Að þessu sinni langar mig að kynna mína uppáhalds trommuleikara og hvers vegna mér finnst þeir frábærir. Þetta er nokkuð nýtt fyrir mér því ég leik ekki á trommur en tel mig þó, sem bassa- og gítarleikara, hafa nokkuð skynbragð á það hvernig þetta magnaða hljóðfæri virkar.
Að vera góður hljóðfæraleikari snýst ekki aðallega um að vera tæknilega fær (þó það sé ekkert verra!), heldur frekar að vera frjór, skapandi, hugmyndaríkur og fljótur að læra. Ef þessir hlutir eru ekki til staðar þá hjálpar ekkert að geta leikið hraðar en auga á festir.
Trommarar eru sérstakir. Það er stundum gert grín að bassaleikurum eins og þeir séu einhver allt önnur manngerð en t.d. gítarleikarar eða söngvarar. Ég er einn þeirra sem spila jöfnum höndum á bassa eða gítar og ég er ósammála þessu. Bassaleikarar eru einmitt oft svipaðar týpur og t.d. gítarleikarar enda ekki ósvipuð hljóðfæri þó hlutverk þeirra sé oft ólíkt.
Trommurnar eru aftur á móti allt annar heimur og þar lifir trommarinn og hrærist og guðirnir einir mega stundum vita hvað er að gerast í hausnum á þessu fólki! Ef má líkja hljómsveitinni við skip þá er trommuleikarinn vélin. Skipið siglir ekki langt ef vélin er léleg. „Bandið verður ekkert betra en trommarinn,“ sagði goðsögnin Rúnar Júlíusson einhvern tíma og það er hárrétt. Trommuleikarinn er grunnurinn og kjölfestan í bandinu. Ef hann er ekki að virka með hinum meðlimum bandsins þá gengur þetta ekki upp. Það eina sem er kannski sorglegra en að heyra slæman trommara spila með ágætu bandi, er einmitt andstaðan: Góður trommari í miðlungs góðri hljómsveit.
Einnig heyri ég stundum gert grín að trommurum á þann hátt að þeir hafi slakara gáfnafar en aðrir. Margir góðir brandarar hafa þannig orðið til: Hví setur bassaleikarinn alltaf trommukjuða ofan á mælaborðið? Jú, svo hann verði ekki sektaður fyrir að leggja í stæði fatlaðra! Mín reynsla af trommurum er reyndar allt önnur. Ef eitthvað er þá eru þeir almennt gáfaðari en aðrir. Þarna! Ég sagði það!
Ekki misskilja mig, þeir eru samt stórskrýtnir.
Tekið skal fram að þessir trommarar sem taldir eru upp hér eru ekki sérstaklega valdir eftir því hversu tæknilega góðir þeir eru. Þetta eru bara trommarar sem mér finnist skemmtilegir og hafa haft áhrif á mig. Því kemur kannski ekki á óvart að flestir ef ekki allir þeirra eru úr hljómsveitum sem ég sjálfur hef gaman af. Einnig eru þetta aðeins topp tíu svo auðvitað vantar marga frábæra trommara þarna. Verið ekkert að eyða púðri í að tuða yfir því. Ég nenni ekkert að hlusta ekki á það. Sértu óánægður með listann, gerðu þá þinn eiginn.
Þarna eru einungis erlendir trommarar. Margir íslenskir trommarar eru frábærir og hafa haft gífurleg áhrif á mig. Ég ákvað bara að hafa þá ekki með því ég vil ekki gera upp á milli þeirra.
Topp 10 trommarar að mati Flosa:
10. Dave Lombardo
Ég hef aldrei verið mikill metalhaus en ég get þó sagt ykkur hvar og hvenær ég heyrði fyrst í Slayer. Það var í Breiðholti árið 1987.
Ég var, eins og vanalega, vakandi langt fram á nótt að horfa á sjónvarpið. Ég skipti á milli stöðva og skyndilega kom myndband með einhverju illúðlegu metalbandi þar sem gítarleikarinn virtist vera með blóðuga gaddavírsrúllu á handleggjunum!? Þetta var Kerry King, bandið var Slayer og þeir voru að spila „Hell Awaits“. Ég hafði aldrei heyrt annað eins. Hvílíkur illskutuddi sem þetta var og krafturinn í þessum trommara! Ég varð síðan svo heppinn löngu seinna að sjá Slayer á Roskilde 2002 og þá varð það morgunljóst hversu mikilvægur hlekkur Lombardo var í þessu bandi.
Að heyra hann spila „Reign in Blood„ var ólýsanlegt. Mér rennur kalt vatn (eða blóð!) milli skinns og hörunds við að rifja það upp. Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá meistarann að störfum með Slayer á meðan allt lék í lyndi á milli þeirra félaga.
9. Mitch Mitchell
Svo ég vitni í Rúnar Júlíusson: þá verður bandið aldrei betra en trommarinn. Jimi Hendrix er einn besti gítarleikari allra tíma og algjör frumkvöðull. Það gefur því auga leið að slíkur maður gat ekki haft einhvern aukvisa á trommur og það var alls ekki tilfellið hér!
Mitchell var frábær trommari og að mörgu leyti var hann fullkominn fyrir Hendrix. Stíll þeirra var að ýmsu leyti líkur, tryllt, spennuþrungið og ófyrirsjáanlegt spil, algjörir galdrar. Ég hef alltaf haft gaman af trommurum sem nota djasstækni í rokktónlist og það er alveg ljóst að Mitchell hafði þann bakgrunn. Hann grúvaði einnig eins og vel smurð vél. Hendrix var heppinn að hafa hann sér við hlið er hann bjó sig undir að taka heiminn með trompi. Á meðfylgjandi myndbandi má heyra hvernig Mitchell fyllir upp í allar mögulegar eyður og heldur öllu spilverkinu gangandi.
8. Stewart Copeland
The Police voru lengi sakbitin sæla hjá mér. Ég fékk Zenyatta Mondatta gefins er ég var um það bil 12 ára og hlustaði á hana fram og tilbaka. Það þótti þó ekkert fínt meðal pönkara að fíla þetta band svo ég hafði ekkert hátt um það! Þegar ég fór sjálfur að spila á hljóðfæri öðlaðist ég enn meiri skilning á því hvað þetta voru frábærir hljóðfæraleikarar.
Sting fór eftir „Less is More“ stefnunni á bassanum og Andy Sumners er alveg frábær gítarleikari, nettur en uppfinningasamur. Copeland er jafnvel besti hljóðfæraleikarinn af þessum þremur. Snerilsándið hjá honum er í uppáhaldi, svona hart staccato, ekki þetta dæmigerða plastpokasánd sem einkenndi níunda áratuginn. Svo eru alls kyns djass- og reggíáhrif í spilinu hjá honum.
Þegar Les Claypool og Trey Anastasio leituðu að trommara í súpergrúppuna Oysterhead uppgötvuðu þeir að báðir höfðu þeir Copeland í miklum metum. Í meðfylgjandi myndbandi sýnir Copeland allar sínar bestu hliðar. Hann veit hvenær á að vera á fullu og hvenær skal draga aðeins úr. Frábær trommari!
7. Budgie
Budgie (Peter Edward Clarke) er líklega mesti Íslandsvinurinn á listanum. Hann leikur með hljómsveit John Grant en hún er að mestu skipuð Íslendingum. Ég er mikill aðdáandi Siouxsie & the Banshees og fyrir utan meistaragítarleik John McGeoch (BBC gerði meira að segja útvarpsþátt um þann meistara) þá var trommuleikur Budgies það sem virkilega setti svip á bandið.
Hann nýtti allt trommusettið, spilaði sjaldnast þessa hefðbundnu rokk og ról takta, en notaði tom-tom (litlu trommurnar ofan á stóru bassatrommunni) mikið, auk alls kyns framandi ásláttarhljóðfæra. Í meðfylgjandi myndbandi finnst mér einnig stórkostlegt hvernig hann notar snerilinn og hi-hattið. Þessi frábæra hljómsveit hefði hljómað allt öðru vísi ef Budgie hefði spilað mjög hefðbundinn ryþma, s.s einfaldan hi-hat, sneril og bassatrommubít. Líklega hefði hún verið minna spennandi þá.
Stewart Copeland lét eitt sinn þau orð falla að Budgie hefði verið einn af eftirtektarverðari trommurum sinnar kynslóðar. Það eru sannarlega fínustu meðmæli.
6. Ian Paice
Þetta er einn af risunum, einn af frumkvöðlum í nútíma rokktrommuleik. Flestir geta nefnt eitthvað Purple lag sem þeir þekkja trommurnar úr. Ég fæ alltaf hroll er ég heyri byrjunina á „Fireball“ og þetta magnaða grúv úr „Space Truckin'“. Paice er þrumuguð. Trommurnar hjá honum eru eitthvað tryllt náttúrafl.
Ég ákvað að velja „Black Night“ sem meðfylgjandi tóndæmi því það er flóknara en margir halda að spila þennan ryþma og gera það vel. Paice gerir allt fullkomlega í þessu lagi. Grúvar svo sveitt og þétt að unun er á að hlýða. Samt er þetta svo afslappað og grúví. Breikið á 2:30? Algjörlega stórfenglegt!
5. Billy Cobham
Pönk púrítanar fussa oft þegar minnst er á jazzfusion en enginn alvöru tónlistarunnandi afskrifar heila tónlistarstefnu. Ég varð einu sinni þess heiðurs aðnjótandi að eiga smá spjall við Gunnar Reyni Sveinsson tónskáld og man orðrétt að hann sagðist sjá það æ betur með aldrinum að það væri í raun aðeins til tvær tegundir af tónlist: Góð og slæm.
Mér leiddist yfirleitt jazzfusion eins og t.d. Mezzoforte og Spyro Gyra fluttu, fannst það áreynslulítið og dauðhreinsað. Mahavishnu Orchestra var allt annað dæmi. Þar var spenna og tryllingur! Að hlusta á Inner Mounting Flame í fyrsta skipti var nánast trúarleg upplifun. Góð hljómsveit verður ekki góð nema trommarinn sé góður en Billy Cobham var svo miklu meira en góður. Hann var og er alveg stórkostlegur trommari. Frá upphafi var mikil spenna meðal meðlima sveitarinnar og það skilaði sér í tónlistinni.
Á YouTube er að finna upptökur frá tónleikum í München og Syracuse 1972 en þá var ástandið í bandinu komið að þolmörkum og spennustigið er sturlað. Það heyrist ekki síst í stórkostlegri spilamennsku Cobham sem er ekkert að halda aftur af sér og spilar sem andsetinn sé. Einnig má mæla með meistaraverki Miles Davis: Bitches Brew þar sem Cobham fer á kostum.
Ég læt fylgja með upptöku af laginu Stratus af fyrstu sólóplötu Cobham Spectrum því þetta er lag eftir hann sjálfan og einnig er þetta líklega hans þekktasta lag. Það heyrist í Grand Theft Auto tölvuleiknum og Prince átti til að taka þetta lag live.
4. Neil Peart
Sem unglingur þá fannst mér Rush alltaf alveg frámunalega hallærislegt band. Svo tókst vini mínum að pranga inn á mig plötunni Moving Pictures og ég kolféll fyrir þeim. Enn og aftur segi ég það, að gott band verður að hafa góðan trommara, en góður trommari hljómar enn betur með góðum bassaleikara og Geddy Lee er fantagóður bassaleikari. Góður trommari og góður bassaleikari verða jafnvel enn betri með góðum gítarleikara og Alex Lifeson er einn af þeim betri.
Rush eru bara í sérflokki hvað spilamennsku varðar. Allir eru þremenningarnir á heimsmælikvarða. Ég elska trommara sem gera mikið en gera það vel. Sumum finnst Peart vera á full mikilli ferð stundum en ég tek ekki undir það. Mér finnst allt frábært sem hann gerir. Alltaf. Hann fyllir upp í allar holur og eyður jafn fljótt og þær myndast en heldur aftur af sér þar sem það á við. Tæknin er ógurleg en tilfinningin er alltaf til staðar. Hann hefur alveg þetta sem ég vill alltaf sjá hjá trommurum: Dýrseðlið. Einhver rafmögnuð tenging við eitthvað afar frumstætt, afar kröftugt afl sem er jafngamalt jörðinni. Spilamennskan í laginu sem fylgir með er algjörlega mögnuð, eilífar taktskiptingar og hreyfingafræðilegt flæði. Peart er með allt á hreinu. Alltaf.
3. Clyde Stubblefield/John Jabo Starks
Mr. Funky Drummer himself! Hver hefur ekki einhvern tíma dansað sig frávita við tónlist James Brown? Mér er til efs að til hafi verið jafn út úr fönkað og sálarsveitt band eins og hljómsveit Brown þegar hún var upp á sitt besta. Á bakvið allt þetta var fönkmeistarinn Clyde Stubblefield. Hann gæti jafnvel verið sá trommari á listanum sem flestir hafa heyrt í, því trommurnar úr laginu Funky Drummer hafa verið samplaðar alveg í drasl. Tónlistarmenn á borð við Public Enemy, Run DMC, Beastie Boys, NWA, LL Cool J og Prince hafa notast við þennan sjóðheita ryþma. Stubblefield getur einnig kallast einn vanmetnasti trommari allra tíma því hann hefur aldrei fengið krónu fyrir þetta.
Það er ekki annað hægt en að hafa meistarann John Starks með því þeir mynduðu alveg eitrað trommaradúó og spiluðu saman í mörgum James Brown-lögum. Þetta gerist ekki sveittara, fönkaðra eða skemmtilegra. James Brown var keisarinn en góður keisari þarf góða hirðmenn og með Stubblefield og Starks á trommum (og Bootsy Collins á bassa!) voru honum allir vegir færir, enda lagði hann heiminn að fótum sér með þennan mannskap á bak við sig. Í meðfylgjandi myndbandi fær Stubblefield sviðsljósið í skamman tíma á 6:00. „Give the drummer some!“ Hvílíkur meistari! Hvílíkt grúv!
2. Phil Rudd
„Hann er kannski ekki sá besti en hann er sá allra svalasti,“ heyrði ég eitt sinn íslenskan trommuleikara segja um Phil Rudd. Ég gæti ekki verið meira sammála. Hér er ekki verið að flækja sig í offbítum eða sólóum. Rudd tekur meira að segja nær aldrei breik. Hér snýst allt um ryþma og fíling.
Rudd var einhvern tíma spurður um sína tækni. Það stóð ekki á svari: „Ég spái ekkert í tækni. Ég athuga bara fílinginn í laginu og spila eftir því“. Þessi stórkostlegi mínímalisti átti sinn hlut í því að öll þessi ódauðlegu lög AC/DC hljóma og grúva jafn frábærlega og þau gera. Þó er það svo að þótt Rudd sé ekki að gera flókna hluti þá hljómar enginn alveg eins og hann.
AC/DC hafa haft aðra trommara, t.d. Chris Slade sem er mjög góður trommari, en það var greinilegur munur er Rudd sat ekki við settið. Ég hef einnig ótal sinnum heyrt hljómsveitir taka AC/DC ábreiður og flestir trommarar bara ná ekki sama dauðagrúvi og Rudd.
Það eru litlu hlutirnir sem skipta máli. Þar má t.d. nefna hi-hattið í Hells Bells. Margir trommarar spila þar 4-parta áslátt en Rudd er í raun að gera 8-parta. Hann veit nákvæmlega hvenær á að halda hi-hatti opnum eða lokuðum. Svo er hann algjör sleggja. Mike Price upptökumaður sagðist aldrei hafa kynnst jafn harðhentum trommara: „Yfirleitt þarf að skipta um snerilskinn eftir tvær tökur“.
Það er ekki verra fyrir góðan trommara að hafa bassaleikara sem er á sömu línu og Cliff Williams er í raun bassaleikaraútgáfa af Phil Rudd. Æðislegur bassaleikari sem, eins og Rudd, vissi alltaf upp á hár hvað hentaði laginu. Í meðfylgjandi lagi af meistaraverkinu Back in Black finnst mér Rudd gera allt 100%. Allar áherslur, hi-hat, symbalar, þetta svínvirkar allt og grúvar til helvítis og tilbaka. Stórkostlegur trommari. Goðsögn.
Heiðurssæti: Buddy Rich
Ég ákvað að velja á þennan lista trommara sem spilar tónlist sem ég hef sjálfur mætur á. Þetta „swing“ sem Buddy Rich var frægur fyrir fellur ekki undir það þó það megi alveg hafa gaman af því við vissar aðstæður. Mér fannst samt sem ég yrði einhvers staðar að koma Buddy að. Af hverju? Nú fyrir það fyrsta, þá er hann einn stórkostlegasti trommari allra tíma og í öðru lagi þá efast ég ekki um að allir hinir trommararnir á listanum gætu nefnt hann sem áhrifavald. Veit reyndar að margir þeirra hafa gert það.
Meira að segja trommarinn sem verður í fyrsta sæti gerði það og sá hefur verið frekar spar á lofsyrði um aðra trommara en sig sjálfan!
Einnig hafði Buddy Rich þennan brjálaða frumkraft sem ég vil sjá hjá trommurum. Reyndar hafði hann þennan kraft í ómældu magni! Til eru margar sögur af þessum skapheita manni sem þó var sagður hafa stórt hjarta. Einn af hljóðfæraleikurunum í hljómsveitinni hans lýsti því þannig að Rich hefði margoft orðið brjálaður, húðskammað og hótað að reka þá en afar sjaldan látið verða af því.
Buddy Rich var í einu orði sagt: Stórkostlegur. Alveg stórkostlegur trommuleikari. Hann bjó yfir öllu: Áðurnefndum frumkrafti auk hraða, tækni og tilfinningu. Meðfylgjandi myndband sýnir vel kraftinn sem bjó í karlinum. Hafið í huga að á þessum tónleikum er hann um sjötíu ára og kominn langt yfir sitt besta en ég fæ yfirleitt gæsahúð er ég horfi á þetta sóló og mér hundleiðast trommusóló! Hann lést tæplega fimm árum seinna. Takið eftir svipnum á karlinum þegar hann refsar trommusettinu! Svo gat hann slakað á og gert smá hi-hat galdur eins og sést á 1:24.
1. Animal
„All drummers are animals,“ á Buddy Rich að hafa sagt einhvern tíma. Það er því vel við hæfi að á toppnum hjá mér tróni Animal. Hann er í toppsætinu vegna þess að hann er minn fyrsti uppáhalds trommari og í raun var það í gegnum Animal sem ég í fyrsta skipti uppgötvaði að til væru trommuleikarar og að þeir spiluðu nokkuð aðra rullu en aðrir í hljómsveitinni. Einnig finnst mér gaman að því að þessi tuskudúkka skuli í raun vera holdgerfingur trommuleikara.
Ég hef áður minnst á það hvernig ég upplifi trommarahlutverkið. Frekar en aðrir í bandinu er trommuleikarinn tengdur hinu villta frumeðli mannsins. Þetta er að ýmsu leyti frumstæðasta hljóðfærið, en alls ekki í neikvæðri merkingu, því trommurnar eru einnig afar flókið hljóðfæri. Báðar hendur og báðir fætur eru notaðar við trommusettið og trommarinn þarf að hafa vakandi auga og eyra með öðrum hljóðfærum og passa sig á að missa ekki „grúvið“ og taktinn bókstaflega úr höndum sér. Tónlist er erfitt að útskýra. Hún þarf að tengja við einhverja taug djúpt í sálarlífi mannsins.
Við vitum í raun ekki hvað gerist eða af hverju ef einhver tónlist hefur svo mikil áhrif á okkur. Ég veit það bara af reynslu minni af að spila í hljómsveit að þarna gegnir trommuleikarinn svo miklu hlutverki. Ef hann er í óstuði þá er ekkert stuð. Bandið virkar ekki. Af þessum sökum verður trommarinn oft frekar heilagur í bandinu. Það fíflast enginn í honum. Frægt er þegar Charlie Watts kýldi Mick Jagger einvörðungu vegna þess að Jagger hafði kallað hann „my drummer".
Skapari Animal, Frank Oz, sagði aðeins fimm hluti liggja að baki persónunnar: Trommur, kynlíf, matur, svefn og sársauki. Kermit spurði Animal eitt sinn hvort að trommurnar væru honum mikilvægari en matur? Það stóð ekki á svari frá Animal: „TROMMUR ERU MATUR!!!“
Það var enski djasstrommarinn Ronnie Verrell sem yfirleitt lék á trommurnar, falinn bak við þessa dúkku, þennan tryllta brjálæðing sem er einkenni allra trommara. Allir gestir sem komu í Muppet Show fengu að óska eftir atriði með einhverjum Prúðuleikara. Miss Piggy var vinsælust en Animal í öðru sæti. Buddy Rich bað að sjálfsögðu um trommubardaga við Animal og vann en endaði með bassatrommu Animal í höfðinu á sér. Ekki frekar en Charlie Watts þá lætur Animal heldur ekki bjóða sér neitt rugl frá söngvurum eins og sést á meðfylgjandi myndbandi þar sem Rita Moreno lendir upp á kant við trommuleikara allra trommuleikara.