Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason hefur undanfarin 4 ár verið að semja ný lög við íslensku þjóðsögurnar. Væntanleg er platan Margt býr í þokunni sem hefur að geyma þessi 10 nýju íslensku þjóðlög með 10 teikningum eftir listmálarann Þránd Þórarinsson.
Hvað kom til að þú fórst að semja lög við íslenskar þjóðsögur?
Hugmyndin fæddist þegar ég var að vinna sem framkvæmdastjóri Reykjavík Folk Festival fyrir nokkrum árum og uppgötvaði að ég þekkti íslenska þjóðlagatónlist eiginlega ekki, ekkert meira en „Krummi svaf í klettagjá“ og svoleiðis. Mér fannst það ekki hægt verandi þessi þjóðlagatónlistarnölli sem ég er og ákvað því að skoða hana. En þar sem ég les ekki nótur og mest allt efnið sem ég komst í á bókasöfnum og svoleiðis voru gömul nótnasöfn komst ég aldrei neitt mikið áfram með það. En ég heillaðist af textunum og sögunum á bak við lögin sem leiddi til þess að ég fór að sanka að mér og lesa íslenskar þjóðsögur.
Um þetta leyti var ég akkúrat á leiðinni til Lovísu (Lay Low) og Agnesar á Riftúni í Ölfusi í tveggja daga heimsókn til þess að semja músík með Lovísu. Ég las þjóðsöguna um Selshaminn (Sjö börn á landi, sjö börn í sjó) kvöldið áður en ég lagði af stað til þeirra og heillaðist strax af henni. Ég fékk þá hugmynd um að semja eitthvað við þessa sögu og við Lovísa notuðum gamalt kántrílag sem við elskum bæði sem grunn og sömdum nýjan texta við þessa sögu þá um kvöldið. Þetta lag heitir Selurinn og er að finna á plötunni.
Svo bara hélt ég áfram í þessu. Las allt sem ég komst í og alltaf þegar ég fann einhverja sögu sem hreyfði við mér eða mér fannst áhugaverð þá merkti ég við hana og kom síðan aftur að henni seinna og prófaði að semja eitthvað við hana. Þetta gátu verið vísur sem oft er að finna í sögunum sem ég samdi lag við, eða saga sem ég samdi bæði lag og texta við eða eins og í tilviki Reynisins þá kannaðist ég við minni úr þeirri þjóðsögu úr gömlu skosku þjóðlagi og notaði því sönglínuna úr því lagi sem grunninn að nýja laginu og samdi texta við. Þetta er eðli þjóðlagatónlistarinnar. Hún er síbreytileg og er endurnýjuð og endurunninn eftir þörfum í hverju menningarsamfélagi fyrir sig.
Ég vann að þessu verkefni í rispum og svona á kantinum í sirka 3 ár þangað til að ég var kominn með 10 lög sem ég var ánægður með. Það hjálpaði mikið til að ég fékk úthlutað listamannalaunum og gat lokað mig af í nokkrar vikur í senn og einbeitt mér fullkomlega að þessu. Það var náttúrulega mikil rannsóknarvinna sem fólst í þessu. Ég hef ekki tölu á því hversu margar bækur ég las og endurlas og lá yfir allan þennan tíma. Ég á mér athvarf á Galtarvita við Súgandafjörð á Vestfjörðum sem vinur minn Óli á og hef verið að fara þangað síðastliðin sumur að semja og tók þarna tvö sumur þar sem ég lá algjörlega í þessari vinnu án truflunar frá hinum stafræna heimi. Það var dálítið mikilvægt að geta stimplað sig svona út því að ég vildi skrifa textana á plötunni með því tungutaki sem er að finna í þjóðsögunum og þess vegna var gott að geta verið einn í náttúrunni að nöllast í þessu svo vikum skipti án þess að þurfa að skrifa tölvupósta eða eitthvað svoleiðis.
Þegar ég fór að sjá einhverja heildarmynd á þessu verki tók ég eftir því að sögurnar sem ég merkti við og stóðu af einhverjum ástæðum upp út áttu það flestar sameiginlegt að fjalla í grunninn um mjög mennsk og tiltölulega “raunsæja” hluti. Það sem heillaði mig mest og ég hafði mestan áhuga á var raunveruleikinn á bak við sögurnar. Fólkið á bak við þær og aðstæðurnar sem þessar sögur urðu til í. Það er nefnilega málið að þegar þessar sögur gerast eru þær raunverulegar og sannar fyrir því fólki sem upplifir þær. Þetta var raunveruleiki þess tíma. Mjaltastúlkan sem er ein út í fjósi er 100% viss um að hún sér andlit á glugga og heyrir í rödd kveða einhverja vísu. Smaladrengurinn á heiðinni í þoku er 100% viss um að hann hafi rekist á tröll eða heyrt í útilegumönnum kalla. Það var þessi mennska á bak við sögurnar sem ég tengdi mest við og varð mest innblásinn af og reyndi að koma til skila í lögunum mínum.
Snemma í ferlinu kynntist ég Þrándi Þórarinssyni listmálara, sem er frændi Arnar Eldjárns og Hulla vina minna og við tengdum strax yfir sameiginlegum áhuga okkar á þjóðsögum. Það er nefnilega ekki margir á okkar reki sem eru búnir að lauga sig í þessu af einhverju viti eins og við tveir þannig að við náðum strax mikilli tengingu og hann var með í ferlinu í alveg góð tvö ár. Ég sendi reglulega á hann demó og pælingar og hann gerði svo 10 mjög fallegar teikningar byggðar á þessum 10 lögum sem finna má á Margt býr í þokunni. Þessar teikningar fylgja með vínylnum í stórum bæklingi ásamt öllum söngtextunum. Vínyllinn verður sem sagt mjög veglegur pakki.
Hvernig gekk að vinna tónlistina?
Það gekk mjög vel enda var gerjunartíminn búinn að vera langur. Langflest lögin voru búin að vera að veltast um í kollinum á mér í 3 ár áður en við byrjuðum að taka tónlistina upp. Þannig að ég vissi alveg hvað ég vildi. Ofan á það þá er þau flest byggð á gítarleik mínum og söng og því frekar einföld í upptöku. Guðmundur Óskar Guðmundsson sem er búinn að vera mín hægri hönd í allri minni tónlist sl. 6 ár pródúseraði plötuna og við tveir tókum hana upp í stúdíóinu hans úti á Granda í mörgum stuttum sessjonum á árstímabili. Það var mjög þægilegur prósess því við spiluðum á öll hljóðfæri og sungum allt inn að mestu tveir en fengum svo Örn Eldjárn til að spila á pedal-steel gítar í nokkrum lögum í lok ferlisins. Svo útsetti vinur okkar Hjörtur Ingvi Jóhannsson parta fyrir lítinn kór sem kryddar og stækkar nokkur lög mjög vel. Þetta var í heildina mjög átakalaust og „smooth“ ferli.
Hvað kom til að þú ákvaðst að fara með útgáfu tónlistar þinnar í hópfjármögnun?
Ég hef aldrei prófað að fara þessa leið áður og langaði bara til að prófa það. Hafði heyrt marga félaga mína úr tónlistinni tala vel um þetta og lét bara vaða. Þetta er sniðug leið til þess að tryggja það að koma plötunni beint frá þér til þeirra sem hafa áhuga á að heyra hana og svo er sjálf fjáröflunarherferðin mjög góð leið til að kynna allt verkefnið.
Fjáröflunin gekk fáránlega vel og við náðum lágmarksmarkmiðinu okkar á undir tveim vikum sem er helmingi styttri tími en ég gerði ráð fyrir. Það var frábært að finna fyrir svona miklum stuðningi og áhuga strax. Ég hafði í raun og veru enga hugmynd um hvort að einhver hefði áhuga á þessu nördaverkefni eða ekki. Það er ekki eins og íslensku þjóðsögurnar séu eitthvað sem sé búið að vera í deiglunni upp á síðkastið. En það er náttúrulega eðli þjóðsagnanna að lifa með þjóðum og þannig er það greinilega með íslenska þjóðararfinn. En það þarf að hlúa að honum og halda honum við og nýjar og ferskar hendur og hausar að vinna með hann til þess að hann falli ekki í gleymsku. Ég vona að þessi plata geti lagt eitthvað að mörkum í þeirri vinnu.
Fjáröflunin verður í gangi til 4. desember og þar er ennþá hægt að kaupa plötuna beint af mér og ég sendi hana svo í pósti þegar hún kemur úr framleiðslu. Þegar Karolina Fund söfnunin er búin, 4. des. kemur platan út stafrænt á Spotify, iTunes og öllum þessum helstu streymisveitum og þá verður líka hægt að kaupa plötuna í vefverslun minni. Svo þegar hún kemur til landsins verður auðvitað hægt að nálgast hana í öllum helstu plötubúðum. En það verða einungis framleidd 300 eintök af henni og nú þegar er ég búinn að ráðstafa um 100 þannig að fólk verður að hafa hraðar hendur ef það vill tryggja sér eintak.
Er tónlistarmarkaðurinn breyttur frá því að þú komst fyrst að honum?
Já, hann mjög mikið breyttur á þeim 10 árum sem ég hef verið starfandi tónlistarmaður. Ég var í Sprengjuhöllinni og við náðum í skottið á gamla tónlistarbransanum þegar við gáfum út fyrstu plötuna okkar 2007. Þar seldum við 10.000 eintök eða eitthvað og fórum í Skífuna og Hagkaup í Smáralind þar sem fólk beið í röðum til að kaupa sér geisladiska og við að árita plötur og moka út. Þetta gerist aldrei í dag. Skífan er náttúrulega farin á hausinn sem og sala geisladiska er nánast engin á Íslandi í dag miðað við það sem áður var.
Vínylplötumarkaðurinn er nokkuð lifandi og skemmtilegur og auðvitað fáránlega mikil gróska og stemming í gangi en neysla á tónlist hjá hinum almenna hlustanda er allt önnur. Þetta er óneitanlega eitthvað skakkt allt saman og þetta hlítur bara að ná einhverri lendingu einhvern tímann en þetta millibilsástand sem við lifum í núna er dáldið mikið ströggl. Eina sem hægt er að gera er að halda bara áfram að búa til tónlist og taka þátt. Ef maður bakkar í vörn er þetta búið spil. Ég er nú þegar farinn að böggast í hljómsveitinni minni og suða í þeim að koma að æfa upp nýtt efni sem ég á á lager og vil koma út. Þetta er bara eins og framsóknarmenn segja; Árangur áfram - ekkert stopp.
Verkefnið er að finna á síðu Karolina Fund.