Nýir eigendur Vagnsins á Flateyri hyggja á meiriháttar endurbætur og þó nokkrar breytingar á húsnæðinu. Fyrstu skref eru fólgin í björguninni, því húsnæðið liggur undir skemmdum vegna leka og því akút mál að ráðast í endurbætur.
Safnað er fyrir fyrstu nauðsynlegu framkvæmdunum á Karolina Fund undir heitinu Björgum Vagninum. Aðstandendur söfnunarinnar er hópur fólks úr öllum áttum – núverandi og brottfluttir Flateyringar, eigendur Vagnsins og öllum sem þykir vænt um Vagninn. Fólk sem á sér þann draum að gefa Vagninum þá löngu tímabæru upplyftingu sem hann á skilið, enda hefur Vagninn séð um að lyfta öðrum upp í áratugi.
Hópurinn sem tók við Vagninum í vor samanstendur af þremur pörum sem öll eru svokallaðir sumarfuglar á Flateyri. Þau eru Geir Magnússon, ljósameistari í kvikmyndagerð, Ragnheiður Ólafsdóttir nuddari, Hálfdan Lárus Pedersen, leikmynda og innanhússhönnuður, Sara Jónsdóttir, stjórnandi HönnunarMars, Sindri Páll Kjartansson, kvikmyndagerðarmaður og Arnþrúður Dögg Sigurðardóttir pródúsent. Þessu fólki er margt til lista lagt og hópurinn hefur líklegast að geyma öll element sem þarf til að gera góðan stað frábæran.
Kjarninn hitti Söru Jónsdóttur og tók hana tali.
Hvaða merkingu hefur Vagninn fyrir samfélagið á Flateyri?
Vagninn hefur víðtæka merkingu fyrir samfélagið. Þetta er í raun samkomuhús Flateyringa og þar slær hjartað. Þar kemur fólk saman, snæðir, skemmtir sér, skrafar og dansar. Vagninn er krá, veitingastaður, skemmtistaður og tónleikastaður. Vagninn hefur gegnt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina allt frá rekstri sjoppu yfir í billjardstofu og einnig skilst okkur að þar hafi verið rekin hljómplötuverslun og að sjálfsögðu var þar verbúð á efri hæðinni. Staðurinn á stað í hjörtum margra, ekki aðeins Flateyringa, heldur einnig þeirra sem brottfluttir eru, sem og mýmargra tónlistarmanna, sem þar hafa komið fram.
Það er eiginlega magnað að flestir sem koma að máli við okkur og vita að við höfum tekið við Vagninum, eiga þaðan góðar minningar og fáum við að heyra margar skemmtilegar sögur. Það er eitthvað sérstakt við Vagninn og hann virðist hitta fólk í hjartastað.
Nú í sumar buðum við uppá frábæran matseðil með hráefni frá svæðinu auk þess sem gestakokkar komu og snéru öllu í hring við góðan orðstír. Dagskrá sumarsins var fjölbreytt og bauð meðal annars uppá tónleika með KK, Mugison, Góss og Daða Frey, sem öll hafa komið áður á Vagninn til að spila eða njóta. Svo var þrautabraut í garðinum, Íslandsmótið í Kubbi fór fram á túninu við Vagninn og fjölmörg pöbbagisk voru haldin. Núna um helgina, fyrstu helgina í september er svo gamanmyndahátíð á Flateyri og þá verður nú fjör enda kemur Ruddapolkapönknikkusveitin Skárren ekkert og spilar hjá okkur laugardagskvöldið 2. september.
En svo eiga sér einmitt líka stað óvæntari og minna skipulagðir viðburðir t.a.m. heimsótti okkur og spilaði sekkjapípuleikari sem stefnir að Guinness-heimsmeti í sekkjapípuleik í öllum löndum heims, einnig kom til okkar sirkuslistafólk frá Bandaríkjunum og tróð upp. Þarna eiga sér stað einhverjir töfrar. Vagninn er yndislegur hluti af frábæru samfélagi. Það er alltaf eitthvað sem heillar. Má þá nefna að sekkjapípuleikarinn hefur aldrei verið meira en einn dag á hverjum stað á sínu ferðalagi um heiminn, en ákvað að framlengja á Flateyri um tvær auka nætur og sirkuslistafólkið var farið að vafra um fasteignasíður netsins til að finna sér hús á Flateyri degi eftir að þau komu.
Hvers vegna þurfa lítil samfélög almennt á stöðum eins og Vagninum að halda?
Í minni bæjarfélögum er gríðarlega mikilvægt að starfrækja slíka staði. Það verður að vera til staður þar sem fólk kemur saman í mat og drykk. Samvera og samkomur göfga jú andann. Svona staður eins og Vagninn verður jú líka staðurinn þar sem utanaðkomandi listamenn sækja og sýna listir sínar. Staður eins og Vagninn er menningarmiðpunktur bæjarfélaga. Slíkur miðpunktur bæjarfélaga er einnig aðdráttarafl fyrir ferðamenn, því fólk almennt gerir sér frekar ferðir og dvelur lengur í bæjum þar sem boðið er uppá mat, drykk og uppákomur.
Staður eins og Vagninn gegnir oft veigameira hlutverki heldur en bara sem krá eða skemmtistaður. Þetta er miðpunktur bæjarins og hjartað. Vagninn hefur til að mynda ekki aðeins þjónað sem skemmtistaður heldur samkomustaður af margskonar tilefni. Þetta var t.a.m. samastaður björgunarfólks í leitinni eftir flóðið á Flateyri. Svona staðir verður miklu mikilsverðari í litlu bæjarfélagi en hver veitinga- eða skemmtistaður í stærri bæjum og borgum.
Hvaða framkvæmdir þarf að ráðast í til að hægt verði að starfrækja Vagninn áfram?
Við tókum við Vagninum í vor. Ástandið er slæmt enda þakið búið að mígleka. Við þurfum að bjarga húsinu frá eyðileggingu fyrst og fremst. Við förum varlega í hlutina enda erum við félagarnir að gera þetta án fjársterkra bakhjarla. Okkar bakhjarlar hafa reynst Flateyringar sem búa á eyrinni en einnig brottfluttir, enda eru það þeir sem standa með okkur fyrir söfnun á Karolina Fund sem heitir Björgum Vagninum. Söfnunin hefur gengið vel enda eins og ég segi ótrúlega margir sem eiga góðar minningar af Vagninum og tengja við nauðsyn þess að halda honum gangandi. Við erum nýkomin yfir 50% hjallinn og hvetjum auðvitað alla sem eftir eiga að styrkja söfnunina með smá framlagi. Það má amk fá bjór fyrir, eða jafnvel þríréttað á Vagninum.
Fyrsti fasinn í framkvæmdum er að ráðast í þakið og eru þær framkvæmdir við það að klárast. Við þurftum að rífa þakið af og laga undirlag og nokkuð af sperrum og leggja nýtt járn. Næst munum við halda áfram að afklæða húsið og sjá hversu mikið þarf að fjarlægja og laga. Við förum að engu óðslega og erum að vissu leyti að gera þetta af hugsjón og væntumþykju fyrir Vagninum og bæjarfélaginu. Í framhaldinu langar okkur svo að fara í meiriháttar framkvæmdir og endurbætur. Við erum jú hópur sem að hluta hefur staðið í endurbótum og breytingum fjölmargra veitinga og skemmtistaða í Reykjavík fyrir aðra. Nú erum við að gera þetta fyrir okkur, Flateyri og Vagnsunnendur, sem er meiriháttar. Okkur langar að taka Vagninn í gegn á góðu tempói, án asa, vitleysu og góðærisæðis. Í öllu ferlinu er stefnan að halda hjartanu í góðum slætti og varðveita sál staðarins.
Verkefnið er að finna hér