Tíu bestu trommarar sögunnar

Flosi Þorgeirsson, gítarleikari í hljómsveitinni HAM, stillti upp sínum uppáhaldstrommuleikurum og færði rök fyrir því hvers vegna honum þykja þeir frábærir.

Trommur
Auglýsing

Að þessu sinni langar mig að kynna mína upp­á­halds trommu­leik­ara og hvers vegna mér finnst þeir frá­bær­ir. Þetta er nokkuð nýtt fyrir mér því ég leik ekki á trommur en tel mig þó, sem bassa- og gít­ar­leik­ara, hafa nokkuð skyn­bragð á það hvernig þetta magn­aða hljóð­færi virk­ar.

Að vera góður hljóð­færa­leik­ari snýst ekki aðal­lega um að vera tækni­lega fær (þó það sé ekk­ert verra!), heldur frekar að vera frjór, skap­andi, hug­mynda­ríkur og fljótur að læra. Ef þessir hlutir eru ekki til staðar þá hjálpar ekk­ert að geta leikið hraðar en auga á fest­ir.

Trommarar eru sér­stak­ir. Það er stundum gert grín að bassa­leik­urum eins og þeir séu ein­hver allt önnur mann­gerð en t.d. gít­ar­leik­arar eða söngv­ar­ar. Ég er einn þeirra sem spila jöfnum höndum á bassa eða gítar og ég er ósam­mála þessu. Bassa­leik­arar eru einmitt oft svip­aðar týpur og t.d. gít­ar­leik­arar enda ekki ósvipuð hljóð­færi þó hlut­verk þeirra sé oft ólíkt.

Tromm­urnar eru aftur á móti allt annar heimur og þar lifir trommar­inn og hrær­ist og guð­irnir einir mega stundum vita hvað er að ger­ast í hausnum á þessu fólki! Ef má líkja hljóm­sveit­inni við skip þá er trommu­leik­ar­inn vél­in. Skipið siglir ekki langt ef vélin er léleg. „Bandið verður ekk­ert betra en trommar­inn,“ sagði goð­sögnin Rúnar Júl­í­us­son ein­hvern tíma og það er hár­rétt. Trommu­leik­ar­inn er grunn­ur­inn og kjöl­festan í band­inu. Ef hann er ekki að virka með hinum með­limum bands­ins þá gengur þetta ekki upp. Það eina sem er kannski sorg­legra en að heyra slæman trommara spila með ágætu bandi, er einmitt and­stað­an: Góður trommari í miðl­ungs góðri hljóm­sveit.

Einnig heyri ég stundum gert grín að tromm­urum á þann hátt að þeir hafi slak­ara gáfna­far en aðr­ir. Margir góðir brand­arar hafa þannig orðið til: Hví setur bassa­leik­ar­inn alltaf trommu­kj­uða ofan á mæla­borð­ið? Jú, svo hann verði ekki sektaður fyrir að leggja í stæði fatl­aðra! Mín reynsla af tromm­urum er reyndar allt önn­ur. Ef eitt­hvað er þá eru þeir almennt gáf­að­ari en aðr­ir. Þarna! Ég sagði það!

Ekki mis­skilja mig, þeir eru samt stór­skrýtn­ir.

Tekið skal fram að þessir trommarar sem taldir eru upp hér eru ekki sér­stak­lega valdir eftir því hversu tækni­lega góðir þeir eru. Þetta eru bara trommarar sem mér finn­ist skemmti­legir og hafa haft áhrif á mig. Því kemur kannski ekki á óvart að flestir ef ekki allir þeirra eru úr hljóm­sveitum sem ég sjálfur hef gaman af. Einnig eru þetta aðeins topp tíu svo auð­vitað vantar marga frá­bæra trommara þarna. Verið ekk­ert að eyða púðri í að tuða yfir því. Ég nenni ekk­ert að hlusta ekki á það. Sértu óánægður með list­ann, gerðu þá þinn eig­inn.

Þarna eru ein­ungis erlendir trommar­ar. Margir íslenskir trommarar eru frá­bærir og hafa haft gíf­ur­leg áhrif á mig. Ég ákvað bara að hafa þá ekki með því ég vil ekki gera upp á milli þeirra.

Auglýsing

Topp 10 trommarar að mati Flosa:

10. Dave Lombardo

Ég hef aldrei verið mik­ill metal­haus en ég get þó sagt ykkur hvar og hvenær ég heyrði fyrst í Slayer. Það var í Breið­holti árið 1987.

Ég var, eins og vana­lega, vak­andi langt fram á nótt að horfa á sjón­varp­ið. Ég skipti á milli stöðva og skyndi­lega kom mynd­band með ein­hverju ill­úð­legu metal­bandi þar sem gít­ar­leik­ar­inn virt­ist vera með blóð­uga gadda­vírs­rúllu á hand­leggj­un­um!? Þetta var Kerry King, bandið var Slayer og þeir voru að spila „Hell Awaits“. Ég hafði aldrei heyrt annað eins. Hví­líkur illskutuddi sem þetta var og kraft­ur­inn í þessum trommara! Ég varð síðan svo hepp­inn löngu seinna að sjá Slayer á Rosk­ilde 2002 og þá varð það morg­un­ljóst hversu mik­il­vægur hlekkur Lombardo var í þessu bandi.

Að heyra hann spila „Reign in Blood„ var ólýs­an­legt. Mér rennur kalt vatn (eða blóð!) milli skinns og hör­unds við að rifja það upp. Á með­fylgj­andi mynd­skeiði má sjá meist­ar­ann að störfum með Slayer á meðan allt lék í lyndi á milli þeirra félaga.9. Mitch Mitchell

Svo ég vitni í Rúnar Júl­í­us­son: þá verður bandið aldrei betra en trommar­inn. Jimi Hendrix er einn besti gít­ar­leik­ari allra tíma og algjör frum­kvöð­ull. Það gefur því auga leið að slíkur maður gat ekki haft ein­hvern aukvisa á trommur og það var alls ekki til­fellið hér!

Mitchell var frá­bær trommari og að mörgu leyti var hann full­kom­inn fyrir Hendrix. Stíll þeirra var að ýmsu leyti lík­ur, tryllt, spennu­þrungið og ófyr­ir­sjá­an­legt spil, algjörir galdr­ar. Ég hef alltaf haft gaman af tromm­urum sem nota djass­tækni í rokktón­list og það er alveg ljóst að Mitchell hafði þann bak­grunn. Hann grú­vaði einnig eins og vel smurð vél. Hendrix var hepp­inn að hafa hann sér við hlið er hann bjó sig undir að taka heim­inn með trompi. Á með­fylgj­andi mynd­bandi má heyra hvernig Mitchell fyllir upp í allar mögu­legar eyður og heldur öllu spil­verk­inu gang­andi.8. Stewart Copeland

The Police voru lengi sak­bitin sæla hjá mér. Ég fékk Zenyatta Monda­tta gef­ins er ég var um það bil 12 ára og hlust­aði á hana fram og til­baka. Það þótti þó ekk­ert fínt meðal pönk­ara að fíla þetta band svo ég hafði ekk­ert hátt um það! Þegar ég fór sjálfur að spila á hljóð­færi öðl­að­ist ég enn meiri skiln­ing á því hvað þetta voru frá­bærir hljóð­færa­leik­ar­ar.

Sting fór eftir „Less is More“ stefn­unni á bass­anum og Andy Sumners er alveg frá­bær gít­ar­leik­ari, nettur en upp­finn­inga­sam­ur. Copeland er jafn­vel besti hljóð­færa­leik­ar­inn af þessum þrem­ur. Sner­ilsándið hjá honum er í upp­á­haldi, svona hart staccato, ekki þetta dæmi­gerða plast­poka­sánd sem ein­kenndi níunda ára­tug­inn. Svo eru alls kyns djass- og reggíá­hrif í spil­inu hjá hon­um.

Þegar Les Claypool og Trey Anastasio leit­uðu að trommara í súpergrúpp­una Oyster­head upp­götv­uðu þeir að báðir höfðu þeir Copeland í miklum met­um. Í með­fylgj­andi mynd­bandi sýnir Copeland allar sínar bestu hlið­ar. Hann veit hvenær á að vera á fullu og hvenær skal draga aðeins úr. Frá­bær trommari!7. Budgie

Budgie (Peter Edward Clar­ke) er lík­lega mesti Íslands­vin­ur­inn á list­an­um. Hann leikur með hljóm­sveit John Grant en hún er að mestu skipuð Íslend­ing­um. Ég er mik­ill aðdá­andi Siouxsie & the Bans­hees og fyrir utan meistaragít­ar­leik John McGeoch (BBC gerði meira að segja útvarps­þátt um þann meist­ara) þá var trommu­leikur Budgies það sem virki­lega setti svip á band­ið.

Hann nýtti allt trommu­sett­ið, spil­aði sjaldn­ast þessa hefð­bundnu rokk og ról takta, en not­aði tom-tom (litlu tromm­urnar ofan á stóru bassatromm­unni) mik­ið, auk alls kyns fram­andi áslátt­ar­hljóð­færa. Í með­fylgj­andi mynd­bandi finnst mér einnig stór­kost­legt hvernig hann notar sner­il­inn og hi-hatt­ið. Þessi frá­bæra hljóm­sveit hefði hljó­mað allt öðru vísi ef Budgie hefði spilað mjög hefð­bund­inn ryþma, s.s ein­faldan hi-hat, sneril og bassatrommu­bít. Lík­lega hefði hún verið minna spenn­andi þá.

Stewart Copeland lét eitt sinn þau orð falla að Budgie hefði verið einn af eft­ir­tekt­ar­verð­ari tromm­urum sinnar kyn­slóð­ar. Það eru sann­ar­lega fín­ustu með­mæli.6. Ian Paice

Þetta er einn af ris­un­um, einn af frum­kvöðlum í nútíma rokktrommu­leik. Flestir geta nefnt eitt­hvað Purple lag sem þeir þekkja tromm­urnar úr. Ég fæ alltaf hroll er ég heyri byrj­un­ina á „Fireball“ og þetta magn­aða grúv úr „Space Truck­in'“. Paice er þrumuguð. Tromm­urnar hjá honum eru eitt­hvað tryllt nátt­úrafl.

Ég ákvað að velja „Black Night“ sem með­fylgj­andi tón­dæmi því það er flókn­ara en margir halda að spila þennan ryþma og gera það vel. Paice gerir allt full­kom­lega í þessu lagi. Grú­var svo sveitt og þétt að unun er á að hlýða. Samt er þetta svo afslappað og grúví. Breikið á 2:30? Algjör­lega stór­feng­legt!5. Billy Cob­ham

Pönk púrít­anar fussa oft þegar minnst er á jazzfusion en eng­inn alvöru tón­list­arunn­andi afskrifar heila tón­list­ar­stefnu. Ég varð einu sinni þess heið­urs aðnjót­andi að eiga smá spjall við Gunnar Reyni Sveins­son tón­skáld og man orð­rétt að hann sagð­ist sjá það æ betur með aldr­inum að það væri í raun aðeins til tvær teg­undir af tón­list: Góð og slæm.

Mér leidd­ist yfir­leitt jazzfusion eins og t.d. Mezzof­orte og Spyro Gyra fluttu, fannst það áreynslu­lítið og dauð­hreins­að. Mahavis­hnu Orchestra var allt annað dæmi. Þar var spenna og tryll­ing­ur! Að hlusta á Inner Mount­ing Flame í fyrsta skipti var nán­ast trú­ar­leg upp­lif­un. Góð hljóm­sveit verður ekki góð nema trommar­inn sé góður en Billy Cob­ham var svo miklu meira en góð­ur. Hann var og er alveg stór­kost­legur trommari. Frá upp­hafi var mikil spenna meðal með­lima sveit­ar­innar og það skil­aði sér í tón­list­inni.

Á YouTube er að finna upp­tökur frá tón­leikum í München og Syracuse 1972 en þá var ástandið í band­inu komið að þol­mörkum og spennustigið er sturl­að. Það heyr­ist ekki síst í stór­kost­legri spila­mennsku Cob­ham sem er ekk­ert að halda aftur af sér og spilar sem and­set­inn sé. Einnig má mæla með meist­ara­verki Miles Dav­is: Bitches Brew þar sem Cob­ham fer á kost­um.

Ég læt fylgja með upp­töku af lag­inu Stra­tus af fyrstu sóló­plötu Cob­ham Spect­rum því þetta er lag eftir hann sjálfan og einnig er þetta lík­lega hans þekktasta lag. Það heyr­ist í Grand Theft Auto tölvu­leiknum og Prince átti til að taka þetta lag live.Auglýsing


4. Neil Peart

Sem ung­lingur þá fannst mér Rush alltaf alveg frámuna­lega hall­æris­legt band. Svo tókst vini mínum að pranga inn á mig plöt­unn­i Mov­ing Pict­ures og ég kol­féll fyrir þeim. Enn og aftur segi ég það, að gott band verður að hafa góðan trommara, en góður trommari hljómar enn betur með góðum bassa­leik­ara og Geddy Lee er fanta­góður bassa­leik­ari. Góður trommari og góður bassa­leik­ari verða jafn­vel enn betri með góðum gít­ar­leik­ara og Alex Lifeson er einn af þeim betri.

Rush eru bara í sér­flokki hvað spila­mennsku varð­ar. Allir eru þre­menn­ing­arnir á heims­mæli­kvarða. Ég elska trommara sem gera mikið en gera það vel. Sumum finnst Peart vera á full mik­illi ferð stundum en ég tek ekki undir það. Mér finnst allt frá­bært sem hann ger­ir. Alltaf. Hann fyllir upp í allar holur og eyður jafn fljótt og þær mynd­ast en heldur aftur af sér þar sem það á við. Tæknin er ógur­leg en til­finn­ingin er alltaf til stað­ar. Hann hefur alveg þetta sem ég vill alltaf sjá hjá tromm­ur­um: Dýr­seðlið. Ein­hver raf­mögnuð teng­ing við eitt­hvað afar frum­stætt, afar kröft­ugt afl sem er jafn­gam­alt jörð­inni. Spila­mennskan í lag­inu sem fylgir með er algjör­lega mögn­uð, eilífar takt­skipt­ingar og hreyf­inga­fræði­legt flæði. Peart er með allt á hreinu. Alltaf.3. Clyde Stubblefi­eld/John Jabo Starks

Mr. Funky Drum­mer him­self! Hver hefur ekki ein­hvern tíma dansað sig frá­vita við tón­list James Brown? Mér er til efs að til hafi verið jafn út úr fönkað og sál­ar­sveitt band eins og hljóm­sveit Brown þegar hún var upp á sitt besta. Á bak­við allt þetta var fönk­meist­ar­inn Clyde Stubblefi­eld. Hann gæti jafn­vel verið sá trommari á list­anum sem flestir hafa heyrt í, því tromm­urnar úr lag­inu Funky Drum­mer hafa verið sampl­aðar alveg í drasl. Tón­list­ar­menn á borð við Public Enemy, Run DMC, Beastie Boys, NWA, LL Cool J og Prince hafa not­ast við þennan sjóð­heita ryþma. Stubblefi­eld getur einnig kall­ast einn van­metn­asti trommari allra tíma því hann hefur aldrei fengið krónu fyrir þetta.

Það er ekki annað hægt en að hafa meist­ar­ann John Starks með því þeir mynd­uðu alveg eitrað trommara­dúó og spil­uðu saman í mörgum James Brown-lög­um. Þetta ger­ist ekki sveitt­ara, fönk­aðra eða skemmti­legra. James Brown var keis­ar­inn en góður keis­ari þarf góða hirð­menn og með Stubblefi­eld og Starks á trommum (og Bootsy Coll­ins á bassa!) voru honum allir vegir fær­ir, enda lagði hann heim­inn að fótum sér með þennan mann­skap á bak við sig. Í með­fylgj­andi mynd­bandi fær Stubblefi­eld sviðs­ljósið í skamman tíma á 6:00. „Give the drum­mer some!“ Hví­líkur meist­ari! Hví­líkt grúv!2. Phil Rudd

„Hann er kannski ekki sá besti en hann er sá allra svalast­i,“ heyrði ég eitt sinn íslenskan trommu­leik­ara segja um Phil Rudd. Ég gæti ekki verið meira sam­mála. Hér er ekki verið að flækja sig í off­bítum eða sól­ó­um. Rudd tekur meira að segja nær aldrei breik. Hér snýst allt um ryþma og fíl­ing.

Rudd var ein­hvern tíma spurður um sína tækni. Það stóð ekki á svari: „Ég spái ekk­ert í tækni. Ég athuga bara fíl­ing­inn í lag­inu og spila eftir því“. Þessi stór­kost­legi míníma­listi átti sinn hlut í því að öll þessi ódauð­legu lög AC/DC hljóma og grúva jafn frá­bær­lega og þau gera. Þó er það svo að þótt Rudd sé ekki að gera flókna hluti þá hljómar eng­inn alveg eins og hann.

AC/DC hafa haft aðra trommara, t.d. Chris Slade sem er mjög góður trommari, en það var greini­legur munur er Rudd sat ekki við sett­ið. Ég hef einnig ótal sinnum heyrt hljóm­sveitir taka AC/DC ábreiður og flestir trommarar bara ná ekki sama dauða­grúvi og Rudd.

Það eru litlu hlut­irnir sem skipta máli. Þar má t.d. nefna hi-hattið í Hells Bells. Margir trommarar spila þar 4-parta áslátt en Rudd er í raun að gera 8-parta. Hann veit nákvæm­lega hvenær á að halda hi-hatti opnum eða lok­uð­um. Svo er hann algjör sleggja. Mike Price upp­töku­maður sagð­ist aldrei hafa kynnst jafn harð­hentum trommara: „Yf­ir­leitt þarf að skipta um sner­il­skinn eftir tvær tök­ur“.

Það er ekki verra fyrir góðan trommara að hafa bassa­leik­ara sem er á sömu línu og Cliff Willi­ams er í raun bassa­leik­ara­út­gáfa af Phil Rudd. Æðis­legur bassa­leik­ari sem, eins og Rudd, vissi alltaf upp á hár hvað hent­aði lag­inu. Í með­fylgj­andi lagi af meist­ara­verk­inu Back in Black finnst mér Rudd gera allt 100%. Allar áhersl­ur, hi-hat, symbalar, þetta svín­virkar allt og grú­var til hel­vítis og til­baka. Stór­kost­legur trommari. Goð­sögn.Heið­urs­sæti: Buddy Rich

Ég ákvað að velja á þennan lista trommara sem spilar tón­list sem ég hef sjálfur mætur á. Þetta „swing“ sem Buddy Rich var frægur fyrir fellur ekki undir það þó það megi alveg hafa gaman af því við viss­ar að­stæð­ur. Mér fannst samt sem ég yrð­i ein­hvers stað­ar­ að kom­a Buddy að. Af hverju? Nú fyrir það fyrsta, þá er hann einn stór­kost­leg­asti trommari allra tíma og í öðru lagi þá efast ég ekki um að allir hinir trommar­arnir á list­anum gætu nefnt hann sem áhrifa­vald. Veit reyndar að margir þeirra hafa gert það.

Meira að segja trommar­inn sem verður í fyrsta sæti gerði það og sá hefur verið frekar spar á lofs­yrði um aðra trommara en sig sjálfan!

Einnig hafð­i Buddy Rich þennan brjál­aða frum­kraft sem ég vil sjá hjá tromm­ur­um. Reyndar hafði hann þennan kraft í ómældu magni! Til eru margar sögur af þessum skap­heita manni sem þó var sagður hafa stórt hjarta. Einn af hljóð­færa­leik­ur­unum í hljóm­sveit­inni hans lýsti því þannig að Rich hefði margoft orðið brjál­að­ur, húð­skammað og hótað að reka þá en afar sjaldan látið verða af því.

Buddy Rich var í einu orði sagt: Stór­kost­leg­ur. Alveg stór­kost­legur trommu­leik­ari. Hann bjó yfir öllu: Áður­nefndum frum­krafti auk hraða, tækni og til­finn­ingu. Með­fylgj­andi mynd­band sýnir vel kraft­inn sem bjó í karl­in­um. Hafið í huga að á þessum tón­leikum er hann um sjö­tíu ára og kom­inn langt yfir sitt besta en ég fæ yfir­leitt gæsa­húð er ég horfi á þetta sóló og mér hund­leið­ast trommu­sóló! Hann lést tæp­lega fimm árum seinna. Takið eftir svipnum á karl­in­um þegar hann refsar trommu­sett­inu! Svo gat hann slakað á og gert smá hi-hat galdur eins og sést á 1:24.Auglýsing


1. Animal

„All drum­mers are animals,“ á Buddy Rich að hafa sagt ein­hvern tíma. Það er því vel við hæfi að á toppnum hjá mér tróni Animal. Hann er í topp­sæt­inu vegna þess að hann er minn fyrsti upp­á­halds trommari og í raun var það í gegnum Animal sem ég í fyrsta skipti upp­götv­aði að til væru trommu­leik­arar og að þeir spil­uðu nokkuð aðra rullu en aðrir í hljóm­sveit­inni. Einnig finnst mér gaman að því að þessi tusku­dúkka skuli í raun vera hold­gerf­ingur trommu­leik­ara.

Ég hef áður minnst á það hvernig ég upp­lifi trommara­hlut­verk­ið. Frekar en aðrir í band­inu er trommu­leik­ar­inn tengdur hinu villta frum­eðli manns­ins. Þetta er að ýmsu leyti frum­stæð­asta hljóð­færið, en alls ekki í nei­kvæðri merk­ingu, því tromm­urnar eru einnig afar flókið hljóð­færi. Báðar hendur og báðir fætur eru not­aðar við trommu­settið og trommar­inn þarf að hafa vak­andi auga og eyra með öðrum hljóð­færum og passa sig á að missa ekki „grú­við“ og takt­inn bók­staf­lega úr höndum sér. Tón­list er erfitt að útskýra. Hún þarf að tengja við ein­hverja taug djúpt í sál­ar­lífi manns­ins.

Við vitum í raun ekki hvað ger­ist eða af hverju ef ein­hver tón­list hefur svo mikil áhrif á okk­ur. Ég veit það bara af reynslu minni af að spila í hljóm­sveit að þarna gegnir trommu­leik­ar­inn svo miklu hlut­verki. Ef hann er í óstuði þá er ekk­ert stuð. Bandið virkar ekki. Af þessum sökum verður trommar­inn oft frekar heil­agur í band­inu. Það fífl­ast eng­inn í hon­um. Frægt er þegar Charlie Watts kýldi Mick Jag­ger ein­vörð­ungu vegna þess að Jag­ger hafði kallað hann „my drum­mer".

Skap­ari Animal, Frank Oz, sagði aðeins fimm hluti liggja að baki per­són­unn­ar: Tromm­ur, kyn­líf, mat­ur, svefn og sárs­auki. Kermit spurði Animal eitt sinn hvort að tromm­urnar væru honum mik­il­væg­ari en mat­ur? Það stóð ekki á svari frá Animal: „TROMMUR ERU MAT­UR!!!“

Það var enski djas­strommar­inn Ronnie Verrell sem yfir­leitt lék á tromm­urn­ar, fal­inn bak við þessa dúkku, þennan tryllta brjál­æð­ing sem er ein­kenni allra trommara. Allir gestir sem komu í Muppet Show fengu að óska eftir atriði með ein­hverjum Prúðu­leik­ara. Miss Piggy var vin­sælust en Animal í öðru sæti. Buddy Rich bað að sjálf­sögðu um trommu­bar­daga við Animal og vann en end­aði með bassatrommu Animal í höfð­inu á sér. Ekki frekar en Charlie Watts þá lætur Animal heldur ekki bjóða sér neitt rugl frá söngv­urum eins og sést á með­fylgj­andi mynd­bandi þar sem Rita Mor­eno lendir upp á kant við trommu­leik­ara allra trommu­leik­ara.Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFólk
None