Hljómsveitin Nýdönsk hefur starfað óslitið frá árinu 1987 og fagnar því 30 ára starfsafmæli á þessu ári. Nýdönsk hefur gefið út vel á annan tug hljómplatna með eigin efni, þar af níu breiðskífur þar sem lög sveitarinnar hafa komið út í upphaflegum útgáfum.
Meðal þekktra laga sem hafa lifað með þjóðinni má nefna Horfðu til himins, Flugvélar, Fram á nótt, Hjálpaðu mér upp, Nostradamus og Frelsið en útgefin lög sveitarinnar eru á annað hundrað.
Hljómsveitin hefur hljóðritað og spilað á Íslandi, í Bretlandi, Noregi, Þýskalandi, Danmörku og víðar og er nú nýkomin frá Toronto í Kanada þar sem grunnurinn var lagður að sannkallaðri tímamótaplötu.
Nú erum breyttir tímar í hljómplötuútgáfu og Nýdönsk mun fjármagna útgáfuna að hluta til með forsölu á Karolina Fund.
Kjarninn hitti Stefán Hjörleifsson gítarleikara hljómsveitarinnar og tók hann tali.
1. Hvað er á döfinni hjá Nýdönsk?
Meðlimir Nýdanskrar eru nýkomnir frá Toronto í Kanada þar sem unnið var í nýju efni. Hljómsveitin hljóðritaði 10 lög þar ytra og nú tekur við vinna við að útsetja efnið fyrir strengjasveit og hljóðrita hana. Platan verður síðan fullkláruð í sumar og mun koma út í september ef öll plön og fjármögnun gengur eftir.
Hljómsveitin vinnur samhliða að undirbúningi afmælistónleika sem verða fluttir í sjónvarpi.
Þriðjudaginn 11. apríl hefst svo miðasala á tónleika sveitarinnar sem haldnir verða þann 23. september í Eldborgarsal Hörpu en tónleikar sveitarinnar á árinu verða valdir af kostgæfni og vandið verður til verka.
2. Nú eru 30 ár síðan Nýdönsk var stofnuð, hvernig ætlið þið að fagna þeim tímamótum?
Tímamótum ber að fagna og hljómsveitin hyggst gefa út sína tíundu breiðskífu með glænýjum lögum á árinu. Sveitinni til fulltingis verður strengjasveit, sem flytur vandaðar útsetningar, ásamt hljómsveitinni hljómsveitinni auðvitað
Platan verður hljóðrituð á Íslandi og í Kanada en það hefur reynst vel sækja innblástur til annara landa. Þetta verður að líkindum viðamesta verkefni hljómsveitarinnar hingað til og ekkert verður til sparað að hljómplatan verði listrænt eins vönduð og kostur er.
Öll lög og textar eru ný af nálinni og voru samin á þessu ári.
Platan verður síðan flutt, að hluta til að minnsta kosti á stórtónleikum í Hörpu 23. september með stórri strengjasveit ásamt öðrum lögum í sama búningi en einnig verða vinsælustu lög sveitarinnar flutt í þeim búningi sem fólk þekkir.
3. Verður þessi plata eitthvað í líkingu við það sem hefur komið frá ykkur áður eða eru þið að feta nýjar slóðir?
Allar okkar plötur eru ólíkar og hefur hver plata sinn karakter. Þessi plata mun þó skera sig enn frekar úr þar sem sveitin nýtir sér í fyrsta sinn stóra strengjasveit í hljóðveri. Það var lagt upp með það í byrjun og lagasmíðarnar tóku því mið af því og það hefur verið haft í huga allt ferlið einkum þegar kom að útsetningum á grunnhljóðfærunum Á þessu stigi eru auðvitað erfitt að setja til um hvernig platan muni enda en lögin eru þó fjólbreytt að vanda og allt yfirbragð mun hæfa þessum tímamótum.