Sýklalyfjaónæmi er eiginleiki sem margar sýkjandi bakteríur hafa tileinkað sér. Í umhverfi þar sem mikið er um sýklalyf er stöðugt áreiti á örveruflóruna. Það getur orðið til þess að breytingar verða á erfðaefni bakteríanna sem gerir þeim kleift að þola sýklalyfin, til dæmis með því að brjóta þau niður í efnasambönd sem eru bakteríunum skaðlaus.
Þessar aðstæður eru til dæmis til staðar í matvælaiðnaði erlendis þar sem dýrum eru sífellt gefin sýklalyf þó engin sýking sé til staðar. Að sama skapi geta þessar aðstæður myndast í okkur sem einstaklingum ef við notum sýklalyfin að óþörfu eða ekki rétt. Í slíkum tilfellum skiljum við eftir sýklalyf í líkamanum þegar enn eru sýkjandi bakteríur til staðar. Þessar bakteríur reyna svo hvað þær geta til að lifa af í lágum styrk sýklalyfja og í sumum tilfellum tekst þeim það með því að þróa með sér ónæmi gegn lyfinu.
Þegar baktería hefur fengið eiginleikann til að sigrast á sýklalyfjaónæminu er það sú baktería sem nær að fjölga sér og viðhalda tegund sinni.
Hversu útbreitt er sýklalyfjaónæmi?
Nýlegar rannsóknir gefa til kynna að sýklalyfjaónæmi sé líklega mikið algengara en talið var. Sérstaklega á þetta við í umhverfi þar sem dýr eru ræktuð til manneldis.
Á ráðstefnu Bandaríska örverufræðifélagsins sem haldin var í sumar kom fram að jafnvel ónæmi gegn sjaldgæfum sýklalyfjum hefur aukist gríðarlega. Þetta eru sýklalyf sem hingað til hafa einungis verið notuð í ítrustu neyð, þegar önnur sýklalyf virka ekki.
Áhrif á mannfólk eru einnig þegar orðin mikil og samkvæmt Miðstöð sjúkdómavarna Bandaríkjanna (CDC) sýkjast í það minnsta tvær milljónir manna í Bandaríkjunum einum saman á ári af ónæmum bakteríum og 23.000 látast vegna þeirra.
Ljóst er að staðan er þegar orðin slæm og fer hún síst batnandi.
Hvaða aðferðum er helst beitt til að snúa þessari þróun við?
Þó staðan í dag sé ansi ógnvekjandi er ekki öll von úti enn um að hægt verði að finna lyf gegn þessum ofurbakteríum.
Fjölmargar nálganir hafa verið notaðar til að finna ný lyf og mörg þeirra lyfja sem eru í farvatninu eru þess eðlis að það er mun erfiðara en áður fyrir bakteríurnar að þróa með sér ónæmi. Rannsóknir þar sem verið er að nýta bakteríusýkjandi veirur er dæmi um slíkt. Bakteríusýkjandi veirur, svokallaðir fagar, myndu ekki hafa áhrif á sjúklinginn því þær sérhæfa sig í að sýkja og drepa bakteríur.
Því miður eru ekki líkur á því að hægt verði að snúa við þeirri þróun sem þegar hefur orðið. Með því að nota sýklalyf skynsamlega getum við vonandi komið í veg fyrir frekari útbreiðslu ónæmis og þá sérstaklega á þeim lyfjum sem seinna koma.