Á þessum degi fyrir réttum 228 árum, hinn 30. apríl árið 1789, sór George Washington embættiseið sem forseti Bandaríkjanna fyrstur manna. Þar sem engar hefðir eða forskriftir voru til varðandi embættið fóru Washington og hans fólk sínar eigin leiðir sem eimir enn af og hefur innsetningarathöfnin þannig séð ekki breyst mikið þó að 44 forsetar hafi stigið í hans stóru fótspor.
Fáir menn, sennilega enginn, í gjörvallri sögu Bandaríkjanna eru sveipaðir eins miklum frægðarljóma og Washington. Hann var einn af landfeðrunum svokölluðu, og stóð þar upp úr hópnum, bæði í bókstaflegum skilningi, þar sem hann var um 190 sentimeterar á hæð, en einnig hvað varðar persónuleika og leiðtogahæfileika, enda var hann valinn til að stýra samkundunni þar sem grundvöllur að framtíðarstjórnskipan Bandaríkjanna var lagður, með stjórnarskránni.
Úr landmælingum í herinn
Washington fæddist árið 1732 í Virginíu, sem þá var ein af nýlendum Breta í Norður-Ameríku. Faðir hans var vel stæður plantekrueigandi og dómari, en lítið er vitað með vissu um æskuár hans. Fleiri sögur ganga þó af Washington á síðari æviskeiðum, ekki síst eftir að hermennskuferill hans hófst.
Faðir Washingtons lést þegar hann var 11 ára og eftirlét eldri hálfsystkinum hans mestallar eigur sínar, þannig að George þurfti að leggja sitt af mörkum á heimili hans, móður hans og yngri systkina. Hann fékk ekki klassíska menntun í líkingu við marga af samferðarmönnum hans í efri stéttum Virginíu, en stóð sig vel, til dæmis í stærðfræði, áður en hann hætti í skóla fimmtán ára og fór að vinna við landmælingar.
Það var tengt störfum hans við landmælingar sem ferill hans í hernum hófst. Hann var gerður út af örkinni, 21 árs gamall, til að vísa á brott frönskum landnemum frá Kanada sem höfðu verið að koma sér fyrir á landsvæði sem þá tilheyrði Virginíu, og árið 1755 var hann gerður að yfirmanni herafla nýlendunnar í stríðinu gegn Frökkum og indíánum. Eftir að stríðinu lauk og Frökkum var stökkt frá landsvæðinu umdeilda var Washington orðinn annálaður, beggja vegna Atlantsála, fyrir afrek sín á vígvellinum.
Goðsögurnar
Margt í ævi Washingtons er sveipað ákveðnum goðsagnaljóma.
Frægasta sagan sem gengið hefur af George litla var þegar hann hjó niður kirsuberjatré föður síns. Hann átti sem sagt að hafa fengið öxi í sex ára afmælisgjöf og í spennu og ungæðishætti notað hana til að höggva í kirsuberjatré á landareign fjöldkyldunnar. Faðir hans tók það skiljanlega óstinnt upp en mildaðist þar sem piltur hafði gengist skýlaust við vernaðinum með orðunum: „Ég get ekki sagt ósatt!“
Þessum orðum hefur verið haldið á lofti síðustu tvær aldirnar og þóttu þau varpa ljósi á dyggðir Washingtons, heiðarleika, samviskusemi og sannsögli. Eina vandamálið er að saga þessi er uppspuni frá rótum, sem var fyrst sett á prent árið 1806, en rataði síðar inn í kennslubækur í barnaskólum og lifir enn í dag þrátt fyrir að sannleiksgildi hennar hafi verið hrakið fyrir margt löngu síðan.
Önnur saga sem gekk af honum en hljómar ekki svo sennilega er að hann hafi getað kastað silfurmynt yfir sjálfa Potomac-ána.
Þá kannast margir við þá sögu að hann hafi verið tannlaus og notast við gervitennur úr tré. Það er bara hálfur sannleikur þar sem hann var vissulega tannlaus, en notaði gervistell úr fíla- og rostungsbeini á seinni árum eftir að hafa fyrst um sinn gegnið með sett úr tönnum úr öðru fólki og kúm.
Landeigandinn og fyrirmennið Washington
Washington öðlaðist ómetnalega reynslu af hernaði og mannaforráðum í ófriðnum við Frakka sem áttu eftir að koma honum vel þegar fram í sótti. Hann hafði að vísu yfirgefið herinn árið 1758 og gengið að eiga auðuga ekkju, Mörthu að nafni, og tekið upp búskap á Mount Vernon, þar sem hann hafði búið í æsku.
Hann bætti verulega við eignir sínar, meðal annars féllu honum í skaut land á svæðunum sem hann hafði barist til að halda undir merkjum Virginíu í stríðinu. Á Mount Vernon var meðal annars ræktað hveiti og tóbak og Washington hélt - eins og aðrir landeigendur á þessu svæði á þessum tíma – hundruð þræla. Hann var aldrei opinskár andstæðingur þrælahalds, en í erfðaskrá hans var öllum þrælum í hans eigu gefið frelsi. Hann var sá eini af landsfeðrunum sem gerðu það.
Honum Mörthu varð ekki barna auðið, en hann ól upp börn hennar frá fyrri hjónabandi sem sín eigin. Getum er leitt að því að Washington hafi verið ófjór eftir að hafa smitast af berklum á yngri árum.
Washington var mikils metinn maður í krafti auðs, eigna og orðspors og tók virkan þátt í félagslífi efri stétta og stjórnmálum í Virginíu.
Herforingi í frelsisstríði
Eftir því sem leið á áttunda áratug aldarinnar magnaðist spenna milli íbúa nýlendanna þrettán á Austurströndinni og hinna bresku drottnara. Eins og fram kom í fyrri pistli voru nýlendubúar ósáttir við meinta skattpíningu á meðan þeir fengu ekki fulltrúa á breska þinginu.
Washington fór ekki varhluta af því og komst á þá skoðun að hagsmunum íbúa væri best borgið með því að lýsa yfir sjálfstæði.
Hann var kjörinn fulltrúi Virginíu á þingi nýlendanna árið 1774 og þegar þingið kom aftur saman ári síðar var frelsisstríðið hafið fyrir alvöru og Washington var útnefndur yfirmaður herafla nýlendanna.
Stríðið sjálft og framgangur þess er efni í annan og miklu lengri pistil, en hlutverk Washingtons sem herforingja og leiðtoga skipti þar sköpum, enda voru hans menn illa búnir sjálfboðaliðar sem börðust við þrautþjálfaða breska atvinnuhermenn.
Helsta afrek Washingtons sem herforingja var þó þegar hann leiddi lið sitt yfir Delaware-ána að kvöldi jóladags 1776 þar sem hann lagði undir sig virki Breta í Trenton.
Lengst af snerist barátta nýlendumanna um að halda aftur af Bretum, en eftir að Frakkar gengu til liðs við sjálfsstæðissinna snerist lukkan þeim í hag og árið 1781 unnu þeir fullnaðarsigur á Bretum við Yorktown. Tveimur árum síðar var stríðinu lokið með friðarsamningum og Washington taldi hlutverki sínu þar með lokið og skilaði umboði sínu til þingsins og hélt aftur til Mörthu sinnar á Mount Vernon. Þótti mörgum ótrúlegt að maður sem hefði getað tekið sér hér um bil hvert það vald sem honum þóknaðist í nýstofnuðum Bandaríkjum Norður-Ameríku, gengi þar sáttur frá borði.
Nýtt hlutverk
Eftir að sjálfstæðið var í höfn voru æðstu lög Bandaríkjanna hin svokölluðu Samveldislög (Articles of Confederation) samþykkt en samkvæmt þeim var alríkisstjórnin veikburða og ríkin réðu sér að mestu sjálf, til dæmis þurfti einróma samþykki við flestum lagabreytingum.
Helsta vandamálið var hins vegar, að mati Washingtons, peningaleysi, þar sem alríkisstjórninni gekk illa að innheimta skatta frá ríkjunum til að standa undir erlendum skuldum.
Þess vegna var samband ríkjanna á krossgötum og hugsjón landsfeðranna um kröftugt lýðveldi var í hættu að margra mati. Þar í hópi voru meðal annars Benjamin Franklin og sjálfur George Washington.
Árið 1787 var kallað til sérstaks stjórnarskrárþings í Fíladelfíu þar sem fulltrúar ríkjanna þrettán komu saman í þeim tilgangi að endurskoða grundvallarlög landsins til að þau gætu bætt stjórn sambandsríkisins og styrkt það til framtíðar.
Washington var kjörinn forseti þingsins og leiddi starfið til að sætta mismunandi sjónarmið, en harðar deilur voru um hlutverk alríkisstjórnarinnar og hversu mikil völd hún ætti að hafa yfir einstökum ríkjum. Eftir mikil átök frá maí fram í september náðu fulltrúar loksins saman um lokaskjal, Stjórnarskrá Bandaríkja Norður-Ameríku, sem er við lýði enn þann dag, með 27 viðaukum, og er almennt talið eitt merkilegasta skjal í stjórnmálasögunni. Forysta Washingtons og hæfileikar til að sætta ólík sjónarmið áttu örugglega stóran hlut að máli með það hvernig til tókst.
Önnur grein stjórnarskrárinnar tiltekur fyrirkomulag framkvæmdarvaldsins sem forsetinn fer fyrir. Þegar velja átti til þessa æðsta embættis landsins þóttu fáir betur til þess fallnir er Washington. Líkt og eftir frelsisstríðið, stóð hugur hans hins vegar alls ekki til frekari pólitískra starfa, en sem fyrr var mikill þrýstingur á að hann gæfi kost á sér og raunar höfðu margir af fulltrúunum á stjórnarskrárþinginu gert ráð fyrir að Washington yrði fyrsti forsetinn.
Hann lét til leiðast og vann sannfærandi sigur. Kjörmenn ríkjanna gátu valið tvo fulltrúa með vægi í samræmi við fólksfjölda í hverju þeirra. Öll tíu ríkin sem tóku þátt völdu Washington með öðru atkvæði sínu, en John Adams kom honum næstur og var þess vegna kjörinn varaforseti.
Með almannaheill að leiðarljósi
Þannig varð það 30. apríl 1789 að George Washington stóð á svölum Federal Hall í New York, fyrsta stjórnarráði Bandaríkjanna og sór embættiseið að viðstöddum 10.000 manns. Mörgum sem voru þar til vitnis fannst sem forsetinn væri stressaður og hefði jafnvel frekar kosið að standa frammi fyrir óvini í bardaga en einmitt þarna. Honum lá lágt rómur og sagði meðal annars að í honum bærðust blendnar tilfinningar; kvíði og stolt yfir að hafa verið valinn til starfans. Hann lagði hins vegar mikla áherslu á að settur yrði saman lagabálkur um réttindi einstaklinga og að stjórnvöld skyldu umfram allt þjóna fólkinu með því að vinna með almannahag að leiðarljósi. Bandaríkin töldu þarna ellefu ríki (Rhode Island og Norður Karólína höfðu ekki enn staðfest stjórnarskrána) og fjórar milljónir íbúa.
Forsetatíð Washingtons var fordæmalaus eins og gefur að skilja og hann var fyllilega meðvitaður um að hans verk og orð kæmu til með að móta embætti forseta til framtíðar. Þess vegna lagði hann mikið upp úr því að starfa af heilindum með áherslu á réttlæti og varfærni. Hvað varðar stöðu Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi var vingjarnlegt samband við önnur ríki talið mikilvægt ásamt því Washington taldi að Bandaríkin ættu sem minnst að hlutast til um átök milli annarra ríkja og halda hlutleysi sínu.
Loksins hvíld
Washington vann aftur sannfærandi sigur í næstu kosningum sem fram fóru 1792 þar sem hann fékk atkvæði allra fimmtán ríkja og aftur varð John Adams í öðru sæti og hélt embætti sínu sem varaforseti.
Heilsu hans var hins vegar farið að hraka og hann hafnaði áköllum um að sitja þriðja kjörtímabilið. Sá siður, að forseti sæti í tvö kjörtímabil hið mesta var ekki lögfest en þó gekk enginn gegn þeirri hefð fyrr en Roosevelt var kjörinn fjórum sinnum á árunum 1932 til 1944. Árið 1951 var ákvæði um hámarkssetu forseta fest í stjórnarskrána með 22. viðaukanum.
Þá fékk Washington loks verðskuldaða hvíld og sneri aftur á Mount Vernon þar sem hann varði síðustu æviárunum í að sinna rekstri plantekru sinnar. Hann veiktist hastarlega í desember árið 1799 og lést á aðfararnótt 14. þess mánaðar, 67 ára að aldri og skilur eftir sig goðsagnakennda arfleifð sem voldugasta ríki veraldarsögunnar hvílir á enn þann dag í dag.