Vísindamönnum hefur tekist í fyrsta sinn í sögunni að útbúa þrívíddarlíkan af uppbyggingu erfðamengis músa í einstökum frumum. Með tækninni má sjá hvernig litningar raða sér upp í þrívídd í kjarna frumunnar og hvernig þeir stilla sér upp til að virkja og óvirkja ákveðnar frumur.
Í rannsókninni, sem birt var í tímaritinu Nature, skoðuðu vísindamenn myndir af erfðamengi stofnfrumna músa á myndum í afar hárri upplausn. Tækni sem nefnist Hi-C var síðan notuð til að reikna út uppbyggingu erfðamengis frumunnar út frá staðsetningu erfðaefnisins (DNA). Vísindamennirnir gátu síðan raðað saman þrívíðum líkönum og sannreynt hvaða gen voru virk hverju sinni.
Enn sem komið er hefur tæknin ekki verið prófuð á mannafrumum en vonir standa til að með því að þróa tæknina frekar verði komið tól sem gæti nýst til að skilja hvernig dýr vaxa og hvernig gallar í virkni frumna leiðir til sjúkdóma, til dæmis krabbamein.
Hér að neðan má sjá tvö myndbönd sem sýna hvernig þrívíddarlíkönin líta út. Í því fyrra má sjá hvar 20 mismunandi litningum hefur verið gefinn sinn litur og hvernig þeir raða sér upp í frumunni. Seinna myndbandið sýnir síðan svæði á litningunum þar sem gen eru virk í bláum lit og svæði þar sem þau eru minna virk í gulu.