Eru glæpasögur, helstu málefni líðandi stundar eða íþróttaumfjöllun eitthvað sem heillar? Þetta og nánast allt annað var tilnefnt til bresku hlaðvarpsverðlaunanna sem veitt voru í fyrsta sinn 30. apríl síðastliðinn.
Hlaðvarp hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár, ekki bara í Bretlandi heldur einnig hér á landi. Umfjöllunarefni hlaðvarpsþátta eru gríðarlega fjölbreytt og margir þættir unnir af mikilli fagmennsku. Hlaðvarp gefur vinsælustu útvarpsstöðvum sem varpa umræðum á gamla mátann ekki tommu eftir.
Mikil gróska er í íslensku hlaðvarpi. Kjarninn rekur hlaðvarpsrás hér á vefnum þar sem fjölmargir þættir eru í boði um allt milli himins og jarðar. Nánari upplýsingar um hlaðvarpið eru að finna á hlaðvarpsvef Kjarnans.
Á vef Nútímans má finna aðra hlaðvarpsrás sem hefur fengið nafnið Alvarpið. Þar eru einnig stórgóðir þættir sem hiklaust er mælt með. Þá bjóða íslenskar útvarpsstöðvar upp á hlaðvarpsútgáfur af þáttum sínum. Þeirra vinsælastur er eflaust þáttur Veru Illugadóttur í hlaðvarpi RÚV sem heitir Í ljósi sögunnar.
Sigurvegarar í bresku hlaðvarpsverðlaununum
Hér að neðan má sjá sigurvegara í völdum flokkum úr bresku hlaðvarpsverðlaununum. Það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í þessum lista.
Málefni líðandi stundar
The Inquiry – iTunes – Frábær fréttskýringaþáttur á vegum BBC þar sem fréttamál eru útskýrð og reynt að varpa ljósi á ástæður og afleiðingar.
Íþróttir
Fight Disciples – iTunes – Allar helstu bardagaíþróttir heims eru til umræðu í þessum þætti, hvort sem það eru hnefaleikar eða blönduð bardagalist.
Hornet Heaven – iTunes – Fyndinn fótboltaþáttur í farsalíki þar sem staðreyndum og hugarburði er blandað saman til þess að varpa ljósi á það hvernig er að vera fótboltaunnandi fyrir lífstíð.
Hlustendaverðlaun
Kermode & Mayo's Film Review – iTunes – Í þessum vikulega þætti er eingöngu fjallað um nýjustu kvikmyndirnar.
Glæpaþættir
They Walk Among US – iTunes – Þessir þættir koma hálfsmánaðarlega og fjalla allir um raunverulega glæpi og glæpamenn
Skáldskapur
Tracks – iTunes – Upp kemst um dularfulla ráðgátu þegar flugvél hrapar í Wales. Hér er um rosalega samsærishrollvekju að ræða.