Bandaríska stórfyrirtækið Amazon leitar nú að starfskrafti á tungumálatæknideild sína til þess að stjórna íslenskuþýðingum Alexu, raddstýringartækni fyrirtækisins.
Íslenska hefur ekki átt stóran sess í tölvutækni hingað til. Gerðar hafa verið þýðingar á stýrikerfi tölva eftir að þær urðu almenningseign. Það hefur hins vegar reynst of dýrt að uppfæra tungumálakunnáttu stýrikerfanna síðan framleiðendur þeirra fóru að uppfæra kerfin eins reglulega og nú er gert.
Sömu sögu er að segja um annan hugbúnað og veflausnir: Þær eru yfirleitt ekki þýddar á íslensku og þess vegna þurfa íslendingar oft að bregða fyrir sig ensku þegar forritum eru gefnar skipanir.
Af þessu hafa íslenskufræðingar haft töluverðar áhyggjur, ekki síst vegna hraðrar þróunar tækjanna. Hingað til hefur tölvum einna helst verið stjórnað með svokölluðum snerlum; þe. með því að þrýsta á hnappa og velja skipanir úr valmyndum.
„Í framtíðinni verður tungumálið hins vegar meginstjórntækið – búnaðinum verður stjórnað með því að rita skipanir á lyklaborð eða tala þær í hljóðnema,“ segir í ályktun íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu síðan 2012.
Í dag, árið 2017, má sjá ýmis merki að þessi spá sé að verða að veruleika. Bandaríska stórfyrirtækið Google hefur til dæmis kynnt nýjungar sem byggja á þeirri hugmynd að hægt sé að gefa raddskipanir, frekar en að þrýsta á hnappa. Í flestum snjalltækjum má finna einhvern „persónulegan aðstoðarmann“ sem hægt er að gefa skipanir.
Í snjalltækjum frá Apple er þessi aðstoðarmaður Siri. Hún skilur hins vegar enga íslensku, en talar útbreiddustu tungumál heimsins. Þar má finna arabísku, kínversku, ensku, frönsku, þýsku, ítölsku, japönsku, kóresku, portúgölsku, rússnesku, spænsku, tælensku og tyrknesku. Það má einnig finna dönsku, finnsku og sænsku.
Kollegi Siri er Alexa hjá Amazon. Sem stendur talar Alexa aðeins ensku og þýsku en auglýsir nú eftir málvísindafólki til þess að aðstoða við hönnun raddstýringartækni fyrir 14 tungumál til viðbótar. Þeirra á meðal er íslenska.
Fjallað er um auglýsinguna á vef þýingarstofunnar Skopos. Í auglýsingunni er auglýst eftir málfræðingum sem tala íslensku að móðurmáli, hafa góða þekkingu á hljóðfræði og hljóðkerfisfræði og eru vel að sér í forritun, meðal annars reglulegum segðum og skipanalínum í Unix/Linux.
Áhugasamir ættu að hafa hraðar hendur því umsóknarfresturinn rennur út á föstudaginn, 31. mars næstkomandi.