gangi eftir því annars erum við auðvitað bara á byrjunarreit. Að geta mögulega fjármagnað útgáfu með þessum hætti er stórkostlegt og ég er mjög spennt að sjá hvernig þetta fer allt saman.“
Af hverju ákvaðstu að gefa bókina út sjálf?
„Það var erfið ákvörðun en að sama skapi langaði mig að takast á við útgáfu og stíga veruleg út fyrir þægindarammann. Ég hef lengi verið viðloðandi útgáfumál, skrifað nokkrar bækur og hannað fleiri. Mér finnst þetta spennandi verkefni og hlakka til að sjá hvort þetta tekst. Hugmyndafræðin á bak við hópfjármögnun finnst mér líka ákaflega snjöll. Að geta stutt við einkaframtak með þessum hætti og eins og í tilfelli Foreldrahandbókarinnar - fá hana á betra verði keyrða heim að dyrum. Win-win fyrir báða aðila - einyrkjann og kaupandann.“