Þátttaka í Eurovision er ekki ókeypis. Áætlað er að heildarkostnaðurinn við þátttöku Ríkissjónvarpsins í ár sé um 90 milljónir króna, þar af kostar 30 milljónir að senda atriðið til Kænugarðs í Úkraínu.
Það er hins vegar margfalt dýrara að vinna og þurfa að halda keppnina að ári. Greiningardeild Arion banka lagðist yfir kostnaðinn við Eurovision í Markaðspunktum sínum í dag, í tilefni af fyrra undanúrslitakvöldi Eurovision-keppninnar í kvöld. Þar mun Svala Björgvinsdóttir flytja lagið Paper fyrir Íslands hönd.
Það er regla að sigurland í Eurovision haldi keppnina að ári. Í fyrra vann Úkraína og þess vegna fer keppnin fram í höfuðborg landsins í ár. Áætlaður kostnaður við framkvæmd keppninnar er um 3,4 milljarðar íslenskra króna, mun meira en gert var ráð fyrir í upphafi. Það hefur jafnframt valdið fjaðrafoki.
Til þess hefur komið að lönd hafa dregið sig úr keppni einfaldlega vegna of mikils kostnaðar. Bosnía og Hersegóvína verður til dæmis ekki með í ár vegna fjárhagserfiðleika. Þá segir í Markaðspunktunum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi talið Ungverjaland á að draga sig úr keppninni árið 2010 sökum kostnaðar.
Svíar líka bestir í að halda keppnina
Svíþjóð hefur ótrúlegt nef fyrir smellnum Eurovision-hitturum. Svíar hafa unnið keppnina sex sinnum. Það er einu skipti færra en Írland, sem hefur reyndar ekki unnið síðan 1996.
Og Svíar eru líka góðir í að halda keppnina ef tekið er mið af kostnaði og umstangi. Keppnin var síðast haldin í Stokkhólmi árið 2016 og var kostnaðurinn við þá keppni sá minnsti í tíu ár, samkvæmt gögnunum sem Greiningardeild Arion Banka hefur tekið saman. Svíar héldu keppnina einnig í Malmö árið 2013 þar sem kostnaðurinn var einnig með lægra móti.
Svíþjóð býr auðvitað að því að eiga þá innviði sem til þarf til þess að halda svo stóran sjónvarpsviðburð. Kostnaðurinn við það þurfa að byggja risastórar tónleikahallir getur nefnilega kostað mikið.
Fórnarkostnaður
Sé kostnaðurinn sem RÚV þyrfti að standa straum af settur í samhengi við aðra íslenska framleiðslu afþreyingar má sjá að fórnarkostnaðurinn við að halda Eurovision er nokkuð mikill.
Greiningardeildin stillir dæminu upp þannig að ef Ísland neyðist til þess að halda keppnina verði hún að fá eitthvað af því fjármagni sem myndi annars fara í aðra dagskrárgerð eða afþreyingu.
Sé miðað við meðalkostnað við framleiðslu Eurovision-keppninnar síðustu tíu ár þá verður kostnaður Íslands um 4,1 milljarður króna. Fyrir þann pening væri hægt að:
- framleiða 4 þáttaraðir af Ófærð
- framleiða 21 íslenska kvikmynd
- Reka Sinfóníuhljómsveit Íslands þrisvar á einu ári
- Reka RÚV í 263 daga
- Halda 460 jólatónleika
- Kaupa 2.590.484 eintök af Waterloo-plötunni með ABBA á vínyl. Það gera sjö plötur á hvern Íslending.
- Senda íslenska karlalandsliðið á 3 Evrópumeistaramót í knattspyrnu
- Reka 51 lið í Pepsí-deild karla í eitt ár
Í færslu greiningardeildarinnar segir jafnframt: „Ef við lítum út fyrir ramma lista, menningar og íþrótta þá er ýmislegt annað sem hægt væri að fjárfesta í. Til að mynda væri hægt að byggja 143 meðalstórar íbúðir, sem væri kærkomin viðbót inn á húsnæðismarkaðinn í dag, rekið Landspítalann í tæpan mánuð, borgað rekstrarkostnað í eitt ár fyrir 2.300 grunnskólanemendur eða gefið öllum landsmönnum 12 miða í Hvalfjarðargöngin.“
- Byggja 143 80 fermetra íbúðir
- Kaupa 106 80 fermetra íbúðir í öllum hverfum nema 101 og 107
- Reka Landspítalann í 25 daga
- Borga 777 grunnskólakennurum árslaun
- Borga rekstrarkostnað í eitt ár fyrir 2.296 grunnskólanemendur
- Kaupa 4.118.869 miða í Hvalfjarðargöngin
- Kaupa 1.847 nýja Toyota Yaris-bíla
- Kaupa 54.926 Samsung Galaxy S7 og 39.231 iPhone 7
Tekjurnar eru líka miklar
Ekki má hins vegar gleyma að það fylgja því einnig tekjur að halda Eurovision. Að mestum hluta renna þær ekki beint til keppnishaldara (sem yrði að öllum líkindum RÚV) heldur í alla geira þjóðfélagsins.
Eurovision yrði stór markaðssetning fyrir Ísland sem mundi hugsanlega skila sér í auknum áhuga og ferðalögum til Íslands. Þá leggja margir land undir fót og ferðast langar leiðir til þess að vera viðstaddir keppnina. Þar koma inn beinar tekjur í miðasölu og fyrir ferðaþjónustuna.