Fjölbreyttir þættir birtast í hlaðvarpstraumi Kjarnans í hverri viku. Fimm þættir fóru í loftið í vikunni. Hægt er að hlusta á alla þættina hér á vefnum eða gerast áskrifandi að hlaðvarpsstraumnum í öllum helstu podcast-öppum í snjalltækjum. Við heitum Hlaðvarp Kjarnans á iTunes. Annars er hægt að fylgja hlekknum hér.
Aðförin
Borgarlína og svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins
Aðförin er nýr þáttur í hlaðvarpi Kjarnans þar sem fjallað er um skipulagsmál og borgarlíf. Umsjónarmenn þáttarins eru Magnea Guðmundsdóttir og Guðmundur Kristján Jónsson.
Í fyrstu tveimur þáttunum fjalla þau um nýjan tón í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og Borgarlínuna. Þetta á að þjóna sem hryggjarstykkið í skipulagi höfuðborgarsvæðisins til framtíðar.
Í fyrsta þættinum útskýrði Hrafnkell Proppé svæðisskipulagsstjóri þær áherslur sem hafðar eru í skipulagi höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040. Í þætti tvö ræddu þau Magnea og Guðmundur við Lilju G. Karlsdóttur samgönguverkfræðing um framkvæmd Borgarlínunnar.
Tæknivarpið
Frábær byrjun Nintendo Switch
Nýjasta leikjatölvan frá Nintendo var aðalatriðið í Tæknivarpinu þessa vikuna. Nintento Switch kom á markað um heim allan 3. mars síðastliðinn. Um er að ræða leikjatölvu í svipuðum stærðarflokki og gömlu GameBoy-tölvurnar eða PSP-tölvurnar frá Sony.
Stóri munurinn er hins vegar að Nintendo Switch er í raun bara svolítið þykk spjaldtölva sem þú getur tengt sjónvarpinu þínu og notað sem fjarstýringu fyrir tölvuleikina þína.
Daníel Rósinkrans, helsti Nintendo-sérfræðingur landsins, er gestur þáttarins hjá þeim Atla Stefáni Yngvasyni, Gunnlaugi Reyni Sverrissyni og Sverri Björgvinssyni.
Kvikan
Hver græðir hvað á afnámi hafta (sem er ekkert verið að afnema)?
Þrátt fyrir að tilkynnt hafi verið um fullt afnám hafta er augljóst af nýjum reglum að enn séu margar hindranir á frjálsu flæði fjármagns. Þá eru til staðar miklar hömlur á vaxtamuna- og afleiðuviðskiptum og hluti aflandskrónueigenda auðvitað enn fastur innan hafta.
En hverjir hagnast á afnámi hafta? Hver er hagur almennings, fyrirtækja, fjármagnseigenda, ríkisins og Illuga Gunnarssonar? Þessum spurningum og mörgum fleirum er svarað í Kviku vikunnar.
Hismið
Sundlaugar, sjoppur og söknuður eftir brösuðum hamborgara á góðu tilboði
Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur er gestur Hismisins að þessu sinni. Farið er yfir sundlaugar, dularfullu stúkuna við Laugardalslaug sem stendur alltaf tóm og hvaða leiðir væru færar til að fá gesti þangað, hvenær Kringlan verður normcore og kaffihúsin þar, hvort það sé raunverulegra að sitja á Cafe Milano í Skeifunni eða Kaffitár í Bankastræti, sjoppur og menninguna þar og hvort ekki sé farinn að myndast söknuður eftir raunveruleikanum og linoleum-dúkunum auk þess sem frammistaða Árna í Silfrinu un helgina er krufin.
Sparkvarpið
Trúarrígurinn í Glasgow – The Old Firm
Í Sparkvarpi vikunnar var fjallað um fótboltann í Glasgow og liðin Rangers og Celtic sem áttust við um helgina. Þeir Árni, Þórhallur og Þorgeir ræddu um liðin tvö sem og þá trúarlegu tengingu sem kyndir ríginn á milli þeirra. Celtic er lið kaþólikka í Glasgow á meðan Rangers er lið þeirra sem eru mótmælendatrúar.
Þessi lið eru einnig langstærstu liðin í Skotlandi en höfðu ekki mæst í deildarkeppni í 4 ár áður en þau mættust fyrr á þessu tímabili. Rígurinn hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir skoskan fótbolta enda hefur fótboltinn verið í lægð síðan Rangers voru dæmdir niður um deild.