Þættirnir Handmaid's tale hafa slegið rækilega í gegn undanfarið en í þeim er óhugnanleg framtíðarsýn sett fram og telja sumir að hún sé ekki svo fjarlæg miðað við ástandið í heimsmálunum. Þættirnir eru gerðir upp úr sögu Margaretar Atwood, kanadísks ljóðskálds og höfundar. Margir biðu með óþreyju eftir þáttunum þar sem bókin er víðlesin og hefur unnið til margra verðlauna. Sagan er ekki síður sögð eiga erindi til fólks nú á tímum eins og þegar hún kom út fyrir þrjátíu og tveimur árum. Fasismi, alræðisríki, eignarhald á líkama kvenna og hin myrka mynd sem dregin er upp í bókinni er undirliggjandi martröð óttaslegins samfélags nútímans.
Byrjaði ung að skrifa
Margaret Atwood fæddist í Ottawa í Kanada árið 1939. Ung las hún mikið og byrjaði að skrifa ljóð og leikrit við sex ára aldur. Hún útskrifaðist með B.A.-próf í ensku með frönsku og heimspeki að aukagreinum frá Háskólanum í Toronto og M.A. frá Radcliffeháskólanum í Cambridge í Bandaríkjunum. Hún byrjaði í doktorsnámi í Harvard sem hún lauk hins vegar ekki. Hún birti ljóð og greinar í tímaritum á þessum tíma og gaf meðal annars sjálf út ljóðabók. Atwood hefur kennt í hinum ýmsu háskólum, bæði í Kanada og í Bandaríkjunum. Hún hefur unnið til margra verðlauna fyrir skrif og er með heiðursgráðu frá Oxford, Cambridge, Sorbonne og fleiri háskólum. Hún var valin húmanisti ársins 1987 af American Humanist Association.
Höfundaverk Atwood er orðið dálaglegt og hefur hún verið iðin við að skrifa. Skáldsögur og smásögusöfn hlaupa á tugum og hefur hún skrifað fjölda ljóðabóka, barnabóka, ritgerða, sjónvarpsþáttahandrita o.s.frv. Síðasta skáldsagan sem hún gaf út nefnist Hag-Seed sem kom út á síðasta ári. Hún er nútímaleg endursögn af sögu Shakespeare Fárviðrinu. Atwood býr nú í Toronto með sambýlismanni sínum Graeme Gibson og eiga þau saman eina dóttur.
Konur flokkaðar eftir notagildi
Handmaid's tale eða Saga þernunnar, eins og hún heitir á íslensku, kom út árið 1985 og er því orðin þrjátíu og tveggja ára gömul. Sögusvið bókarinnar er Bandaríkin í náinni framtíð en Atwood segir sjálf að sagan fjalli um hvernig alræðisríki í Bandaríkjunum yrði líklegt til að verða.
Höfundurinn býr til dystópíu þar sem bókstarfstrúaðir kristnir karlmenn eða einhvers konar klerkaveldi stjórnar ríkinu sem nefnist the Republic of Gilead eða Gíleað. Konur er flokkaðar eftir notagildi og geta þannig nýst sem eiginkonur, þernur, vinnukonur eða stéttlausar konur. Sagan er sett fram sem dagbók þernu einnar sem býr hjá svokölluðum Liðsforingja og konu hans. Hlutverk hennar er að bera barn Liðsforingjans undir belti og er hún þannig notuð til undaneldis. Í gegnum frásögn hennar fær lesandi að kynnast samfélaginu, verkaskiptingu og háttum. Nafn hennar er Offred eða Hjáfreð á íslensku sem vísar til Liðsforingjans Freðs.
Rotta í völundarhúsi er frjáls ferða sinna, svo framarlega sem hún dvelur innan veggja völundarhússinsÁrið 1987 þýddi Áslaug Ragnars söguna yfir á íslensku. Í lýsingu á sögunni í dagblaðinu Dagur frá þessum tíma segir að dregin sé upp mynd af geggjuðu samfélagi en athygli veki að minningar þernunnar um tímabilið fyrir einræðisríkið sýni að ýmislegt miður geðslegt henti þá. Fasistaríkið Gíleað sé hræðilegt en það geri árið 1987 ekki sjálfkrafa stórkostlegt. Í íslensku þýðingunni eru öll staðarheiti og nöfn þýdd, til að mynda heitir kona Liðsforingjans Heiðljúf en á enskri tungu heitir hún Serena Joy.
Upplifði stemninguna fyrir hrun múrsins
Atwood byrjaði að skrifa söguna í Vestur-Berlín þegar hún bjó þar árið 1984. Í viðtali við The New York Times segir hún frá því hvernig hún fékk hugmyndina að sögunni. Enn voru fimm ár í að Berlínarmúrinn myndi falla. „Ég upplifði varkárnina, tilfinninguna að verið sé að njósna um mig, þögnina, umræðuefnisskiptingarnar, villandi aðferðirnar sem fólk notaði til koma frá sér upplýsingum og allt þetta hafði áhrif á það sem ég skrifaði,“ segir Atwood.
Hún segir einnig frá því að vegna þess að hún er fædd í seinni heimstyrjöldinni þá vissi hún að ástandið eða stjórnarfar gæti breyst á svipstundu. Skáldsagan hefði verið að gerjast innra með henni í tvö ár áður en hún byrjaði að skrifa hana en hún segist hafa forðast hugmyndina vegna þess að hún væri hugsanlega vafasöm. „Ég hafði lesið vísindaskáldskap í miklu mæli sem og útópíur og dystópíur frá því ég var unglingur á sjötta áratugnum en ég hafði aldrei skrifað slíka bók,“ greinir Atwood frá. Hún segir að hún hafi viljað gera það vel ef hún treysti sér á annað borð til þess. Ef hún ætlaði að búa til ímyndaðan heim þá þyrfti hann einnig að vera raunsær. Hún hafi viljað að allt sem gerist í sögunni væri eitthvað sem gerst hafði í raun og veru og að tæknin sem greint væri frá væri til nú þegar. „Guð er í smáatriðunum, segja þeir. Það er djöfullinn einnig,“ bætir Atwood við. Þannig myndi hún skapa heim sem raunhæft væri að yrði einhvern tímann að veruleika.
Nú hegðar holdið sér öðruvísi, af sjálfu sér. Ég er ský, hjúpur utan um kjarna, í laginu eins og pera, sem er hörð og raunverulegri en ég og rauðglóandi innan í glærum umbúðum sínum. Innan í henni er geimur, gífurlegur eins og himinninn á kvöldin og nálaroddar tútna út, gneista, springa og skreppa saman innan í honum, óteljandi eins og stjörnurVinnutitill Handmaid's tale var Offred eftir aðalsöguhetjunni. Í skáldsögunni kemur raunverulegt nafn hennar aldrei fram en lesendur sögunnar hafa komið með sínar eigin ályktanir þar sem eina nafnið sem ekki fær tilvísun í persónu í sögunni er June eða Jóna á íslensku. Atwood segir að þetta hafi upphaflega ekki verið hugmyndin en hún bætir við að lesendur megi draga þær ályktanir sem þeir vilja.
Allt gerst sem kemur fram í sögunni
Atwood segir að sagan sé femínísk á þá vegu að hún fjalli um mennskar konur; alls kyns konur. Hún telur að konur séu áhugaverðar og mikilvægar. Að þær séu ekki annars flokks og að án kvenna muni samfélagið ekki viðhalda sér. „Þess vegna hafa fjöldanauðganir og morð á konum, stúlkum og börnum verið hluti af stríðum þar sem þjóðarmorð eiga sér stað eða hvers konar kúgun eða misnotkun á fólki,“ segir hún. Þannig sé vald yfir konum og börnum notað af stjórnvöldum sem vilja alræðisvald yfir þegnum sínum.
Ég þarf yfirsýn. Hugmynd um dýpt sem markast af ramma, röðun mynda á sléttan flöt. Yfirsýn er nauðsynleg. Annars eru ekki nema tvær víddir. Annars lifir maður lífinu eins og andlit manns sé klesst upp við vegg, allt er einn gífurlegur forgrunnur, samansettur af smáatriðum, nærmyndum, hárum, uppistöðu og ívafi í lakinu, sameindum í andlitinu. Þá er húðin á manni eins og landabréf, uppdráttur tilgangsleysis, alsettur litlum öngstrætum. Annars lifir maður á líðandi stund. Þar sem ég vil ekki veraAtwood segist oft fá þá spurningu hvort sagan sé spádómur um framtíðina. Svarið við þeirri spurningu er nei, að hennar mati. Hún telur að ekki sé hægt að koma með slíkan spádóm, of margar breytur séu í dæminu til þess að það sé mögulegt. Hún segir að margir þræðir séu vafnir til að búa til þessa framtíðarsýn og að allir séu þeir hluti að mannkynssögunni.
Sjónvarpsþættirnir komu sögunni aftur á kortið
Sagan hefur verið sögð á marga vegu í gegnum árin. Hún var kvikmynduð árið 1990 þar sem Natasha Richardson fór með aðalhlutverkið og Faye Dunaway og Robert Duvall léku Liðsforingjann og konu hans. Bókin hefur verið þýdd á yfir fjörtíu tungumál og hefur hún verið sett upp í óperu og sem ballettsýning.
Nýju sjónvarpsþættirnir hafa fengið mjög góðar viðtökur og eru þeir meðal annars tilnefndir til þrettán verðlauna á Emmy-verðlaunahátíðinni sem haldin verður í september næstkomandi. Leikkonan Elisabeth Moss hefur vakið sérstaka athygli fyrir túlkun sína á Offred eða Hjáfreð. Meðal annarra leikara eru Samira Wiley, Alexis Bledel og Joseph Fiennes. Atwood birtist sjálf á skjánum í fyrsta þættinum en hún leikur konu sem tekur þátt í að þjálfa tilvonandi þernur til hlýðni. Til stendur að framleiða aðra þáttaröð á næsta ári.
Vantar kynþáttasjónarhorn
Þættirnir eru trúir sögunni í bókinni enda var Atwood höfð með í ráðum. Þó eru nokkur atriði sem eru eilítið öðruvísi að meðtöldu nafngift aðalpersónunnar eins og fram hefur komið. Liðsforinginn og konan hans eru höfð mun yngri í þáttunum og er eftirnafn þeirra meira á reiki í bókinni. Baksögu Frúarinnar eru gerð meiri skil í þáttunum sem og baksögu eiginmanns Hjáfreðar. Fleiri persónur fá stærra hlutverk í þáttunum eins og sumar af hinum þernunum.
Einnig má benda á að í þáttunum eru sumar persónurnar hörundsdökkar en í bókinni er tekið fram að sá kynþáttur hafi verið fluttur með valdi til miðríkja Bandaríkjanna. Þannig tekst bókin á við kynþáttamálefni á meðan þættirnir skauta fram hjá þeim. Aðalpersónan er ennfremur mun uppreisnargjarnari í þáttunum en í bókinni en þar er hún mun leiðitamari. Svo virðist sem móðir Hjáfreðar og hún sjálf séu túlkaðar sem ein og sama persónan.
Ég trúi á andspyrnuhreyfinguna eins og ég trúi því að ekkert ljós sé án skugga; eða öllu heldur enginn skuggi án þess að líka sé ljósÍslendingar sem horft hafa á þættina hafa eflaust tekið eftir því að í tveimur þáttum heyrist lagið Heyr himnasmiður. Hildur Guðnadóttir flutti lagið en í samtali við mbl.is segist hún enn ekki hafa séð þættina. Einnig heyrist annað lag eftir Hildi, Erupting Light, í þáttunum. Í viðtalinu kemur fram að hún hafi fengið mikil viðbrögð við lögum sínum í Handmaid's tale og að fólki finnist áhugavert að heyra íslensku í þessum vinsælu þáttum.
Samhljómur við nútímann
Saga Atwood snertir á ýmsum málefnum sem eiga ekki síður erindi árið 2017 en 1985. Þar ber að nefna yfirráð yfir líkömum kvenna, þjóðernis- og alræðishyggju og umhverfisvá. Í fyrrnefndu viðtali við New York Times veltir Atwood því fyrir sér hvort fólk nú til dags muni skrá niður tilfinningar sínar í sambandi við það ástand sem nú ríkir.
Í kjölfar forsetakosninga í Bandaríkjunum, þar sem hræðsla og kvíði vex ört, borgaralegt frelsi er í útrýmingarhættu og í ljósi þess að réttindi sem konur hafa unnið sér inn í gegnum tíðina geta verið afturkræf, þá hljóti einhver og jafnvel margir að vera að skrifa niður reynslu sína af þessum atburðum.
„Munu skilaboð þeirra vera þögguð niður eða falin? Munu þau finnast öldum seinna inn í vegg í gömlu húsi? Við skulum vona að það komi ekki til þess. Ég treysti því að svo muni ekki verða,“ segir Atwood að lokum.