Húðflúrlistamaðurinn Emilia Dungal hefur ástríðu fyrir að hjálpa öðrum. Verkefni hennar snýst um að með réttum húðflúrum sé hægt að breyta lífi fólks. Hún hylur húðflúr sem vísa í kynþáttahatur og glæpsamlega fortíð og eins ef fólk hefur sjálfnæmissjúkdóma líkt og skjallbletti (e. Vitiligo) þá getur hún fyllt upp í með lit þar sem hann vantar. Þetta vill hún gera án endurgjalds.
Þegar um er að ræða erfið gömul húðflúr og ör sem hægt er að flúra yfir, vill hún gefa fólki góðan afslátt.
Hver er bakgrunnur þinn?
„Ég fæddist á Íslandi og var alin upp á Spáni, yngst fimm systkina. Ég byrjaði að húðflúra á unga aldri. Það var árið 2009 og þá var ég 17 ára. Það var ekki auðvelt að taka ákvörðun um að húðflúrun væri mín framtíð, þar sem ég vissi ekki mikið um listina og var því mjög óákveðin. Eftir að hafa unnið á vinnustofum og heima, lærði ég smám saman aðferðina við húðflúrun. Eins skipti miklu máli handleiðsla samstarfsmanna minna. Í gegnum tíðina hafa aðferðir mínar við húðflúrun og teikningarnar breyst og þróast. Ég hef ekki einangrað mig við einhvern einn stíl, heldur finnst mér gaman að vinna allt frá raunsæi yfir í gamla skólann.“
Hvaðan kom áhugi þinn á húðflúrun?
„Ég hannaði mitt fyrsta húðflúr þegar ég var 16 ára og mánuði seinna byrjaði vinkona mín að flúra. Ég fann strax fyrir ákveðinni hrifningu af því hvernig vinkona mín gerði sín eigin flúr og eftir smá umhugsun þá ákvað ég að gefa mér minn fyrsta húðflúrunarbúnað í 17 ára afmælisgjöf og hefja mitt eigið húðflúrunarferðalag. Ári síðar kláraði ég diplómu í húðflúrun og hef verið að vinna í geiranum síðan á nokkrum mismunandi húðflúrunarstofum, bæði á Spáni og á Íslandi. Núna bý ég á Íslandi og er að vinna að hópfjármögnunarverkefni í gegnum Karolina Fund til að opna öðruvísi húðflúrstofu í Reykjavík. Verkefnið verður opið fyrir áheitum til 5. júlí.“
Á hvaða hátt eru húðflúrin þín öðruvísi?
„Ég mun nota 30% af tekjum af hefðbundnum húðflúrum til að greiða kostnað við að flúra fólk með skjallbletti og bjóða 30% afslátt til fólks sem vill hylja ör eða slæm húðflúr til dæmis. Ég vil gera þetta til að aðstoða fólk í neyð og hjálpa því að breyta lífi sínu.“