KVIKA mun gefa út hljómplötubókina Welcome to Lava Land seinna á þessu ári, með góðum vinum og listamönnum. Welcome to Lava Land prýðir glæsilegar teikningar eftir Sævar Jóhannsson og inniheldur hljómdisk með 10 glænýjum, frumsömdum lögum, sem sveitin hefur safnað í sarpinn undanfarin 4 ár. Sena gaf út fyrri plötu KVIKU, Seasons, árið 2014. Guðni Þór Þorsteinsson, söngvari og lagasmiður, og Kolbeinn Tumi Haraldsson, hljómborðsleikari, útsetjari og raddari, sitja fyrir svörum Kjarnans.
Hvað er Lava Land?
„Nafnið, Welcome to Lava Land, kom til okkar við upptökur í Vestmannaeyjum, nánar tiltekið við upptökur á laginu La La Land. Í raun varð hugmyndin að veruleika á sama tíma. Lagið fjallar um ævintýramanninn/útrásarvíkinginn/listamanninn sem stingur sig í samband við íslenska orku (Lava Land) og leitar svo drauma sinna í draumalandinu (La La Land). Þetta small allt saman, líkt og flís við rass! Auðvitað hefur nafnið KVIKA beina tengingu við lava landið og mótsagnirnar í textunum ríma vel við mótsagnir í la la landinu.“
Hvaða listamenn standa að verkefninu Lava Land?
„Sævar Jóhannsson myndskreytti bókina eftir leiðbeiningum, en nýverið gaf hann sjálfur út teikningabókina Brjálæðislega Róandi. Ásmundur Jóhannsson, trommari KVIKU, framleiddi plötuna og pabbi hans Jóhann Ásmundsson, bassaleikari Mezzoforte, masteraði hana. Þeir feðgar sáu um hljóðblöndun. Roland Hartwell, fiðluleikari, sá um alla strengi á plötunni. Snorri Snorrason, jafnan þekktur sem Snorri í Idol átti stóran þátt í útsetningu tveggja laganna. Steinþór Guðjónsson, gítarleikari Jóns Jónssonar, og Einar Valur Sigurjónsson, söngvari og lagasmiður Tildru, voru KVIKU til halds og trausts með raddir o.fl. Kolbeinn Tumi Haraldsson hélt utan um strengjaútsetningar.“
Trausti Haraldsson er meðhöfundur þriggja laganna. Trausti hefur samið mikið fyrir Pál Óskar, þar á meðal lögin „Minn hinsti dans“ og „La Dolce Vita“ svo fátt eitt sé nefnt.
Daníel Stefánsson sá um hönnun á bókinni sjálfri. En hugmyndavinna, verkefnastýring og gæðastjórnun var í höndum Guðna Þórs Þorsteinssonar, lagasmiðs og söngvara KVIKU, og Gísla Jóns Gíslasonar.
Verkefnið Lava Land er svo að segja þverfaglegt innan listageirans, er þetta einstakt dæmi eða sjáið þið þessa þróun víðar?
„Hljómplötubók eins og Lava Land er eitthvað, sem að okkar viti, hefur ekki verið gerð áður. Sér í lagi fyrir þær sakir að við bjóðum kaupendum upp í dans með því að hvetja þá til að taka þátt í listsköpuninni. Við sjáum fyrir okkur að bókin verði í senn litabók og jafnvel glósubók. En í bókinni förum við í hringferð um landið með teikningum frá hverjum landshluta, í teikningunum eru persónur og staðhættir sem einkenna landshlutana. Hægt er að styðja verkefnið Welcome to Lava Land í gegnum hópfjármögnun á Karolina Fund, þar er hægt að kaupa verkefnið fyrir fram á góðum kjörum. Öllum þeim sem heita á verkefnið mega búast við að fá eitthvað óvænt og skemmtilegt frá hljómsveitinni.“