Þríeykið Hugleikur Dagsson og Sigurjónarnir tveir, Kjartansson og Sigurðsson (Sjón) stofnuðu költ og klassík hópinn Svarta Sunnudaga sem sýnir sérvaldar kvikmyndir í Bíó Paradís á sunnudagskvöldum alla vetur (haust fram á vor). Frá upphafi hafa ólíkir listamenn fengið að spreyta sig á því að gera plaköt fyrir kvikmyndasýningar Svartra Sunnudaga. Snemma í haust kviknaði sú hugmynd að tími væri til kominn að gefa út almanak með rjómanum af þessum listrænu kvikmyndaplakötum, en um er að ræða mjög eigulegan grip sem kemur til með að sóma sér vel á heimilum alls kvikmyndaáhugafólks. Því standa Svartir Sunnudagar nú fyrir söfnun á Karolina Fund fyrir almanakinu.
Hvaðan kom hugmyndin að því að stofna költ og klassík hópinn Svartir sunnudagar?
„Hún fæddist í spjalli milli Sigurjónanna (Kjartansson og Sjón) tveggja á facebook síðunni Költ- og gríðarlega undarlegar kvikmyndir. Síðan hafði annar þeirra samband við mig hvað varðar að byrja að sýna þessar blessuðu gríðarlega undarlegu kvikmyndir í Bíó Paradís. Ég stökk á tækifærið að fá að skipta mér af slíku því svona hefur alltaf vantað í íslenska bíómenningu. Í dag er ég byrjaður að húðskamma fólk sem hefur ekki mætt á Svarta Sunnudaga.“
Af hverju nafnið "Svartir sunnudagar"? Hefur það eitthvað að gera með þema kvikmyndanna, eða bara stuðlar það svona vel?
„Stuðlar eru alltaf góðir þegar maður þarf að selja eitthvað. Eins og þegar við vorum með Forboðin Febrúar, eða nýju Prump í Paradís kvöldin. Hugmyndin kemur frá Költ kvikmyndinni Black Sunday sem heitir reyndar upprunalega La maschera del demonio sem við sýndum snemma á fyrsta sýningarárinu.“
Hvað kom til að þið ákváðuðu að fá með ykkur í lið listamenn til að gera plaköt fyrir kvikmyndasýningar Svartra sunnudaga?
„Ég stal hugmyndinni frá Póllandi enda hefur það verið siður þar lengi vel að láta innlenda listamenn sjá um plakatahönnun, hvort sem kvikmynd sé költ eður ei. Auk þess er ég mikið fyrir fan art af öllu tagi. Alltaf gaman að sjá fólk túlka sínar uppáhalds kvikmyndir, en það er líka mjög gaman að láta einhvern sem hefur ekki einu sinni heyrt um viðkomandi kvikmynd myndskreyta auglýsinguna.“
Er þetta jólagjöfin í ár?
„Ö, já. Í fyrsta lagi eru dagatöl nauðsynleg og praktísk. Í öðru lagi erum við að tala um 12 einstök plaköt eftir helstu visúal listamenn landsins sem einnig representa helstu költara kvikmyndasögunnar. Og í þriðja lagi ertu að styrkja Bíó Paradís, sem er mikilvægasta menningarstofnun miðbæjarins.“
Almanakið kostar aðeins 3.000 kr og hópfjármögnun stendur yfir á karolinafund.is. Fólki stendur auk þess til boða að tryggja sér klippikort eða árskort í Bíó Paradís - og tryggja sér þar með Almanak Svartra Sunnudaga 2018 í kaupbæti.