Eva Jónína Daníelsdóttir er 5 ára stelpa sem hefur mikinn áhuga á myndlist. Hún hefur ákveðið að gefa út litabók fyrir börn á svipuðum aldri. Eva teiknar sjálf allar myndirnar í bókina, en Daníel S. Jónsson, faðir hennar, mun aðstoða hana við umbrot og uppsetningu á kápu. Feðginin hafa sett upp Facebook-síðu þar sem áhugasamir geta fylgst með ferlinu. Safnað er fyrir útgáfukostnaði á Karolina Fund. Kjarninn hitti Daníel og tók hann tali.
Hvernig vaknaði hugmyndin að litabókinni?
Við höfum ekki þurft að kaupa jóla- og afmæliskort, né merkimiða í nokkur ár, því Eva tók snemma að sér að útbúa allt slíkt upp á eigin spýtur. Hugmyndin að bókinni kviknaði upphaflega út frá þessum kortum sem hún teiknaði. Við, foreldrar Evu, tókum eftir því að hún var búin að koma sér upp ákveðnu verkferli. Fyrst teiknaði hún allar útlínur með svörtum penna, og að því loknu hófst hún handa við að lita myndina. Útkoman varð því oft á tíðum ekkert ólík myndum í litabók. Upphaflega setti ég þessa hugmynd fram í hálfkæringi. En eftir því sem við hugsuðum meira um þetta, þá fannst okkur hugmyndin alltaf skemmtilegri.
Er eitthvað þema að finna í litabókinni?
Í rauninni ekki. Flestar litabækur búa yfir þema, og eru oftar en ekki hliðarafurð af teiknimyndum eða annarri söluvöru tengdum börnum. Okkur finnst slíkar bækur oft á tíðum innihalda of einhæfar myndir, satt að segja. Við ákváðum því snemma að fara þveröfuga leið, og í Litlu litabókinni er þemað eiginlega bara hugarflug Evu sjálfrar. Af þeim myndum sem þegar eru tilbúnar þá er mest um einhvers konar fígúrur. Talsvert af dýramyndum, en líka vélmenni, geimverur, trúðar og bara alls kyns furðuverur. Eina skilyrðið er að Eva sé sátt við teikningarnar, og að henni finnist sjálfri spennandi að lita þær.
Nú kemur fram á Karolina Fund-síðu Litlu litabókarinnar að Eva vilji styrkja bæði Barnaspítala Hringsins og Styrktarsjóð gigtveikra barna. Hvernig kom það til?
Eva er sjálf gigtveik. Hún var greind strax þegar hún var tveggja ára, og hefur meira og minna verið á lyfjum síðan, ásamt því að þurfa að heimsækja spítala og lækna reglulega, auk þess sem hún fer vikulega í sjúkraþjálfun. Um leið og við ákváðum að ráðast í útgáfu bókarinnar, þá stakk hún upp á því að við myndum gefa veikum börnum litabækur. Þannig varð Barnaspítali Hringsins fyrir valinu. Okkur fannst svo liggja beint við að Styrktarsjóður gigtveikra barna fái líka sinn skerf, ef einhver hagnaður verður af útgáfunni.