Drag- og burlesque senan í Reykjavík er lítil en í miklum blóma, samkvæmt þeim Margréti Erlu Maack og Sigurði Heimi Guðjónssyni, eða Miss Mokki og Gógó Starr eins og þau kalla sig á sviðinu. Þau fara fyrir Reykjavík Kabarett og Drag-súg sem hafa öðlast sess í skemmtanalífinu, enda er alltaf uppselt. „Já, aldrei eins, en alltaf uppselt.“ Þau hafa ferðast um heiminn til að sýna og fá innblástur og segja að senan hér heima sé á heimsmælikvarða, enda eru þau með biðlista fram á næsta ár frá erlendum gestalistamönnum að koma hingað og skemmta. Þau ætla að taka höndum saman næsta sumar og ferðast saman um Evrópu og leita uppi leynibari og klístruð svið, og eru nú þegar komin með einhver „gigg“ í hattinn. Þau safna fyrir ferðalaginu á Karolina Fund, en styrkjendur geta fengið ýmislegt í staðinn, til dæmis miða á Farvelsýningu á næsta ári, áður en þau leggja í hann. Kjarninn hitti Margréti Erlu og Sigurð Heimi og tók þau tali.
Hvað er er það sem þið gerið?
Sigurður Heimir: „Ég er Dragdrottning og kabarettlistamaður, og leik mér að því að beygja línurnar milli þess sem talið er kvenlegt og karlmannlegt- og blanda því saman á skemmtilegan hátt.“
Margrét: „Mér fannst litla frænka mín orða þetta mjög vel: “Margrét er svona eiginlega trúður, nema bara alls ekki fyrir börn.” Burlesque er kynþokkafull kabarettlist sem byggir á dansi, leikhúsi og fullorðinshúmor. Dita Von Teese er þekktasta burlesquedís í heimi… Við erum samt með mjög ólíkan stíl!“
Sigurður Heimir: „Það er einmitt áberandi munur á klassíska Burlesque forminu, eins og það sem Dita gerir, og núverandi straumum í burlesque, þar sem oft er meiri húmor og grófari karakterar. Út frá auknum vinsældum og opnara hugarfari, þá byrjuðu karlmenn að leika sér við þetta listform, sem hafði áður aðeins verið fyrr kvenmenn, og Boylesque verður til.
Ég dýrka hvernig Buylesque-ið leyfir mér að leika mér með „kvenlega” líkamstjáningu og þokka, en á sama tíma gert grín og skemmt fólki. Því í grunninn erum við ekkert annað en skemmtikraftar.“
Margrét: „Hugmyndin að Evrópuferðalaginu kom þegar við vorum óvart bókuð sama kvöld á Slipper Room í New York í sumar. Við höfum káfað á ýmsum stöðum um Evrópu og erum nú þegar komin með fyrsta giggið, á Melt Bar í Stokkhólmi, sem er svona 1920 leynibar. Þetta kabarettform er mjög skemmtilegt, við erum að ferðast með okkar atriði sem koma eins og púsl inn í sýningar sem eru nú þegar í gangi. Þannig að við erum ekki að ferðast með heila sýningu, heldur bita inn í skemmtun sem nú þegar er til staðar.“
Hvernig er hefðbundið líf kabarettlistamanns?
Margrét: „Ég held að ég sæki í þetta því að enginn dagur er hefðbundinn. Ég er að skemmta um helgar en virku dagarnir eru rólegri og þá safna ég kröftum, smíða atriði, vinn í búningum, fer á fundi vegna gigga og undirbý kennslu og á kvöldin kenni ég í Kramhúsinu.
Sigurður Heimir: Við erum bæði kabarettlistamenn í fullu starfi, og þar að auki framleiðendur okkar eigin fjöllistasýninga; Reykjavík Kabarett og Drag-Súgur. Svo það fer auðvitað slatti af tíma í skipulagningu og vinnu bak við tjöldin fyrir þessar sýningar, og til að búa til ný atriði, búninga og hvað eina.
Þetta er alls ekki hefðbundið líf- en svakalega hefur maður gaman af því.“
Hvað er á döfinni hjá ykkur?
Sigurður Heimir: „Ég er á leiðinni aftur til New York, á Rupaul’s Drag Con, núna í byrjun september, og síðan tekur við Drag-Súgur Disney show sem verður þann 15. september á Gauknum. Ég verð einnig með glænýtt og spennandi Drag-námskeið í Krambúsinu í haust, og það fer af stað þann 13. september. Allt að gerast!“
Margrét: „Já, 15. og 16. september verður Reykjavík Kabarett með tvær sýningar í Þjóðleikhúskjallaranum þar sem við fáum uppáhaldsskemmtikraftinn minn frá New York, Wilfredo, með okkur og fleiri góða gesti. Svo er ég eiginlega fullbókuð til jóla núna í veislustjórn, skemmtiatriði og kabarettkvöld ásamt námskeiðunum sem ég er að kenna. Ég skemmti í Brighton í september, Glasgow í október og New York í nóvember. Ég er svona að troða eins mörgu og ég get núna fyrir jól því að í janúar byrja ég í stífum æfingum fyrir Rocky Horror í Borgarleikhúsinu.“
Sigurður Heimir: „Svo verðum við auðvitað með glæsilegt fjöllista-teiti á lokadag Karolina Fund söfnuninnar, þann 21. september á Gauknum. Þar munum við vera með ýmis skemmtiatriði þegar söfnunin klifrar upp og fagna komandi Evrópuferðalagi með vinum, vandamönnum og öðrum velunnurum.“
Margrét: „Já, og konfettíbombu á miðnætti.“
Hvað er hægt að fá fyrir að styrkja verkefnið ykkar?
Sigurður Heimir: „Við bjóðum upp á ýmislegt; pakka með miðum á Farvel sýninguna okkar, sem verður stuttu fyrir brottför næsta sumar, ýmis skemmtun í heimahús eða á hvers konar viðburði, Drag makeover sem hafa verið gífurlega vinsæl í steggjunum og gæsunum, og ýmis námskeið! Tékkið á’essu á Karolina fund.“
Margrét: „Mig langar að mæla sérstaklega með pökkunum með brjóstadúskunum! Og líka hópeflistímum í dragi, burlesque eða Broadwaysöngleikjadönsum - mjög skemmtilegt með vinahópnum eða í hópefli hjá fyrirtækjum.“