Samfélagsmiðillinn Twitter snýst allur um 140 stafabil og ergelsið sem fylgir því að troða hugmyndum og skoðunum í fyrirfram ákveðinn ramma.
Brátt gæti hins vegar orðið breyting á því fyrirtækið gerir nú tilraun fyrir lítinn hóp notenda og leyfir þeim að senda 280 stafabil, tvöfalt lengri uppfærslur en áður. Lang flestir notendur Twitter hafa, enn sem komið er, aðeins möguleika á að tvíta upp á gamla snubbótta mátann.
Í stuttri færslu á bloggsvæði Twitter skrifar Alzia Rosen, vörustjóri Twitter, að þessi hugmynd hafi farið á flug innan fyrirtækisins þegar það kom í ljós hversu mismunandi tvítin eru eftir tungumálum. Vandamálið sem blasir við fólki þegar það notar latneskt stafróf til að miðla hugmyndum sínum er alls ekki til staðar fyrir fólk sem tvítar á japönsku, kóresku og kínversku.
Ástæðan er að með einum bókstaf í japönsku er hægt að miðla mun meiri upplýsingum en með einum bókstaf í latneska letrinu. „Stundum þarf ég að eyða orði sem lætur í ljós mikilvæga meiningu eða tilfinningu, eða ég sendi tvítið mitt ekki yfir höfuð,“ skrifar Rosen í bloggfærslu sinni.
„Við viljum að allir um víða veröld geti tjáð sig á auðveldan hátt á Twitter, svo við erum að reyna svolítið nýtt: við ætlum að setja víðari takmörk á reynslu, 280 stafabil, fyrir þau tungumál sem notendur lenda í troðslu (sem eru öll utan japönsku, kínversku og kóresku),“ skrifar Rosen enn fremur.
Mikill munur á milli tungumála
Í bloggfærslunni eru meðaltöl fyrir tvít á ensku og japönsku borin saman. Meðallengd tvíta á ensku er 34 stafabil miðað við 15 stafabil á japönsku. Þá ná níu prósent allra tvíta á ensku hámarksfjölda stafabila, eða 140. Það er borið saman við 0,4 prósent allra tvíta á japönsku sem fylla út í rammann.
Þessi breyting, ef hún verður einhvern tíma fyrir alla, mun eflaust hafa töluverð áhrif á það hvernig samfélagsmiðillinn er notaður. Til þess að koma lengri pælingum að hafa netverjar brugðið á það ráð að senda skoðanir sínar í tveimur liðum eða fleiri, ráðist í skammstafanir og aðrar æfingar sem sett hafa svip sinn á samfélagsmiðilinn.
Jafnvel þó það verði ekki skylda að senda lengri tvít þá má allt eins gera ráð fyrir að notendur notfæri sér rýmri heimildir eins og þeir geta. Það er í mannlegu eðli.
„Twitter snýst um stuttyrði. Það er það sem gerir þetta að frábærri leið til að fylgjast með því sem gerist. Tvít fjalla um aðalatriði og upplýsingar eða hugsanir sem skipta máli. Það er eitthvað sem mun aldrei breytast,“ skrifar Rosen.
Fyrir áhugasama þá eru fyrstu tvær efnisgreinar þessarar fréttar jafn langar og tvít mega vera, þe. 140 stafabil og svo 280.