Nú stendur yfir söfnun á Karolinafund til að mæta hluta kostnaðar við útgáfu á geisladiski þar sem Árni Kristjánsson píanóleikari (1906 – 2003) leikur einleiksverk eftir Mozart, Beethoven og Chopin. Þórarinn Stefánsson er einn þeirra sem standa að söfnuninni. Kjarninn hitti Þórarinn og tók hann tali.
Hver var Árni Kristjánsson og hvað var hann þekktastur fyrir?
„Hér er um að ræða merkilega útgáfu með þeim píanóleikara og kennara frá síðustu öld sem lýsa má sem föður íslenskrar píanómenningar, ef ég má taka svo til orða. Þegar ég segi þetta þá á ég við að Árni hafði lag á gæða kennsluna og píanóleik sinni slíku lífi að samferðamenn hans gátu ekki annað en hrifist með. Árni var einn atkvæðamesti píanóleikari og –kennari okkar á síðustu öld og hafði afgerandi áhrif á píanóleikara og aðra tónlistarmenn sem nú starfa hér á landi. Ekki eru til margar hljóðritanir af einleik Árna en þó nokkrar af samleiksverkum og hafa þær verið gefnar út að einhverju leyti. Það er því mikilvægt að halda á lofti minningu Árna sem einleikara með útgáfu þessa disks með einleiksverkum. Auk þess má segja að útgáfan varðveiti persónulega nálgun Árna í túlkun á tónlist og einnig ákveðinn tíðaranda liðins tíma.“
Hvaða verk koma til með að vera á geisladisknum?
„Hljóðritin eru frá ólíkum tímum, Sónata Beethovens op. 109 var hljóðrituð í Landssímahúsinu við Austurvöll árið 1947, Sónata Mozarts í C dúr í Stúdío 1 á Skúlagötu 4 í júlí 1961 og ýmis smáverk eftir Fryderyk Chopin í Háskólabíói árið 1983. Diskurinn spannar því stóran hluta í starfsævi Árna og inniheldur verk eftir tónskáld sem stóðu honum nærri.“
Hvert er mikilvægi þess að gefa út einleikinn hans?
„Árni Kristjánsson var mikilsvirtur píanóleikari og -kennari og minnast nemendur og samferðamenn hans með hlýhug og virðingu. Jón Nordal tónskáld kemst svo að orði í minningargrein árið 2003, “Árni var gæddur fágætri gáfu hins mikla kennara sem sumir telja jafnvel vera enn sjaldgæfari en sjálf listagáfan. Það var ógleymanlegt að vera í tímum hjá honum þegar hann sveif um geiminn og hreif nemendur sína með sér inn í dulheima listarinnar. Það var sannarlega mikið happ fyrir íslenska tónlist þegar hann kom heim árið 1933 eftir sína löngu námsdvöl erlendis og hóf kennslu við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þá urðu þáttaskil og lagður var grunnur að æðra námi í píanóleik hér á landi. Árni Kristjánsson fæddist árið 1906 á Grund í Eyjafirði og lést árið 2003. Auk starfa sinna sem flytjandi og kennari, liggja eftir hann skrif af ýmsu tagi um tónlist og tónskáld. Hann var einnig virkur í félagsmálum tónlistarmanna; einn af stofnendum Félags íslenskra tónlistarmanna og var formaður þess um skeið og formaður tónlistarnefndar NOMUS. Árni sat einnig í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Bandalags íslenskra listamanna. Hann gegndi um árabil stöðu Tónlistarstjóra Ríkisútvarpsins.“