Flestir kannast við að hafa gengið í fötum af eldri systkinum, fengið gamla eldhúsborðið sem mamma og pabbi voru búin að setja upp á háaloft og kommóðuna frá ömmu. Þetta eru dæmi um endurnýtingu sem kannski var tilkomin af praktískum ástæðum en ekki endilega af umhyggju við auðlindir jarðarinnar. Verslanir með notuð föt, húsgögn og yfirleitt allt sem nöfnum tjáir að nefna skjóta nú upp kollinum, nánast eins og gorkúlur víða um lönd. Í Danmörku eru 950 slíkar verslanir og fjölgar sífellt, þar voru á síðasta ári opnaðar 70 verslanir með notaðan varning.
Foreldrar dönsku endurnotkunarverslananna
Sumarið 1971 var Herluf Andersen prestur við Kristjánskirkjuna í Árósum á ferð í Bretlandi, ásamt Ruth eiginkonu sinni. Klerkurinn var að kynna sér messusiði þarlendra, ekki síst hvaða sálmar væru sungnir við kirkjulegar athafnir.
Í þessari heimsókn varð hjónunum gengið fram hjá verslun sem seldi notaðan fatnað og ýmislegt fleira.
Verslunin var í eigu hjálparsamtakanna Oxfam, prestshjónin könnuðust við það nafn og ákváðu að kíkja inn, ekki þó til að versla. Eftir að þau höfðu skoðað sig um og rætt við starfsfólkið, sem allt var sjálfboðaliðar, staðnæmdust þau á gangstéttinni fyrir framan verslunina, litu hvort á annað og Ruth sagði „getum við ekki gert svona heima í Árósum?“
Prestur kinkaði kolli og þar með var það ákveðið.
Hjónin voru ekki algjörir nýgræðingar í þessum efnum. Þau höfðu um árabil efnt til flóamarkaðar í Árósum þar sem þau seldu fatnað og ýmislegt fleira sem almenningur í borginni hafði gefið Kristjánskirkjunni. Ágóðinn rann til Hjálparstofnunar dönsku kirkjunnar. En að opna verslun hafði hjónunum ekki dottið í hug fyrr en þau sáu Oxfam búðina í Bretlandi.
Fyrsta endurnotaverslunin opnuð
Heimkomin frá Bretlandi hófust prestshjónin handa við undirbúning þess að koma versluninni á fót. Það var í mörg horn að líta en 1. september 1972 var allt til reiðu og fyrsta endurnotaverslunin í Danmörku opnuð. Þessi verslun var, og er enn, til húsa á Gammel Munkegade 8 í Árósum, í húsnæði sem borgin lagði til.
Skemmst er frá því að segja að reksturinn fór vel af stað, enginn skortur var á sjálfboðaliðum til starfa og sömu sögu var að segja um vörurnar. Árósabúar tóku því fagnandi að geta losað sig við allt mögulegt úr kjöllurum og geymslum og viðskiptavinir í versluninni sömuleiðis ánægðir með að geta gert góð kaup.
Þau Ruth og Herluf lögðu mikla áherslu á að allar tekjur af versluninni skyldu renna óskiptar til Hjálparstofnunar kirkjunnar, ekkert væri borgað fyrir þær vörur sem verslunin fengi frá almenningi, starfsfólk (sjálfboðaliðar) fengi engin laun og yrði sjálft að borga kaffi á vinnustaðnum o.s.frv.
Endurnotapresturinn
Prestshjónin létu ekki nægja að opna þessu einu verslun í Árósum og til að gera langa sögu stutta stóðu þau á bak við hvorki meira né minna en stofnun 80 endurnotaverslana víðs vegar í Danmörku. Hjálparstofnun kirkjunnar rekur nú 130 slíkar verslanir.
Séra Herluf var kallaður „endurnotapresturinn“ og hann sagði einhverju sinni að þótt kannski væri hægt að misskilja þetta viðurnefni væri orðið í sínu tilviki hrós. Hann lagði líka ætíð mikla áherslu á að hlutur eiginkonunnar Ruth væri ekki síðri. Herluf Andersen var prestur við Kristjánskirkjuna í Árósum í 43 ár, lést áttræður að aldri árið 2013. Árósaborg heiðraði minningu prestsins og lítið torg í námunda við Kristjánskirkjuna ber nú nafn hans, Herluf Andersens Plads. Ruth Andersen er 84 ára og ern, hún kemur daglega í verslunina á Gammel Munkegade 8 og sinnir þar ýmsum störfum.
Margra ára deila við „hið opinbera“
Velgengni og vöxtur endurnotaverslananna fór ekki framhjá hinu sívökula auga innheimtumanna ríkisins. Séra Herluf fóru að berast bréf frá „hinu opinbera“ þar sem tollheimtumenn hins veraldlega valds í Danmörku bentu á að samkvæmt þeirra skilningi bæri að greiða söluskatt af þessari „höndlan“ eins og það var orðað. Klerkur svaraði og benti á að samkvæmt sínum skilningi bæri ekki að greiða söluskatt af þessari „höndlan“ ekki frekar en þegar maður „selur nágrannanum sófa.“
Ekki vildu tollheimtumennirnir sætta sig við þessa niðurstöðu en að lokum hafði klerkur betur, ríkið setti þó það skilyrði að eingöngu væru seldar í þessum endurnotaverslunum vörur sem einstaklingar eða fyrirtæki hefðu gefið. Í svarbréfi prests þar sem hann fagnaði niðurstöðunni sagði hann að það hefði verið legið fyrir, frá upphafi, að allt sem selt væri í endurnotabúðunum hefði verið gefið þangað.
950 endurnotaverslanir og svo allt hitt
Þegar prestshjónin frá Árósum ákváðu fyrir 46 árum, á breskri gangstétt, að opna endurnotaverslun í Árósum hafa þau líklega ekki rennt grun í að árið 2017 yrðu 950 endurnotaverslanir í Danmörku. Í raun eru þær þó miklu fleiri því í þessari tölu eru eingöngu þær sem byggja starfsemina á gjöfum og láta allar tekjur renna til mannúðarmála. Þótt fatnaður sé fyrirferðarmestur í endurnotaverslununum er þar hægt að finna flest sem nöfnum tjáir að nefna, húsgögn, búsáhöld, raftæki o.fl. o.fl.
Endurnotkun hefur stóraukist á síðustu árum
Því fer fjarri að góðgerðasamtök sitji ein að endurnotahitunni. Svonefndum antík verslunum (þar sem kaupmaðurinn kaupir og selur aftur) hefur fjölgað mikið, þær eru reknar á allt öðrum forsendum en verslanir Hjálparstofnunar kirkjunnar og hliðstæðra samtaka. Flóamörkuðum fjölgar líka jafnt og þétt og aukin áhersla er á endurnotkun byggingarefnis (múrsteina, timburs o.fl.). Við þetta bætist svo endurvinnsla sem eykst sífellt en það er nú önnur saga.