Magnea Björk Valdimarsdóttir og Marta Sigríður Pétursdóttir vinna að gerð heimildamyndar um Íslendingasamfélagið á Kanarí um þessar mundir. Magnea Björk er leikstjóri og leikkona sem starfar sjálfstætt við heimildamyndagerð og hefur gert myndirnar „Hverfisgötu“ og „Bónuskonur“. Marta er menntuð í menningar- og kynjafræði og hefur fengist við textaskrif og alls kyns störf sem tengjast menningu og manneskjum. Kjarninn hitti Magneu og Mörtu og tók þær tali.
Hvaðan spratt hugmyndin að verkefninu Kanarí – into the sun?
Magnea: Marta kom til mín með þessa frábæru hugmynd fyrir jól og svo skemmtilega vildi til að ég var nýbúin að panta far til Kanarí fyrir fjölskylduna mína. Ég er að vinna að eigin heimildamyndum en stökk á hugmyndina því mér finnst hún vera svo frábær og marglaga.
Marta: Ég fór fyrst til Kanarí árið 2008 að heimsækja vinkonu mína Valý sem var að vinna sem fararstjóri og heillaðist strax eyjunni og náttúrufegurðinni og en líka af túristabænum við Playa Inglés sem er einhverskonar fantasíuland sólstrandarferðalangsins og kitsch himnaríki. Besta vinkona mín fór líka til Kanarí þegar við vorum börn og hún sagði mér frá Harry frá Indlandi sem talaði reiprennandi íslensku og seldi öllum Íslendingunum raftæki.
Það var svo á síðasta ári að fleiri sögur frá Kanarí bárust til eyrna minna, í þetta sinnið frá vinnufélaga sem skrapp þangað í frí með manninum sínum og sagði mér frá samsöngsstundum og minigolfmótum Íslendinganna. Ég hafði heyrt svo oft um Klörubar á Kanarí að fyrir mér er þetta staður sem er mikilvægur í íslenskri menningarsögu. Ég lauk mastersnámi í London fyrir nokkrum árum en var byrjuð á fyrstu önn í sálfræði í HÍ í einhverskonar tilvistarkreppu síðasta haust. Menningarfræðigyðjan lét mig hins vegar ekki í friði og ég var andvaka í nokkrar nætur að hugsa um að Íslendingasamfélagið á Kanarí væri kjörið efni í heimildamynd. Ég var ekki í rónni fyrr en ég var búin að fá Magneu til liðs við þetta verkefni og við komnar út til Kanarí að taka upp efni og ég löngu hætt í sálfræðinni.
Haldið þið að það sé bara kuldinn sem rekur fólk til heitra landa eins og Kanarí eða er það eitthvað fleira sem dregur það að?
Magnea: Þó að myrkrið og kuldinn heima á Íslandi á veturna spili stóran þátt af hverju Íslendingar sækja svona mikið í sólina komumst við því þegar við fórum að ræða við fólkið á Kanarí að eldra fólk og öryrkjar hafa margir hverjir öðlast mun bættara heilsufar þar. Þar að auki þá upplifa margir eldri borgaranna sig minna einangraða úti á Kanarí heldur en heima á Íslandi. Íslendingasamfélagið er þéttheldið og náið og það er mjög líflegt félagslíf.
Marta: Ferðamannaiðnaðurinn á heimsvísu er risavaxið fyrirbæri og er virkilega áhugavert rannsóknarefni út fyrir sig að skoða af hverju við ferðumst okkur til afþreyingar. Almenningur í hinu hnattræna norðri tekur því nánast sem gefnu að geta farið erlendis í frí eftir að ódýrar flugsamgöngur komu til sögunnar. Það að hafa efni á að fara í frí og að geta ferðast er að einhverju leyti stöðutákn og það hvort/hvert við förum getur sagt ótalmargar sögur um það hver við erum og hver okkar þjóðfélagsstaða er.
Hvað hefur reynst skemmtilegast við gerð þessarar myndar?
Marta: Fyrir okkur báðar þá hefur það verið skemmtilegast að kynnast öllu fólkinu og fá þetta tækifæri til þess að skyggnast inn í þennan heim. Klara tók okkur strax opnum örmum og er bæði aðalpersóna myndarinnar nánast meðframleiðandi vegna þess hvað hún hefur aðstoðað okkur mikið. Svo erum við búnar að kynnast Maríu Sigurðardóttur (Marý á Kirkjubæ) gítarleikara og söngstjóra, Harry og hans starfsfólki, Feldísi vinkonu Klöru, Kristínu Tryggva fararstjóra, Andreu sem starfar sem fótaaðgerðafræðingur og eiginmanni hennar Jón Ottó bílstjóra sem að starfrækir töskugeymslu fyrir vetrarfarfuglana. Það hefur verið gaman að sjá hvað flestir sem við höfum nálgast hafa tekið vel í þetta verkefni og verið til í að tala við okkur. Mörgum af okkar viðmælendum finnst það vera gleðiefni að fólkið heima fái að sjá hvað það er við Kanarí sem trekkir sumt fólk að ár eftir ár, jafnvel í áratugi. Svo erum við báðar forfallnir aðdáendur fjölskrúðugu og fjölþjóðlegu undraheimanna sem búa í verslunar- og afþreyingarmiðstöðvunum Yumbo center og Cita Mall.
Hvert eruð þið komnar í ferlinu?
Magnea: Við erum búnar að fara í tvær ferðir til Kanarí í rannsóknavinnu og heimildaöflun og við höfum hingað til lagt alveg sjálfar út fyrir öllum kostnaði. Við eigum eftir að fara aftur út til þess að taka upp meira efni og svo er það eftirvinnslan sem er tímafrek og kostnaðarsöm; klipping, hljóðvinnsla, litgreining og svo framvegis. Þess vegna hrintum við af stað söfnun á Karolinafund. Ef að allt gengur að óskum stefnum við á að frumsýna myndina snemma árs 2018 og þeir sem leggja fram 15 € eða meira fá miða á frumsýninguna, fyrir hærri upphæðir fást DVD diskar og möguleikinn á að vera titlaður sem meðframleiðandi.